Frá stofnun, fyrir yfir fimmtíu árum, hefur markmið Landslaga verið að veita viðskiptavinum fyrsta flokks ráðgjöf og þjónustu á öllum helstu sviðum lögfræðinnar. Á Landslögum starfa nú 24 starfsmenn. Kynjahlutföll eru jöfn, þegar litið er til heildarinnar, en konum hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum. Í dag eru tæplega 30% eigenda stofunnar konur og kynjahlutfall meðal fulltrúa jafnt. Til samanburðar voru konur á árinu 2022 um 19% eigenda tíu stærstu lögmannsstofa landsins og skýrist það að hluta til af því að konur í lögmennsku eru hlutfallslega yngri en karlmenn. Konurnar hjá Landslögum eru stoltar af því að vera leiðandi, þótt markmiðið hljóti alltaf að vera að ná jöfnum hlutföllum þegar fram í sækir. Þá er helmingur stjórnarmanna í stjórn Landslaga konur.
Landslög hafa sérhæft sig í þjónustu við fyrirtæki og stofan getur sinnt öllum þeim fjölbreyttu álitamálum sem upp koma í rekstri viðskiptavina. Þá hafa Landslög starfað við margs konar hagsmunagæslu fyrir íslenska ríkið og mörg sveitarfélög landsins.
Samkeppnismál í forgrunni
„Ég hef verið að „fókusera“ á samkeppnisrétt í meira en 25 ár – ég er eins og leigubílstjórinn í Spaugstofunni,“ segir Jóna Björk Helgadóttir, lögmaður og einn eigenda Landslaga. „Og mér finnst það alltaf jafn áhugavert. Réttarsviðið hefur þróast á fleygiferð undanfarin ár enda frekar ungt að árum hér á landi.“ Jóna Björk segist hafa verið fyrsti kennarinn í samkeppnisrétti, fyrst í Háskóla Íslands seint á síðustu öld og síðan í Háskólanum í Reykjavík strax á öðru starfsári hans. Að sögn Jónu Bjarkar hafa samrunamál verið áberandi í hennar „praksís“ þar sem ráðgjöf til fyrirtækja í tengslum við kaup á öðrum fyrirtækjum, sem og eftirfylgni samrunamála gegnum samkeppnisyfirvöld, hefur tekið mikið pláss. Þannig hefur hún með einum eða öðrum hætti komið að mörgum stærri samrunum í íslensku viðskiptalífi undanfarin ár. „Mér finnst mjög skemmtilegt að vera með þessum hætti í hringiðu þess sem er að gerast í viðskiptum hverju sinni,“ segir Jóna Björk.
Konum alltaf að fjölga
„Þegar ég byrjaði á Landslögum árið 2006 voru einungis karlkyns lögmenn á stofunni. Þeir tóku einstaklega vel á móti mér og mér hefur alltaf þótt þetta sérlega góður vinnustaður, þó hann hafi svo sannarlega orðið enn betri eftir að kynjahlutföllin hafa jafnast. Það er líka mikils virði að fá yngra fólk inn, ekki síður yngri konur, sem bera með sér ferska strauma. Það er engin spurning að bæði kynslóðirnar og kynin virka hvetjandi hver á aðra,“ bætir Jóna Björk við.
Steypan heillar
Hildur Ýr Viðarsdóttir hefur verið lögmaður á Landslögum í 15 ár og verið í eigendahóp stofunnar frá 2015. Hún öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti 2017 en á því ári fjölgaði konum með slík réttindi einungis um eina.
„Ég hef nánast allan tímann kennt samhliða lögmennskunni, aðallega við lagadeild Háskóla Íslands þar sem ég er aðjúnkt. Mér finnst kennslan skemmtileg og gefandi en auk þess er hún besta endurmenntunin. Þá finnst mér kennslan nýtast mér í lögmennskunni og öfugt. Þróunin hefur líka verið sú að verkefnin á stofunni eru gjarnan á sömu sviðum og ég kenni, en ég fæst helst við fasteignarétt ýmiss konar, þ. á m. verktakarétt, vátryggingarétt, kröfu- og samningarétt. Þá er ég talsvert mikið í málflutningi, sérstaklega eftir að ég tók að mér málflutning fyrir TM tryggingar,“ segir Hildur.
Hildur var einn málflytjenda í stærstu einkamálum sem hafa verið flutt hér á landi. Aðalmeðferðin í héraði stóð yfir í á 6. viku. Hildur segir að það hafi verið lærdómsríkt ferli að taka þátt í svo umfangsmiklum málarekstri.
