Segja má að áhugi Ernu á því sem kallað er „fjölskylduvænn vinnumarkaður“ hafi vaknað þegar hún hóf störf sem lögfræðingur BSRB strax að loknu laganámi. „Á þessum tíma var fjórði sonur okkar hjóna nýfæddur. Það var töluverð áskorun fyrir mig að taka að mér krefjandi starf, samhliða því að reka stórt heimili með manninum mínum. Þáverandi skrifstofustjóri BSRB, Svanhildur Halldórsdóttir, sýndi mér mikinn skilning. Að vissu leyti má segja að sem stjórnandi sé ég alin upp hjá henni. Hún er mikil kvenréttindakona og var meðal annars kosningastjóri Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta. Svanhildur studdi vel við okkur starfsfólkið og gerði ýmislegt til að auðvelda okkur að samræma vinnu og einkalíf. Hún gerði mér það kleift að vinna að heiman að loknu fæðingarorlofi. Hennar vegna fékk ég áhuga á vinnurétti og alla tíð síðan hef ég reynt að feta í hennar fótspor,“ segir Erna.

Stytting vinnuvikunnar mikið framfaramál

„Í stefnu BHM segir að bandalagið leggi áherslu á að íslenskur vinnumarkaður sé fjölskylduvænn og stuðli að jafnvægi á milli atvinnu og einkalífs, óháð fjölskylduaðstæðum. Í þessu sambandi skipta nokkur atriði lykilmáli. Fyrir það fyrsta er mikilvægt að starfsmenn njóti sveigjanleika í starfi, að því marki sem það er hægt. Hóflegur vinnutími er sömuleiðis lykilatriði í heilbrigðu samspili fjölskyldulífs og vinnumarkaðar. Þess vegna er stytting vinnuvikunnar, sem samið var um í síðustu kjarasamningum, mikið framfaramál. Jafnframt er mikilvægt að rýmka rétt til launa í veikindum með tilliti til fjölskylduábyrgðar. Svo má ekki gleyma því að þróun samskiptatækninnar á undanförnum árum hefur haft mikil áhrif á samspil vinnu og einkalífs starfsfólks. Sítenging fólks við vinnustaðinn veldur auknu álagi og getur valdið streitu. Mjög mikilvægt er að tryggja rétt starfsfólks til að aftengja sig vinnunni,“ segir Erna.

Innan BHM eru samtals 28 fag- og stéttarfélög háskólamenntaðs fólks sem starfar á ýmsum sviðum, bæði á opinberum og almennum vinnumarkaði. „Þetta er afar fjölbreytt flóra og starfsaðstæður félagsmanna geta verið mjög ólíkar. Kórónuveirufaraldurinn hefur haft í för með sér að fjarvinna hefur færst mjög í vöxt meðal þeirra félagsmanna sem á annað borð geta unnið að heiman. Fjarvinna getur falið í sér ýmis tækifæri, bæði fyrir starfsmenn og atvinnurekendur. Þetta kom meðal annars fram í könnun sem við gerðum í vetur meðal félagsmanna aðildarfélaga. Hér hjá BHM höfum við lagt áherslu á að starfsfólkið hafi tækifæri til að vinna að heiman. Þetta kemur sér til dæmis vel fyrir fólk með ung börn sem ekki eru komin með dagforeldra eða búin að fá leikskólapláss. Okkar reynsla er sú að starfsfólk leggur sig fram til þess að sýna að það sé traustsins vert hvað þetta varðar. Hvað varðar vinnumarkaðinn í heild þarf hins vegar að móta skýran ramma utan um fjarvinnu og það verkefni bíður okkar.“

Það hallar enn á konur

„Ég hef alltaf litið svo á að menntun geri konum kleift að standa á eigin fótum. Það er ekki langt síðan konur voru almennt fjárhagslega háðar eiginmönnum sínum. Það hefði verið erfitt fyrir mig að ljúka námi í stjórnmálafræði og lögfræði með mitt stóra heimili nema af því að ég á frábæran eiginmann sem hefur ætíð stutt mig í mínu námi og starfi. Strákarnir mínir hafa því alist upp við að pabbi þeirra taki ekki síður að sér heimilisverkin, sem á að vera sjálfsagt hjá öllum fjölskyldum.“

Samkvæmt nýlegri skýrslu World Economic Forum er jafnrétti milli kynja óvíða meira en á Íslandi. Erna bendir á að þrátt fyrir þetta séu enn of fáar konur í stjórnunar- og áhrifastöðum hér á landi. „Samkvæmt gögnum Hagstofunnar voru konur einungis fjórðungur stjórnarmanna fyrirtækja árið 2017 og rúmlega fimmtungur framkvæmdastjóra fyrirtækja. Þetta skýtur skökku við þegar haft er í huga að 53% kvenna á aldrinum 25–64 ára eru með háskólamenntun en aðeins um 40% karla. Enn þá er meirihluti kvenna á Íslandi í neðri helmingi tekjustigans. Kynbundinn launamunur í tímakaupi háskólamenntaðra sérfræðinga á Íslandi er enn þá 19%. Það er því langt í land og mér þykir sorglegt að við séum ekki komin lengra.“

Atvinnuleysi háskólamenntaðra kvenna

„Það hallar líka víða á konur á vinnumarkaðnum, fyrst á barneignaraldri og svo þegar þær eru komnar yfir ákveðinn aldur. Enn er það svo að sumir vinnuveitendur veigra sér við að ráða konur á barneignaraldri. Til þess að sporna við þessu er mikilvægt að stuðla að því að karlar taki fæðingarorlof til jafns við konur. Okkar reynsla hér hjá BHM er sú að karlkyns starfsmenn fara ekki síður í fæðingarorlof en kvenkyns starfsmenn og nýta sér ekkert síður þann möguleika að vinna að heiman þegar fæðingarorlofi lýkur.“

Á undanförnum árum hefur háskólamenntuðu fólki sem er án atvinnu fjölgað verulega. „Þegar ég var yngri lærði ég að öll menntun væri eins og að leggja inn á bankabók. Menntun tryggði fólki atvinnu yfir ævina. Atvinnuleysi háskólamenntaðra veldur okkur hjá BHM miklum áhyggjum og við höfum ítrekað farið fram á að stjórnvöld bregðist við því með öllum tiltækum ráðum. Í þessu samhengi er það sérstakt áhyggjuefni að atvinnuleysi hefur vaxið mikið meðal háskólamenntaðra kvenna á aldrinum 50–70 ára. Ef konur á þessum aldri lenda á atvinnuleysisskrá eru þær þar að meðaltali í átta mánuði, tvisvar sinnum lengur að meðaltali en konur á aldrinum 20–30 ára. Við þurfum að skoða þetta nánar í samvinnu við Vinnumálastofnun því þetta eru konur á besta aldri sem búa að mikilli þekkingu og reynslu.“

„Þó að Ísland skori hæst á alþjóðlegum listum yfir stöðu jafnréttismála og margt jákvætt sé að gerast þá eru margar áskoranir sem við þurfum að takast á við sameiginlega,“ segir Erna.