Jófríður Leifsdóttir deildarstjóri hefur starfað hjá Isavia frá því um mitt ár 2014. Hún er með BS í viðskiptafræði. Nú standa yfir miklar framkvæmdir og stækkun á Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

„Hjá mér liggur meðal annars rekstur ýmissa þjónustusamninga við verktaka sem gerðir eru að undangengnum útboðum, svo sem um ræstingu í flugstöðinni, vetrar- og sumarþjónustu á lóð, sorphirðu og fleira, svo mín daglegu verkefni snúa mikið að rekstri og samningastjórnun. Það er einnig mikil samvinna á milli deilda og sviða, hvort sem það snýr að framkvæmdaverkefnum, upplifun og þjónustu við farþega eða öðru og einnig samskipti við ytri aðila sem starfa á Keflavíkurflugvelli,“ útskýrir hún.

Framkvæmdir við stækkun flugstöðvarinnar munu standa yfir næstu árin og það verður spennandi að sjá þær taka á sig mynd, undirbúa okkur fyrir umfangsmeiri rekstur á næstu árum, en á sama tíma viðhalda góðum árangri.

Jófríður segir að þetta sé yfirgripsmikið verkefni. „Já, ég myndi segja það. Deildin mín fellur undir svið þjónustu og samhæfingar, sem er ábyrgt fyrir þjónustu við farþega og samhæfingu rekstrar á Keflavíkurflugvelli. Það eru því fjölmargir snertifletir í daglegum rekstri. Samningur um ræstingu er einn af umfangsmestu þáttunum í rekstri deildarinnar, en sá samningur var nýlega boðinn út og urðu Dagar þar hluskarpastir.

Sjáfbærni og umhverfisvæn stefna

Ein nýjungin í því útboði var aukin áhersla á umhverfisþætti í valforsendum, en hún tók til 30 prósenta útboðsins, sem er mögulega hæsta hlutfall af umhverfisþáttum í útboði á Íslandi. Þar er verið að meta eldsneytisnotkun og þar með kolefnisspor, umhverfisvæna efnanotkun og ISO 14001 vottun. Þessar áherslur eru í skýru samræmi við sjálfbærnistefnu okkar hjá Isavia, en við ætlum að verða kolefnislaus í okkar eigin rekstri árið 2030.

Við erum að auka sjálfbærni í flugvallarsamfélaginu á Keflavíkurflugvelli og viljum virkja alla sem þar starfa með okkur í þá vegferð,“ segir Jófríður, en auk hennar starfa átta umsjónarmenn eigna og búnaðar í hennar deild. Þessir starfsmenn sinna ýmiss konar eftirliti og viðbragðsverkefnum auk þjónustufulltrúa í brottfarasal. „Síðan hef ég nýlega ráðið í stöðu sérfræðings sem hefur störf á næstu vikum.“

Spennandi þróun

Talsverðar breytingar eiga sér stað í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli sem farþegar munu sjá á næstunni. „Breytingar sem farþegar munu helst geta orðið varir við á næstu vikum og mánuðum eru opnun nýrrar landamærabyggingar og einnig eru fyrirhugaðar breytingar á bílastæðum umhverfis flugstöðina á næstu mánuðum. Einnig er í framkvæmd stækkun um 22.000 fermetra en breytingar verða meðal annars í komuverslun Fríhafnar og töskuafhendingu í komusal.

Áhrifin að loknum framkvæmdum munu skila sér í auknum afköstum og betri aðstæðum, en þau eru einnig nokkur á meðan á framkvæmdum stendur. Við leggjum áherslu á samstarf og gott skipulag á milli framkvæmdaeininga og rekstrarhlutans til að lágmarka bein áhrif á farþega á framkvæmdatíma. Yfirstandandi framkvæmdir við bygginguna eru eins og stendur nokkuð aðskildar frá þeim hluta sem er í fullum rekstri og það dregur úr því að gestir verði fyrir áhrifum,“ segir Jófríður og bendir á að ýmsar nýjunar séu fram undan.

