Jóhanna Guðmundsdóttir, verkefnastjóri fjáröflunar hjá Rauða krossinum, segir Mannvini mjög mikilvæga til að hægt sé að halda úti því öfluga starfi sem Rauði krossinn vinnur bæði hér heima og erlendis. „Rauði krossinn hefur alltaf verið með styrktaraðila en Mannvinir, í því formi sem þeir eru í dag, byrjuðu árið 2010. Mannvinir eru sérstakir að því leyti að helmingur styrksins fer til verkefna erlendis og helmingurinn nýtist innanlands en oft eru félög bara að styrkja verkefni annaðhvort hér heima eða úti,“ segir Jóhanna.

Verkefnin sem Mannvinir styrkja innanlands eru meðal annars Hjálparsími Rauða krossins 1717, sem er opinn alla daga allan ársins hring, og neyðarvarnir. „Neyðarvarnir eru til dæmis ef upp kemur náttúruvá eða annað slíkt. Við erum með sérþjálfaða sjálfboðaliða til að bregðast við í slíkum aðstæðum en þá þarf oft að opna fjöldahjálparstöðvar og veita stuðning á staðnum. Útköll í sálrænum stuðningi hafa líka aukist, en það er til dæmis ef það verða slys og fólk er líkamlega í lagi en þarf andlegan stuðning,“ segir Jóhanna.

„Verkefnin sem Rauði krossinn styður erlendis eru í anda þess sem Rauði krossinn á Íslandi leggur áherslu á. Við leggjum áherslu á jafnrétti kynjanna og sérstaklega á átaka- og hamfarasvæðum. Það þarf til dæmis að huga að því að komið sé til móts við hreinlætisþarfir kvenna út af blæðingum og annað,“ segir Jóhanna. „Í augnablikinu er áherslan á konur og börn í Sómalíu og Malaví. Við styðjum konur og börn í neyð, styðjum við flóttafólk í Úganda og svo sendifulltrúa í hjálparstarfi erlendis.

Jóhanna segir að í Malaví sé stuðningurinn fyrst og fremst við ungbarnaeftirlit og mæðravernd. „Við höfum líka stutt stúlkur með því að byggja vatnsbrunna. Það eru oftast stúlkur sem sækja vatnið og með því að byggja fleiri brunna og koma upp salernisaðstöðu aukum við líkurnar á því að þær fari í skóla.“

Rauðinn krossinn á Íslandi hefur lengi stutt við flóttafólk í Úganda, meðal annars með því að aðstoða Rauða krossinn í Úganda við að byggja upp möguleikann á því að veita sálrænan stuðning.

„Mannvinir eru mjög mikilvægir fyrir okkur. Þetta er styrkur sem skiptir gífurlega miklu máli til að geta haldið úti hjálparstarfi. Þetta er óeyrnamerktur stuðningur svo við getum sett peninginn þangað sem þörfin er mest. Segjum sem svo að það fari að gjósa þá er hægt að nýta fjármagnið sem fer í verkefni innanlands og leggja meiri pening í neyðarvarnir. Eins ef það yrði aðkallandi neyð erlendis, þá höfum við svigrúm til að nýta þann helming sem nýttur er erlendis til að aðstoða þar sem neyðin er stærst. Í dag er til dæmis mjög slæmt ástand í Sýrlandi og við getum nýtt framlög Mannvina til að bæta aðstæður kvenna og barna þar,“ segir Jóhanna.

Hægt er að gerast Mannvinur með því að skrá sig á mannvinir.is eða hringja í síma 570 4000. „Fólki er í sjálfsvald sett hvað það vill greiða, en flestir eru að greiða svona um 2.500 á mánuði,“ segir Jóhanna. „Því fylgir engin skuldbinding að vera Mannvinur þetta er bara frjálst framlag meðan fólk hefur vilja og getu til.“