Eins og svo margir skólar í Reykjavík stendur Háteigsskóli við frekar fjölfarna umferðargötu. Arndís segir að þess vegna sé starfsfólki skólans mjög umhugað um öryggi gangandi barna á leið í skóla. „Við fögnum því að Slysavarnarfélagið komi í skólann og gefi börnunum endurskinsmerki og fræði þau um umferðaröryggi.“

Skólabörn í Háteigsskóla taka við endurskinsmerkjum frá meðlimum Slysavarnafélagsins. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Hún segir að þegar margir foreldrar keyri börn sín í skólann skapist mikið umferðaröngþveiti við skólabygginguna. „Þegar fleiri og fleiri foreldrar keyra börnin í skólann vegna þess að þau hafa áhyggjur af börnum sínum í umferðinni skapast meiri hætta fyrir gangandi vegfarendur því fleiri bílar koma á götuna,“ segir Arndís.

„Við viljum koma þeim skilaboðum á framfæri að foreldrar fylgi börnunum og kenni þeim að ganga bæði í skólann og í tómstundir. Foreldrar þurfa einnig að vera vakandi fyrir því að hengja endurskinsmerki á börnin og gera þau þannig sýnileg. En svo er líka mikilvægt að akandi fólk taki tillit til gangandi vegfarenda.“