„Nú stendur yfir innleiðing á nýjum innritunarlausnum og verið er að uppfæra farangurskerfið, breytingar sem munu auka afkastagetu þess til muna,“ bætir hún við.

Jófríði finnst starfið bæði fjölbreytt og skemmtilegt. „Fyrir mig persónulega skiptir máli að fá tækifæri til að sinna fjölbreyttum verkefnum og takast á við nýjar áskoranir. Umhverfið er mjög kvikt og mér finnst gott að sinna ekki sömu verkefnum dag eftir dag og að suma daga þarf að hlaupa hraðar en aðra, en svo gefst betra næði til að sinna verkefnum þess á milli. Við störfum líka í nokkuð alþjóðlegu umhverfi, erum í samstarfi við flugvelli erlendis og alþjóðlega ráðgjafa, sem víkkar oft sjóndeildarhringinn í verkefnum.“

Fjölbreytt starf og margar áskoranir

Þegar hún er spurð hvort eitthvað hafi komið henni á óvart í starfinu, svarar hún: „Ég þekkti ekki til starfseminnar á Keflavíkurflugvelli þegar ég hóf þar störf, ég hef verið búsett í Reykjanesbæ frá árinu 1993 og er því ekki alin upp á Suðurnesjum og hafði því ekki reynslu af til dæmis sumarstörfum þar, eins og margir hér hafa, svo það var auðvitað ýmislegt sem kom á óvart í upphafi. Á þessum árum sem ég hef starfað hjá Isavia höfum við gengið í gegnum bæði mikinn og hraðan vöxt en líka erfiða tíma þar sem þurfti að draga saman seglin og bregðast við ýmsum áskorunum, svo maður er kannski orðinn ýmsu vanur og reynslunni ríkari,“ segir hún.

„Samfélagið á Keflavíkurflugvelli er heilt yfir lifandi og það má alltaf gera ráð fyrir einhverjum nýjungum. Það má kannski frekar segja að fram undan séu mjög áhugaverðir tímar. Framkvæmdir við stækkun flugstöðvarinnar munu standa yfir næstu árin og það verður spennandi að sjá þær taka á sig mynd, undirbúa okkur fyrir umfangsmeiri rekstur á næstu árum, en á sama tíma viðhalda góðum árangri. Þar held ég að mörg spennandi tækifæri og áskoranir liggi, meðal annars í því að hugsa í snjallari lausnum og að vera opin fyrir þróun og nýjungum en ekki festast í að gera hlutina nákvæmlega eins og við gerum þá í dag. Það sem virkar í dag hentar kannski ekki best eftir fimm eða tíu ár.“

Breytingar í takti við þarfir

Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir hefur starfað hjá Isavia síðan í nóvember 2013. Ábyrgðarsvið hennar deildar er að hámarka tekjur innan flugstöðvarinnar af verslunar- og veitingasvæðum, auglýsingum og viðbótarþjónustu. Gunnhildur stýrir níu manna teymi sérfræðinga og verkefnastjóra.

Gunnhildur er fædd og uppalin í Reykjanesbæ og er viðskiptafræðingur BS og MBA. „Flugstöðin er dýnamísk og alltaf að breytast í takti við þarfir viðskiptavina; flugfélaga, farþega og viðskiptafélaga. Fram undan eru miklar breytingar sem farþegar mun verða varir við. Seint á þessu ári munum við taka í notkun 20 þúsund fermetra stækkun með stækkuðu farangurskerfi, stærri töskusal, stærri komufríhöfn, nýjum brottfarahliðum og veitingasvæði,“ upplýsir hún og bætir við að á næsta ári hefjist stærsta framkvæmd sem farið hefur verið í, þegar um 25 þúsund fermetrar verða byggðir við hjarta flugstöðvarinnar.