„Ég byrjaði að kenna fasteignakauparétt 2010 og þá urðu fasteignamál fljótt fyrirferðarmikil hjá mér í lögmennskunni. Ég hef því á þessum tíma orðið sérfræðingur í fasteignakauparétti og öðru tengdu fasteignakaupum. Þar eru gallamál fyrirferðarmikil. Hefur þetta leitt til þess að ég er á góðri leið að verða byggingafróð og hef hugsað um að skrá mig í nám í húsasmíði til gamans. En ætli börnin þurfi ekki að vera orðin aðeins sjálfstæðari áður en að því kemur.“
Hildur Ýr nefnir að það sem heilli einnig við lögmennskuna sé fjölbreytileikinn í starfinu, en hún gegnir meðal annars formennsku í kærunefnd vöru- og þjónustukaupa og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, þar sem eðli þeirra starfa er nokkuð annað.
Lögmennska býður upp á fjölbreytt verkefni
Áslaug Árnadóttir er einn af eigendum Landslaga og situr í stjórn fyrirtækisins. Áslaug hóf störf á Landslögum árið 2010. Í störfum sínum sinnir Áslaug hvers konar lögfræðiráðgjöf við fyrirtæki, verkefnum á sviði fjármálaréttar og lögfræðiráðgjöf við stofnanir og ráðuneyti. Einnig er hún mikið í málflutningi.
„Það er langt frá því að ég hafi farið beint í lögmennsku eftir útskrift. Áður en ég hóf störf á Landslögum hafði ég aflað mér framhaldsmenntunar í Evrópurétti við Stokkhólmsháskóla, starfað á Alþingi, sem aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt og sem skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra í viðskiptaráðuneytinu. Þessi störf mín eru gífurlega góður grunnur fyrir lögmannsstarfið og reynslan nýtist mér á hverjum degi,“ segir Áslaug og bætir við: „Það sem heillar mig við lögmennskuna er fjölbreytileikinn og sveigjanleikinn. Þú veist aldrei hvernig dagurinn verður og verkefnin verða aldrei einsleit. Einnig felur starfið í sér mikil samskipti við viðskiptavini sem ég hef mjög gaman af. Þá eru Landslög yndislegur vinnustaður og vinnufélagarnir verða ekki betri. Það er alltaf eitthvað um að vera, golf- og sundiðkun, veiðiferðir og hljóðfæraleikur.“
„Þróunin hefur orðið sú að ég sinni málflutningi nokkuð mikið. Þrátt fyrir að ýmiss konar ráðgjöf sé mest áberandi á stofunni eru lögmenn Landslaga öflugir í málflutningi, en þeir koma nær einvörðungu að flutningi einkamála. Af þeim 18 lögfræðingum sem starfa á Landslögum hafa 11 réttindi til málflutnings fyrir öllum dómstigum; héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti. Af þeim 32 konum á landinu sem eru sjálfstætt starfandi og með lögmannsréttindi fyrir Hæstarétti eru þrjár þeirra á stofunni. Árið 2022 fluttu lögmenn Landslaga um þrjú mál í viku þann tíma ársins sem dómstólar starfa, þar af um 18% af munnlega fluttum einkamálum í Hæstarétti eftir því sem ég kemst næst,“ segir Áslaug.
Sterkar kvenfyrirmyndir mikilvægar
Unnur Lilja Hermannsdóttir hóf störf á Landslögum árið 2011, þá að ljúka námi í lögfræði í Háskólanum í Reykjavík. Verkefnin urðu strax fjölbreytt en lituðust fyrst um sinn einkum af verkefnum á sviði fjármála- og bankaréttar.
„Ég hef alltaf verið stolt af því að starfa á Landslögum enda hefur stofan skapað sér gott orðspor. Þar eru fagmenn í hverju rúmi og gríðarlega verðmætt að geta speglað sig í öðrum á stofunni,“ segir Unnur. „Sérhæfing mín í dag liggur einkum í ráðgjöf til fyrirtækja á breiðum grunni en einnig ráðgjöf á sviði eignarréttar, opinberra innkaupa, verkframkvæmda hvers konar, stjórnsýslu og málareksturs fyrir dómstólum. Þetta er mjög lifandi starf og verkefnin ráðast oft af því sem hæst er á baugi í þjóðfélagsumræðunni. Til að mynda hafa verkefni er varða vinnuvernd, þá einkum mál er falla undir reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum (EKKO reglugerðin), verið áberandi í mínum störfum að undanförnu.“ Unnur segir mikilvægast í þeim málum að hafa virkar aðgerðaáætlanir og fylgja þeim eftir, þegar slík mál koma upp.
Árið 2020 varð Unnur einn meðeigenda að stofunni, þá í fæðingarorlofi með þriggja mánaða barn. Stofan hefur tekið meðvitaðar ákvarðanir í átt til aukins jafnréttis líkt og dæmin sanna. „Sem kona þykir mér ekki síður mikilvægt að hafa sterkar kvenfyrirmyndir og það er ekki langt að sækja það til þeirra sem hér eru.“ Unnur situr nú í stjórn stofunnar en Landslögum hefur þótt mikilvægt að kynjahlutföll séu jöfn í stjórn og einnig að horft sé til mismunandi aldurs.
