Eigendur Dýraspítalans eru þær Hanna María Arnórsdóttir og Jakobína Sigvaldadóttir dýralæknar, en þær hafa rekið hann frá árinu 1997. Dýraspítalinn í Garðabæ sinnir öllum gæludýrum. Bæði hundum, köttum, nagdýrum, kanínum og í raun öllum dýrum sem fólk tekur að sér sem gæludýr.

„Við fáum líka mikið til okkar slasaða fugla, hænur, dúfur og allt þar á milli,“ segir Jakobína.

„Við höfum velferð dýranna alltaf að leiðarljósi. Til þess að dýrunum geti liðið vel er mikilvægt að aðstaðan sé góð og starfsumhverfi starfsfólks er þar mikilvægur þáttur. „Það auðveldar okkur að sinna dýrunum á þann hátt að við getum hlúð að þeim undir vöktun,“ segir Hanna María.

Á dýraspítalanum er öflug tanndeild sem þær Hanna María og Jakobína segjast stoltar af. Þar er tækjabúnaður góður og fólk með viðamikla þekkingu og reynslu við vinnu.

„Við erum til dæmis að röntgen-mynda tennur á öllum köttum sem koma í tannhreinsun til okkar. Það er oftast lítill ávinningur af tannhreinsun ef við vitum ekki hvernig ræturnar líta út,“ segir Jakobína.

Tannsjúkdómar í köttum eru oft falinn kvilli, þess vegna er tekin röntgenmynd af öllum sem koma í tannhreinsun.

„Tannsjúkdómar í köttum eru oft falinn kvilli, tannáta er algeng og oft getur allt litið vel út á yfirborðinu en kraumandi sjúkdómur undir niðri. Við erum með dýralækni sem er sérmenntaður í tannlækningum dýra. Eins erum við með menntaðan dýrahjúkrunarfræðing sem starfar alltaf við hlið þessa dýralæknis. Dýrið þarf alltaf að fara í svæfingu áður en það fer í tannhreinsun og okkur finnst ekki nóg að það sé ein manneskja við verkið. Það er því alltaf ein manneskja sem sinnir munnholi dýrsins og önnur sem sinnir svæfingunni,“ bætir hún við.

Heilsufar metið reglulega

Auk tanndeildarinnar fara allar almennar dýralækningar fram á dýraspítalanum og þar með talin mikilvæg heilsugæsla dýra.

„Heilsugæslan er mikilvæg af því dýrin eru málleysingjar og geta ekki sagt frá. Þess vegna er mikilvægt að heilsufar þeirra sé metið reglulega. Að farið sé í gegnum sögu þeirra og líkamlegt ástand metið. Við eigum líka samtal við eigandann um það sem brennur á honum og ræðum það sem betur má fara,“ segir Hanna María.

„Við erum með atferlisviðtöl, en það er nýjung hjá okkur. Breytingar á hegðun eru oft það eina sem við höfum sem vísbendingu um að dýrin séu veik. Þess vegna er mikilvægt að vera athugull á þær. Við sjáum það til dæmis oft eftir tanntöku. Fólk hefur kannski ekki gert sér grein fyrir að dýrið var verkjað, en svo er því sinnt, tannrótarbólgan hverfur og þá kemur gamli hundurinn eða gamla kisan aftur. Þá gerir eigandinn sér grein fyrir að eitthvað var að, en stundum eru breytingarnar svo lengi í uppsiglingu að eigandinn tekur ekki eftir þeim.“

Dýraspítalinn í Garðabæ er vel tækjum búinn en þar er segulómtæki sem er notað á sjúkdóma í miðtaugakerfi og útlimum að sögn Hönnu Maríu.

Á Dýraspítalanum starfar dýralæknir sérmenntaður í tannlækningum dýra.

„Við gerum líka röntgenrannsóknir og ómskoðanir og allt sem tilheyrir sjúkdómsrannsóknum almennt. Við framkvæmum skurðaðgerðir hér, bæði bæklunar- og mjúkvefsaðgerðir. Varðandi umönnun dýra er mikilvægt að reynt sé að sinna þeim á þeirra eigin hraða og öll nálgun er eins lítið streitumyndandi og hægt er,“ segir Jakobína.