„Við áætlum að verkið taki um 5 ár en verði algjör bylting á þjónustu við farþega og undirstaða þess að geta svo fjölgað hliðum og aukið afkastagetu flugvallarins,“ segir Gunnhildur og bætir við: „Núverandi verslunar- og veitingasvæði er að taka breytingum á þessu ári til þess að við getum veitt farþegum góða þjónustu á meðan á framkvæmdatímanum stendur. Hluti af núverandi svæðum mun lokast sökum framkvæmda og flæði farþega milli bygginga mun breytast.“

Jómfrúin og Elda í flugstöðinni

Gunnhildur segir að í vor verði tveir nýir veitingastaðir opnaðir. „Það eru Jómfrúin og Elda, nýr bistrostaður, sérhannaður að þörfum flugstöðvarinnar. Með þessum tveimur nýju stöðum erum við að svara þörfum farþega um meira úrval, meiri þjónustu og aukin gæði í veitingum. Hægt verður að panta mat frá sætinu sínu í gegnum símann og fá þjónustað til borðs til að sleppa við raðir og báðir staðir verða með úrval rétta sem hægt verður að fá afgreidda á 15 mínútum,“ greinir hún frá og bætir við að ný og nútímaleg gleraugnaverslun Eyesland verði einnig opnuð í vor í flugstöðinni. „Þar verður mikið úrval af vinsælustu merkjum í sjóngleraugum, sólgleraugum og íþróttagleraugum sem dæmi. Hægt verður að skoða og fyrirframpanta á heimasíðu verslunarinnar og í verslunum innanlands til að fá sem hröðustu þjónustuna og einnig munu þau framleiða sjóngleraugu jafnóðum á staðnum.

Útboði á þremur nýjum kaffihúsum með breiðu veitingaúrvali lýkur nú í febrúar og munu þeir staðir opna næsta haust á mismunandi stöðum í flugstöðinni. Þar ætlum við að þjónusta sérstaklega vel þá sem eru á hraðferð en vilja gæðamat og drykki til að borða á staðnum eða taka með sér um borð. Við hlökkum mikið til að sjá niðurstöður í þessu útboði en samkeppnin er sterk og við erum viss um að farþegar verði mjög ánægðir með þessa nýju viðbót.

Meiri fjölbreytni í vor

Á næstu tveimur mánuðum munum við opna útboð á verslunum með gjafavörur og útivistarfatnað, fjármálaþjónustu og tveimur stórum matarmörkuðum. Þessar þjónustur munu opna á þessu ári og á því næsta.

Lögum samkvæmt eru öll stór verslunar- og veitingatækifæri boðin út á Evrópska efnahagssvæðinu. Okkur er heimilt að semja án úboðs um skemmri tækifæri sem við höfum verið að gera með pop-up svo sem hjá Epal, Kormáki og Skildi, Jens og Maikai og við munum áfram leitast eftir að gera slíkt enda frábært tækifæri til að prófa nýjungar og bjóða farþegum upp á fjölbreytni,“ segir Gunnhildur en fjöldi brottfarar- og komufarþega er orðinn sambærilegur og árið 2019.

„Við gerum reglulega mælingar á ánægju með þjónustu í flugstöðinni og þar hefur verslunar- og veitingaþjónustan komið mjög vel út í samanburði við aðrar flugstöðvar sem hvetur okkur áfram til góðra verka og við viljum gera enn betur þarna,“ segir Gunnhildur.

Hún var spurð hvort starfið væri skemmtilegt og það stóð ekki á svari: „Ég hélt alltaf að ég væri svona týpa sem myndi ekki endast lengur en 5 ár í sama starfi því ég þrífst á að takast sífellt á við nýjar áskoranir. Ég er núna á tíunda starfsári og ég er enn með mikinn eldmóð fyrir starfinu enda starfa ég í sífelldri nýsköpun og þróun. Teymið mitt er mjög metnaðarfullt og samstillt og verkefnin skemmtileg, krefjandi og gefandi. Vinnudagurinn getur orðið mjög langur en við munum eftir að halda upp á litlu sigrana sem þá stóru, erum jákvæð og hvetjandi við hvert annað.“