„Dýralæknastofa Suðurnesja var stofnuð árið 2004 en þá var full þörf á að bæta dýralæknisþjónustu á svæðinu,“ segir Unnur Olga. „Fram að því höfðu dýralæknar úr Reykjavík komið vikulega til þess að sinna dýrum á Suðurnesjum.“

Á Dýralæknastofu Suðurnesja er allur búnaður, tæki og tól. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Öll tæki og búnaður

Margt hefur breyst á þeim tíma sem stofan hefur verið starfrækt en starfsemin hófst í litlu húsnæði og opið var í tvo tíma á dag. Í dag er stofan í rúmgóðu húsnæði við Fitjabakka í Reykjanesbæ.

„Á stofunni starfa nú tveir dýralæknar ásamt þeim þriðja sem sinnir sérverkefnum. Auk dýralæknanna eru 3-4 starfsmenn sem sjá um afgreiðslu og símsvörun, aðstoð við dýralækna, umönnun sjúklinga, vörupantanir og allt sem til fellur í starfinu dagsdaglega,“ útskýrir Unnur Olga.

„Stofan er vel tækjum búin, á staðnum er myndgreiningarbúnaður, sem er þá röntgen og sónar, blóðgreiningartæki, leysitæki til meðferðar á stoðkerfisvandamálum, tannlækningatæki, auk skurðstofu.“

Á stofunni starfa nú þrír dýralæknar ásamt 3-4 öðrum starfsmönnum. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Hver dagur er ólíkur öðrum

Unnur segir starf dýralæknisins afar margþætt, enda koma skjólstæðingarnir úr ýmsum áttum og tilheyra ólíkum tegundum. „Dýralækningar eru mjög fjölbreytt starf, hver dagur ólíkur öðrum. Starfið krefst víðtækrar þekkingar og kunnáttu, sama daginn gætir þú verið með naggrís með tannvandamál, hjartveikan hund og kött sem þarf keisaraskurð.“

Því er áríðandi búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu og á stofunni er mikil áhersla lögð á að fylgjast vel með því sem er að gerast í faginu. „Sem fræðigrein er ótrúlega margt spennandi í gangi í dýralækningum. Það er nauðsynlegt fyrir okkur dýralæknana að sækja námskeið og halda þekkingunni við, enda er stöðugt verið að þróa meðferðir við sjúkdómum, skurðtækni og þess háttar.“

Starf dýralæknisins er afar fjölbreytt. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Ákveðnar tegundir skjólstæðinga eru algengari en aðrar. „Á stofuna okkar koma fyrst og fremst hundar og kettir en einnig sjáum við ýmis nagdýr og fugla, auk þess sem við sinnum vitjunum í fjárhús og hesthús á Suðurnesjum,“ segir Unnur.

„Gæludýraeign virðist vera stöðugt að aukast og eigendur eru jafnan mjög meðvitaðir um líðan dýra sinna og leita mjög gjarnan ráða um heilbrigði, fóðrun og atferli hjá starfsfólki stofunnar.“

Hundar og kettir eru algengustu tegundir skjólstæðinga stofunnar.

Nærgætni mikilvæg

Unnur segir ákveðna eiginleika oftar en ekki áberandi í fari þeirra sem kjósa að starfa með dýrum. „Það getur verið krefjandi að starfa á dýralæknastofu en það sem einkennir þá sem sækjast eftir slíkum störfum, hvort sem um ræðir dýralækna eða annað dýraheilbrigðisstarfsfólk, er brennandi áhugi á dýrum og dýravelferð.“

Starfinu fylgi óneitanlega ýmsar áskoranir, ekki síður vegna eigenda dýranna. „Þá má ekki gleyma því að samskipti við eigendur dýranna eru lykilatriði í starfinu. Gæludýr eru jafnan mikilvægur hluti af fjölskyldu fólks og mjög erfitt getur verið að takast á við veikindi eða slys og þá er mikilvægt að sýna nærgætni og stuðning.“

Unnur segir alltaf erfitt að horfa á eftir dýrum sem þau hafi jafnvel sinnt frá vöggu til grafar.

Slíkar stundir geta einnig reynst starfsfólki stofunnar þungbærar. „Við erum með mjög marga fastakúnna á Dýralæknastofu Suðurnesja og mörgum skjólstæðingum höfum við fylgt frá vöggu til grafar, ef svo má segja. Það tekur alltaf á að þurfa að horfa á eftir dýrum sem maður hefur þekkt og sinnt í mörg ár.“

Stofan er eini dýraspítalinn á Suðurnesjunum.

Þýðingarmikil þjónusta

Unnur greinir þá frá því að fyrirtækið standi á tímamótum, en nú er verið er að leita að nýjum meðeiganda til þess að halda áfram uppbyggingu starfseminnar og eflingu þjónustu, sem hafi mikla þýðingu fyrir Suðurnesin.

„Dýralæknastofa Suðurnesja er eini dýraspítalinn á svæðinu og þjónar dýraeigendum á öllum Suðurnesjunum, sem telja um 28 þúsund íbúa. Eigendur og starfsfólk stofunnar hafa frá upphafi lagt sig fram við að veita Suðurnesjamönnum þessa mikilvægu þjónustu í heimabyggð.“

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar í síma 4210042 eða á: http://www.dskef.is