Tungumálavinir eru sjálfboðaliðar í verkefninu Tölum saman. Sjálfboðaliðar hitta einstaklinga eða pör sem nýlega hafa hlotið alþjóðlega vernd með það að markmiði að æfa íslensku. Hægt er að notast við óformlegt spjall eða aðrar æfingar sem henta hverju sinni. Hlutverk sjálfboðaliðans er ekki að vera kennari. Hann er bara venjulegur Íslendingur sem hefur áhuga á að deila íslenskum orðaforða með öðrum.

Þau Sólveig Halldórsdóttir og Peter Mukasa Wasswa eru tungumálavinir sem hafa hist vikulega síðan í lok júní, klukkutíma í senn, á bókasafninu í Kringlunni til að spjalla saman.

Peter er frá Úganda, hann er lögfræðingur að mennt og kom til Íslands fyrir ári síðan. Áður en hann kom til Íslands hafði hann starfað sem mannréttindalögfræðingur í Úganda. Hann hefur mikinn áhuga á að læra íslensku og sótti þess vegna um að taka þátt í verkefninu Tölum saman. Hann segir að vikulegir fundir þeirra Sólveigar séu frábært tækifæri til að læra málið.

Peter segist hafa öðlast sjálfstraust til að tala íslensku af því að Sólveig hvetur hann til að prófa.

„Ég var frekar feiminn og stressaður fyrir fyrsta fundinn okkar,“ segir Peter. „Ég hafði ekki trú á mér og að ég gæti talað smá íslensku. Á hinn bóginn var ég líka glaður og hlakkaði til að hitta tungumálavin minn í fyrsta sinn.“

Sólveig segir að hún hafi líka fundið fyrir tilhlökkun, hún var spennt að vita hvernig þeim myndi ganga að spjalla saman í fyrsta skipti.

„Við tölum alltaf fyrst saman á ensku til að hita upp og ræða hvað við viljum æfa okkur í. Svo förum við í íslenskuæfingar. Oft er ég bara að svara spurningum Peters um hvernig eigi að segja hitt og þetta. Þá skrifa ég niður setninguna og við æfum svo framburð. Ég kem svo með tillögur að orðum og setningum sem ég tel líklegt að hann muni heyra og við æfum þær saman,“ útskýrir hún.

Öðlast sjálfstraust til að tala

„Mér finnst ég hafa öðlast sjálfstraust þegar ég reyni að tala íslensku vegna vikulegu fundanna okkar. Ég hef lært að bera sum íslensk orð rétt fram og lært grunnatriði í tungumálinu. En við reynum alltaf að tala eitthvað saman á íslensku. Ég hef ánægju af að spjalla við Sólveigu og hún hvetur mig til að tala þó að tungumálið virðist erfitt,“ segir Peter.

„Að læra íslensku hjálpar mér að verða hluti af þessu frábæra fólki í þessu frábæra landi. Að læra tungumálið hjálpar mér að verða partur af og kynnast menningu Íslendinga.“

Sólveig segist hafa áttað sig betur og betur á hvað íslenskan getur verið snúin eftir vikulegu spjallfundina með Peter. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Sólveig stundar nú BSc-nám í sálfræði en hún er sest aftur á skólabekk eftir að hafa starfað sem efnaskiptalíffræðingur hjá lyfjafyrirtæki í Bandaríkjunum. Hún segist hafa ákveðið að verða tungumálavinur til að hjálpa innflytjendum því hún hefur skilning á því að vera í þeim sporum.

„Ég bjó í Bandaríkjunum í 22 ár. Ég man hvað það var mikil áskorun að flytja á sínum tíma. Ég er tiltölulega nýflutt aftur til Íslands og það var líka áskorun þrátt fyrir að ég eigi fjölskyldu hér. Ég fór þess vegna að hugsa um hvernig ég gæti stutt við þá sem koma til landsins og hafa ekkert tengslanet og kunna ekki tungumálið,“ segir hún.

Sólveig segist fá mikið úr út vikulegum fundum sínum með Peter en áður en þau hittust fyrst vissi hún lítið um Úganda og hafði aldrei tekið þátt í sjálfboðaliðastarfi fyrir Rauða krossinn áður.

„Ég læri alltaf eitthvað nýtt um tungumálavin minn og ég átta mig alltaf betur og betur á því hve snúið málið okkar getur verið. Það er mjög gaman að sjá hvað Peter hefur tekið miklum framförum. Hann hefur svo mikinn áhuga á að læra og hann kann svo vel að meta að fá einhvern tíma til að æfa sig, því fólk skiptir oft yfir í ensku þegar það talar við hann dagsdaglega,“ segir hún.

„Ég hef lært hvað innflytjendur eru viljugir að leggja hart að sér til að öðlast hluti sem mörg okkar telja sjálfsagða. Hann hefur einnig sagt mér skemmtilegar sögur af heimalandi sínu og það minnir mig á hvað það er mikilvægt að skilja og kynnast öðrum menningarheimum.“

Sólveig mælir með því að gerast tungumálavinur.

„Það er svo mikilvægt að hjálpa þeim sem vilja læra málið okkar,“ segir hún. „Þetta er ekki mikil skuldbinding og maður fær heilmikið út úr þessu. Það er mjög gaman að kynnast fólki sem hefur annan bakgrunn og reynslu en maður sjálfur.“