„Ossom útlit býður upp á hárkollur, hártoppa, höfuðföt og fylgihluti, hármeðferðir, hársvarðargreiningar og náttúrulegar hárvörur,“ segir Sigríður Margrét Einarsdóttir, eða Sirrý, hársnyrtimeistari og meðeigandi Ossom. „Við getum einnig boðið upp á almenna hársnyrtingu og förðun, en Sólveig Birna Gísladóttir, vinkona mín og meðeigandi, er förðunarfræðingur sem hefur rekið eigin förðunarskóla og hefur mikla reynslu úr bæði leikhúsi og sjónvarpi.

Við bjóðum upp á einstakar vörur sem eru sérhannaðar með hárlos og önnur hárvandamál í huga,“ segir Sirrý. „Hársvörðurinn skiptir rosa miklu máli. Ef þú ert ekki með heilbrigðan hársvörð ertu ekki með heilbrigt hár. Þetta er eins og með plönturnar, þú þarft að vökva ræturnar, en ekki blöðin.“

Algengasta vandamálið sem fólk glímir við er hárlos og það hefur komið Sirrý og Sólveigu á óvart hversu margt fólk af öllum kynjum glímir við alopecia. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR

Samstarf við hjálpartækjaframleiðanda

„Ég hef starfað sem hársnyrtimeistari í 25 ár en stofnaði Ossom með Sólveigu í desember 2020,“ segir Sirrý. „Þetta er hugmynd sem ég hafði verið með í maganum lengi. Ég hafði lengi leitað að öllu sem tengdist hárlosi og lausnum á hárvandamálum, því það er ekki nóg af lausnum í boði á Íslandi. Ég rakst svo á ítalska fyrirtækið Cesare Ragazzi Laboratories og fór að kynna mér það nánar og varð þá yfir mig spennt. Ég hef aldrei heillast eins mikið og niðurstaðan varð sú að við fengum einkaleyfi fyrir því að vera með klíník á Íslandi og urðum þar með 28. landið til að opna slíka klíník.

Þetta er 50 ára gamalt fyrirtæki sem byrjaði sem venjulegt hárkollufyrirtæki en hefur verið duglegt að þróa lausnir og einblína á hárlos og hársvarðarvandamál. Í samvinnu við Háskólann í Bologna hefur það hannað hárgreiningarmeðferð sem greinir umframolíuframleiðslu í hársverði, rakastig og sýrustig og tekur smásjármyndir af hári, hársverði og hársekkjum,“ segir Sirrý. „Það gefur okkur góðar forsendur til að meta hvort við getum hjálpað eða ekki, en við erum líka að hjálpa þeim sem hafa mikla flösu, viðkvæma eða feita húð eða glíma við önnur skyld vandamál.

Hármaskar fyrir mismunandi vandamál sem allir stuðla að heilbrigðum hársverði. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR

Cesare Ragazzi Laboratories bjóða líka upp á nokkuð sem kallast CNC System sem er notað við gerð hártoppa og hárkollna. Þá er tekin þrívíddarmynd af höfðinu og mót af svæðinu sem þarf að hylja og svo er það sent til Ítalíu þar sem höfuðið er prentað út í raunstærð og svo tekur við þriggja mánaða ferli þar sem hverja einasta hári sem þarf er komið vandlega fyrir,“ segir Sirrý. „Þá er tekið mið af húðlit og hártegund og gerðar mjög sterkar gæðakröfur, enda er fyrirtækið skilgreint sem hjálpartækjaframleiðandi á Ítalíu.“

Mikil áhersla á rétt vinnubrögð

„Í sumar fórum við til Ítalíu á námskeið til að læra á CNC, en það krefst mjög nákvæmra mælinga og það er lögð mikil áhersla á að við lærum að gera þetta rétt. Núna er fulltrúi frá fyrirtækinu að fylgja þessu námi eftir og hjálpa okkur af stað með okkar fyrstu kúnna,“ segir Sirrý. „Við fáum svo fleiri heimsóknir frá þessum fulltrúa til að tryggja að okkur sé 100% treystandi til að sinna þessum meðferðum áður en við förum að gera það einar.

Hársvörðurinn skoðaður með smásjármyndavél. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR

Ég missti sjálf hárið og var að fá nýja hárið mitt frá Cesare Ragazzi Laboratories. Núna er ég með sítt og fínt hár, en áður var það gisið,“ segir Sirrý ánægð.

