Með heilsusamlegum lífsstíl, þar sem hreyfing spilar stórt hlutverk, er hægt að koma í veg fyrir fjögur af hverjum tíu krabbameinum. Krabbameinsfélagið og aðildarfélög þess eru stöðugt að leita leiða til að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum, fækka þeim sem veikjast, fjölga þeim sem lifa eftir krabbameinsgreiningu og bæta lífsgæði bæði sjúklinga og aðstandenda.

Starf félaganna byggir alfarið á stuðningi almennings og fyrirtækja í landinu. Þegar fólk hleypur fyrir Krabbameinsfélagið leggur það sitt af mörkum og félagið hvetur hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu áfram undir slagorðinu „Ég hleyp af því ég get það“.

Slagorðið er fengið frá Gunnari Ármannssyni hlaupagarpi, sem þekkir krabbamein af eigin raun. Í ár hleypur hann fyrir félagið með 71 árs gömlum föður sínum, sem er hjartveikur og hefur einnig gengið í gegnum krabbameinsmeðferð.

Sjálfur hefur Gunnar hlaupið 42 maraþon í 19 löndum og sjö heimsálfum, en á síðasta ári hljóp hann maraþon á Suðurskautslandinu og kom svo heim í krabbameinsmeðferð. Gunnar segir hlaupin hjálpa honum að halda líkamanum heilbrigðum og gefi honum vísbendingu um hvort krabbameinið sé að láta á sér kræla.

Fjölbreyttur ávinningur

„Það er svo margt gott sem gerist í líkamanum við hreyfingu og með því að hafa reglulega og markvissa hreyfingu sem hluta af daglegu lífi minnkum við líkur á krabbameinum,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

„Engar töfralausnir eru til sem uppskrift að heilbrigðu lífi, en til eru viðurkenndar leiðir til að auka lífsgæði með því að hlúa að grunnþörfum sem snúa að næringu, hreyfingu, svefni og hugrækt,“ segir Halla.

Góð hreyfing hefur áhrif á efnaskipti, blóðþrýstingur og kólesteról lækka, hjartað styrkist og lungun auka súrefnisflæði til líffæra og vöðva, sem auka líkamlega orku og draga úr þreytu. Við hreyfingu styrkjast bein, liðamót og vöðvar og líkur á sykursýki minnka. Andleg líðan batnar og hefur áhrif á lífslíkur og lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein. Líkamleg hreyfing stuðlar einnig að heilbrigðri líkamsþyngd sem getur dregið enn frekar úr líkum á krabbameinum.

„Við segjum stundum að fólk þurfi ekki að vera maraþonhlauparar til að hlaupa eða ganga í Reykjavíkurmaraþoninu og við hvetjum bæði unga og aldna til að vera með. Það skiptir máli að taka þátt og slagorð Gunnars á einstaklega vel við; Ég hleyp af því ég get það!“ segir Halla að lokum.

Krabbameinsfélagið verður með myndabás á stórsýningunni FIT & RUN 2020, sem verður haldin í Laugardalshöll 20. og 21. ágúst. Þar dreifir félagið klöppum með heilsuráðum sem má nota til að hvetja hlauparana áfram.