Kaffitár var stofnað árið 1990 og byrjaði sem lítið fjölskyldufyrirtæki sem rak kaffibrennslu í Njarðvík. Árið 1995 var svo fyrsta kaffihúsið opnað í Kringlunni og síðan þá hefur fyrirtækið rekið kaffihús úti um allt höfuðborgarsvæðið og kaffi fyrirtækisins er selt í matvöruverslunum.

„Árið 2019 var fyrirtækið selt til Ó. Johnson & Kaaber, sem gefur okkur aukin og flott tækifæri á markaðnum og í dag starfrækjum við fimm kaffihús, en stefnum á að fjölga þeim,“ segir Marta Rut Pálsdóttir, rekstrarstjóri kaffihúsa Kaffitárs. „Við verslum 80% af okkar kaffi beint af bónda og leggjum okkur fram um að vernda umhverfið. Kaffihús Kaffitárs eru líka nógu umhverfisvæn til að vera Svansvottuð, en við erum fyrsta kaffihúsið hér á landi til að fá hana.“

Stenst strangar kröfur

„Kaffitár fékk Svansvottun árið 2010 eftir langt ferli þar sem gerðar voru miklar breytingar á kaffihúsunum,“ segir Marta. „Kaffibrennslan fékk ekki vottun á sama tíma, en hún vinnur samt sem áður eftir sömu reglum og kaffihúsin gera og það er bara tímaspursmál hvenær hún fær vottun.

„Til að hafa Svansvottun þurfum við að standast gríðarlega strangar kröfur. Allt okkar sorp er flokkað, við notum einnota umbúðir í lágmarki, það þarf að vera hægt að rekja öll grænu sporin og það eru strangar reglur varðandi vatns- og rafmagnsnotkun og frágang á öllum úrgangi. Við notum líka eingöngu Svansvottuð hreinsiefni,“ segir Marta. „Við þurfum að tryggja að neikvæð umhverfisáhrif séu í lágmarki.

Við höfum fengið viðurkenningu Kuðungsins fyrir öflugt umhverfisstarf og vorum að þessu áður en það var „kúl“,“ segir Marta. „Við höfum flokkað frá því að við opnuðum fyrsta kaffihúsið okkar og alltaf gefið flöskur í góðgerðarstarfsemi. Við pössum líka vel upp á matarsóun og gefum auka mat í góðgerðarstarfsemi eins og Konukot, Rauða krossinn eða Frú Ragnheiði. Við notum pappamál, takmörkum alla plastnotkun og lokin á kaffibollum eru nú gerð úr maís.“

Styrkir ímynd fyrirtækisins

„Notkun á Svansmerkinu styrkir jákvæða ímynd fyrirtækisins. Það skiptir viðskiptavini máli að vita að fyrirtæki hugi að umhverfinu og lágmarki neikvæð umhverfisáhrif sín,“ segir Marta. „Það er að verða viðtekin venja að fólk sé meðvitað um umhverfið, flokki og lágmarki alla plastnotkun. Það er að vísu erfiðara í faraldrinum, en það er mikilvægt að vera meðvitaður og við viljum fá sem flesta í lið með okkur.

Við mælum að sjálfsögðu með að öll fyrirtæki fari í gegnum þetta ferli,“ segir Marta. „Það er flott að hafa þennan titil, við erum stolt af því að hafa hann og fögnum því alltaf þegar fyrirtæki fá vottun. Við erum nú að vinna að því að auka flokkun í fyrirtækinu öllu svo að Ó. Johnson & Kaaber verið umhverfisvænna en það er fyrir.“

Aukið úrval af mat

„Kaffitár var að opna nýtt eldhús svo við bjóðum upp á aukið úrval af mat,“ segir Marta. „Við réðum kokk sem er uppfullur af geggjuðum hugmyndum og hann hefur verið að vinna að því að auka úrvalið hjá okkur síðan í nóvember, en samkomutakmarkanir hafa hægt á markaðssetningunni á þessu hjá okkur.

Við erum með samlokur, súpur, vefjur, bökur og acai-skálar. Sem stendur eru skálarnar bara í boði í Háskólanum í Reykjavík en við stefnum á að þær komi á öll kaffihúsin okkar áður en langt um líður.“