„Það hefur komið fyrir að við sendum dýr heim vegna þess að þau eru ofurhrædd og þegar þau koma aftur eru þau jafnvel búin að fá róandi kvíðalyf þannig að upplifunin verði ekki hræðileg og þau komi sjálfviljug inn næst þegar þau koma til okkar. Þetta á aðallega við um minniháttar hluti sem eru ekki lífsnauðsynlegir, eins og þegar við þurfum að klippa klær eða taka blóðprufur.“

Þegar gera þarf stærri inngrip eiga dýralæknarnir samtal við eigendurna og reyna líka að lesa í þá hversu langt þeir vilja ganga.

„Þetta á við þegar dýr eru orðin veik og batahorfur litlar og einnig þegar umfang sjúkdómsins er þess eðlis að kostnaður verður mikill. Þá er átt samtal um í hvaða átt við förum með meðferð á dýrinu,“ segir Hanna María.

„Þegar kemur að því að kveðja besta vininn þá höfum við sett inn hjá okkur herbergi sem við erum með frátekið í það. Við reynum að hafa það huggulegt og hlýlegt svo það líti ekki út eins og kalt skoðunarherbergi. Við höfum boðið upp á bálför og þá getur fólk fengið öskuna af dýrinu sínu og sett hana niður eða gert það við hana sem það óskar . Það er að verða algengara að fólk óski eftir því.“

Fagfólk að störfum

„Við leggjum mikið upp úr því að hafa fagfólk að störfum. Það er ekki löng hefð fyrir því að hafa dýrahjúkrunarfræðinga að störfum á dýralæknastofum á Íslandi en við erum mjög vel mönnuð með tilliti til þeirra,“ segir Jakobína.

„Við höfum góðan mannskap til að sinna dýrunum í vöknun og eftir aðgerðir. Þeirra þörfum er sinnt mjög vel. Jafnvel betur en fólks á spítala, eða samsvarandi. Við sendum engin dýr heim nema þau hafi sýnt fram á að þau geti það sem þarf til þess. Það er að pissa og nærast og standa í fæturna. Við afhendum ekki dýrin frá okkur nema vera viss um að þau séu í góðu standi þegar þau fara frá okkur. Hjúkrunarfræðingarnir og aðstoðarfólkið okkar vakta það en þau hafa þekkingu til að meta slíkt.“

Lögð er áhersla á að fagfólk sinni dýrunum.

Hjá dýraspítalanum vinna fimm menntaðir dýrahjúkrunarfræðingar, tveir með sérmenntun. Einn í svæfingum og hinn í endurhæfingu. Auk þess starfa þrír dýrahjúkrunarfræðinemar á dýraspítalanum, en þeir eru í starfsnámi þar.

„Þegar við höfum bætt við okkur starfsfólki þá höfum við lagt áherslu á að sækja í fólk sem hefur þessa fagþekkingu. Við viljum stuðla að því að þekkingin fari alltaf upp á við hjá okkur þegar við bætum við okkur starfskrafti,“ segir Hanna María.

Dýralæknarnir sem starfa á Dýraspítalanum í Garðabæ eru 11, allir með mismunandi sérhæfingu og áherslur. Auk þeirra og dýrahjúkrunarfræðinganna vinna þar sex aðrir starfsmenn sem sinna afgreiðslu og öðrum tilfallandi verkefnum.

„Hér vinnur bara fólk með hjartað á réttum stað til að sinna dýrum. Það velst inn í störfin eftir því og auðvitað þarf fólk líka að hafa áhuga á læknavísindum,“ segir Jakobína.

„Það er ákveðið lífsval sem maður tekur þegar maður fer inn á þessa braut. Þetta er mikið hugsjónastarf. Við sinnum mikið af dýrum frá dýrahjálp en við vinnum fyrir þau endurgjaldslaust að hluta. Við vísum engum frá sem kemur inn, jafnvel þó dýrin séu eigandalaus. Í dag eru blessunarlega komin fram mörg samtök sem sinna þessum dýrum.“