Fullkomið næði í meðferðum

„Þessi tækni gerir okkur kleift að bjóða einstakar lausnir sem fást hvergi annars staðar á Íslandi. Við getum til dæmis búið til hártoppa fyrir karla sem eru með smá hár að ofan án þess að það þurfi að raka hárið sem er undir. Þetta eyðileggur því hvorki hár né húð,“ segir Sirrý. „Þetta er líka ekki kallað hárkolla heldur annað höfuðleður, eða „second scalp“, því það er örþunn filma sem leggst yfir húðina sem er alveg sniðin að höfuðlagi, húðlit og hártegund hvers og eins.

Havogen 5 plástur.
Græna meðferðarlínan er sérstaklega hönnuð fyrir hárlos og veikbyggt hár.
Gula línan er til að koma í veg fyrir að umfram olíumyndun í hársverði.
Fjólubláa línan er hönnuð fyrir þurran og viðkvæman hársvörð.

Það er opið hjá okkur milli 10-17, en ef fólk vill koma og máta eða í hárgreiningu viljum við að fólk hringi og bóki tíma,“ segir Sirrý. „Við leggjum áherslu á að bjóða faglega og einstaklingsmiðaða þjónustu og þess vegna erum við með sér herbergi fyrir þetta til að gefa fólki bæði tíma og næði.“

Fyrir og eftir CNC-meðferð. MYNDIR/AÐSENDAR

Ótrúlega margir með hárlos

„Þjónustan okkar er fyrir alla sem finnst þeir þurfa á einhverri hjálp að halda varðandi hárlos eða vesen í hársverði. Við getum líka hjálpað þeim sem hafa misst hár vegna skurðaðgerða eða slysa, nú eða gefið fólki hárlengingar ef hárið er þunnt í endann. Við höfum líka verið með kúnna sem hafa þurrk og exem í hársverði og bjóðum upp á tæki sem sótthreinsa hársvörðinn, höfuðnuddtæki sem örvar blóðflæði og ýtir undir árangur meðferða, innrauða ljósmeðferð sem minnkar bólgur og opnar hársekki og bláljósameðferð sem er sótthreinsandi og í líkingu við það sem er notað fyrir psoriasis,“ útskýrir Sirrý. „Það er líka hægt að koma í hárspa-meðferð, en hún ýtir undir virkni hármeðferðanna sem fólk sinnir heima fyrir."

Estrid Þorvaldsdóttir er mjög ánægð með Havogen 5 plástrana. MYND/AÐSEND

Ótrúlega ánægð með Havogen Five

Estrid Þorvaldsdóttir er jógakennari sem er að klára meistaranám í hagnýti menningarmiðlun. Það hefur tekið á að sinna náminu meðfram fullu starfi og foreldrahlutverkinu, svo hún hefur þjáðst af streitu sem olli hárlosi.

„Ég var búin að heyra af því að þjónustan hjá Ossom Útlit væri mjög góð svo ég ákvað að leita til þeirra vegna hárlossins, en ég var komin með skallablett vegna streitu,“ segir Estrid. „Þær sýndu mér þennan Havogen 5 plástur frá Ítalíu og ég prófaði hann og þá snarhætti hárlosið og hár fór aftur að vaxa á skallablettinum.

Ég tók líka eftir því að þetta nærir húðina vel og gerir hana olíukenndari þegar hún þornar upp vegna streitu, það er eins og það séu efni í þessu sem endurhlaða húðina,“ segir Estrid. „Ég hef notað plástrana af og til í sex mánuði og hárgreiðslukonan mín sér svakalega breytingu á mér. Fólk hefur líka haft orð á því að ég sé unglegri og líti betur út, þannig að þetta er greinilega gott fyrir útlitið líka.

Ég fann strax mun þegar ég setti þetta á hnakkann og finn dagamun þegar ég er með plásturinn. Núna er hárið alltaf í rosalega góðu standi þegar ég er með hann,“ segir Estrid. „Ég er enn að klára námið og er því enn í streituástandi, en kannski þarf ég minna á plástrunum að halda þegar hún minnkar. En í bili finn ég hvernig plástrarnir hjálpa ekki bara hárinu heldur minnka þeir streitu og vöðvabólgu almennt og róa niður kerfið.

Ég mæli því algjörlega með Havogen 5 plástrunum, sérstaklega fyrir þá sem glíma við sífellda streitu. Mér hefur þótt virknin alveg ótrúleg,“ segir Estrid að lokum.