Thelma Björk Norðdahl hefur fylgt móður sinni frá unga aldri í starfi hennar hjá Blómahönnun og stendur nú á tímamótum þar sem hún er að taka við rekstrinum af móður sinni. Thelma sér framtíðina bjarta og blómlega hér á landi og lætur verkin tala.
„Blómahönnun ehf. var stofnað af móður minni, Maríu Másdóttur, árið 2002 í gegnum frumkvöðlaverkefnið Auður í krafti kvenna sem var verkefni sem Háskólinn í Reykjavík var með á þeim tíma. En hún hefur verið í FKA frá stofnun Blómahönnunar, sem var þá Félag kvenna í atvinnurekstri. Tengslanet FKA er öflugt og það er gríðarlega mikilvægt félag sem hefur gefið konum í atvinnulífinu mikinn kraft og styrk,“ segir Thelma.
„Það er dýrmætt að hafa alist upp með mömmu, sem er sterk fyrirmynd um að konur geti allt og hefur það haft mikil áhrif á mig sem manneskju að hafa fengið að mæta með henni á viðburði FKA frá unga aldri og fylgjast með öllum þessum stórkostlegu, kláru og duglegu konum sem byggja upp sterkara atvinnulíf á Íslandi.“
Skreytti fyrir brúðkaup sænsku krónprinsessunnar
„Móðir mín hefur rekið fyrirtækið með miklum krafti frá byrjun og hef ég frá unga aldri fylgt henni í hennar starfi. Með árunum jókst áhugi minn á rekstri fyrirtækisins og hefur það verið heiður að vera lærlingur hennar í öll þessi ár. En hún lærði af heimsfræga blómaskreytingameistaranum Tor Gundersen. Í gegnum hann var hún m.a. valin að skreyta fyrir brúðkaup sænsku krónprinsessunnar Victoriu. Nú er komið að tímamótum hjá okkur í Blómahönnun þar sem ég er að taka við rekstrinum. Það er mér mikill heiður og verður spennandi og stórt verkefni að feta í fótspor móður minnar.“
Blómahönnun hefur í gegnum árin unnið sér inn orðspor erlendis fyrir faglegar og nýstárlegar skreytingar. „Á meðal verkefna sem ég hef hannað eru skreytingar fyrir t.d. Gucci, Michael Kors, Tom Cruise, Netflix, Canada Goose, True North, Pink Iceland, Hús og híbýli og fleiri stór nöfn. Ísland er heitur áfangastaður fyrir alls konar stór erlend fyrirtæki og ferðamenn, og er mikilvægt fyrir okkar þjóð sem býður m.a. upp á heimsklassa mat, hótel, kvikmyndafyrirtæki svo fátt sé nefnt að bjóða upp á blómaþjónustu á sama mælikvarða. Ég stefni hátt í þessum geira og hef mikinn metnað og áhuga fyrir því að verða stærri og betri með árunum líkt og mamma hefur gert,“ segir Thelma.
„Blómaskreytingabransinn er skemmtilegur og gefandi en í honum fær maður mikið traust viðskiptavina sinna til að gera gleði og sorgarstundir fallegar með blómum. Við þjónustum einnig mörg fyrirtæki með áskriftum á blómaskreytingum og pottaplöntum.“
Í Blómahönnun er boðið upp á alhliða blómaþjónustu. „Þar sem við þjónustum veislurnar frá a til ö. Við eigum gríðarlegt magn af fallegum vösum, undirlögum, kertastjökum, fjöðrum og ýmis skreytiefni sem við leigjum út með blómaskreytingunum. En veglegt og fallegt undirlag kemur blómaskreytingum á hærra plan og getur skipt sköpum fyrir glæsileika lokaútkomunnar. Við lánum alla vasa og undirlög frítt undir allar blómaskreytingar sem við gerum. Hvort sem það er skírn, brúðkaup, útför, árshátíð eða annað tilefni. Við erum einnig að flytja inn dásamlega fallegar, einstakar og vandaðar vörur sem við veljum af mikilli kostgæfni. Vörurnar veljum við vel og veljum gæðavörur sem endast lengi.“
Blómaverð er hærra vegna tolla
„Ég sé framtíðina bjarta og blómlega á Íslandi og vegna þess stofnaði ég Hagsmunahóp blómaverslana hjá SVÞ og sit þar í stjórn að reyna að leggja niður gríðarháa verndartolla sem leggjast á öll innflutt blóm. Verndartollarnir leggjast ekki einungis á blómategundir sem eru ræktaðar hérlendis heldur á flestallar blómategundir sem fluttar eru inn hérlendis. Þessir tollar er orsök þess að blómaverð á Íslandi er miklu hærra en í öðrum löndum og veldur því að við getum ekki sem þjóð boðið upp á samkeppnishæf verð á blómaskreytingum miðað við aðrar þjóðir.“
Starf Thelmu er yfirgripsmikið og verkefnin fjölbreytt. „Ég vinn mikið úti um allt land fyrir viðburðafyritæki á borð við Pink Iceland, True North, Saga Film o.fl. sem selja ferðamönnum að koma að gifta sig eða halda stóra viðburði á Íslandi og tel ég mikilvægt að við sem þjóð getum boðið upp á samkeppnishæft verð á blómaskreytingum samanborið við löndin í kringum okkur. Ég vona að sigur muni nást í tollabaráttunni þar sem það myndi hafa gríðarleg áhrif á íslenska ferðabransann líkt og íslenska blómabransann sem myndi stækka töluvert með þeirri breytingu,“ segir Thelma með bjartsýnina að vopni.