RANNÍS sér um framkvæmd Erasmus+ áætlunarinnar og tengda starfsemi. Hún snýst um Evrópusamstarf um mennta- og æskulýðsmál og gerir fólki kleift að fara út í nám og sjálfboðaliðastörf, sækja um styrki og taka þátt í alls kyns samstarfsverkefnum. Starfið er mjög fjölbreytt og víðtækt, það hefur í för með sér samfélagslegan ávinning og þátttakendur eru mjög ánægðir.

„Erasmus+ er áætlun ESB fyrir mennta- og æskulýðsmál sem tengir saman lönd í Evrópu, en Ísland hefur haft aðild síðan árið 1992,“ segir Rúna Vigdís Guðmarsdóttir, forstöðukona Landsskrifstofu Erasmus+ á Íslandi. „Margir þekkja þetta sem háskólaáætlun og þetta byrjaði þannig, en í dag er þetta víðtækara og nær líka til leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, fullorðinsfræðslu, starfsmenntunar og æskulýðsmála.

Áætlunin er hugsuð til að stofnanir og samtök sem vinna á þessum sviðum geti eflt sig og aukið gæðin í náminu og starfinu sem þau bjóða upp á, fyrst og fremst með því að tengjast öðrum löndum, stofnunum og samtökum svo þau geti lært hvert af öðru, í stað þess að vera öll að finna upp hjólið hvert í sínu horni,“ segir Rúna. „Það hefur líka sýnt sig að Evrópusamstarf eykur starfsánægju fólks sem starfar á þessum sviðum.

European Solidarity Corps er svo náskyld áætlun sem er fyrst og fremst fyrir ungt fólk á aldrinum 18-30 ára, en með henni er fólki gert kleift að taka þátt í sjálfboðaliðastörfum erlendis og láta gott af sér leiða,“ segir Rúna. „Áætlunin gerir samtökum í æskulýðsgeiranum líka kleift að þróa með sér samstarfsverkefni til að takast á við samfélagslegar áskoranir.

Ísland hefur tekið mjög öflugan þátt í þessu Evrópusamstarfi og við teljum að alls hafi 40 þúsund einstaklingar nýtt tækifærin sem það býður upp á, eða meira en 10% þjóðarinnar. Það eru mjög fáar þjóðir sem státa af svo góðu hlutfalli,“ segir Rúna. „Við finnum að hér er mikil þörf fyrir að tengjast öðrum löndum og Íslendingar eiga auðvelt með að sjá ávinninginn af því að skiptast á þekkingu.“

Þátttakendur ánægðir

„Það skiptir miklu máli fyrir fólk að fara út og taka þátt í þessu starfi. Það getur sótt nám erlendis og við það margfaldast möguleikar þess, en rannsóknir hafa líka sýnt að með því að fara út hluta af námi sínu og þurfa að fóta sig í nýju umhverfi eykur fólk alls kyns hæfni,“ segir Rúna. „Nemendur tala um að þetta hafi gríðarleg áhrif á sig persónulega og á hæfni þeirra til að lifa og starfa í síbreytilegu samfélagi. Fólk eykur aðlögunarhæfni sína og myndar ný tengsl og það eru þessi tengsl og vináttuböndin sem myndast og endast út ævina sem standa upp úr hjá þeim sem fara.

Þau sem hafa farið út tala líka um að vera betur meðvituð um styrkleika og veikleika sína og vita betur hvað þau vilja gera í framtíðinni. Þau eru líka líklegri til að verða virkir þátttakendur í samfélagi og lýðræði og eru betur að sér um stjórnmál, samfélagsmál og Evrópumál,“ segir Rúna. „Margir fara líka ekki út en taka samt þátt í samstarfsverkefnum og njóta þannig góðs af þessu starfi. Ef kennarar eru virkir í samstarfinu og nýta reynslu frá öðrum Evrópulöndum til að efla gæði kennslunnar og fjölmenningarlega vinkilinn, getur það líka verið afar mikilvægt fyrir samfélagið í heild. Það þarf ekki að vera flókið að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi – til dæmis geta kennarar unnið með öðrum kennurum í Evrópu gegnum einföld eTwinning vefverkefni og víkkað þannig sjóndeildarhring bæði nemenda og kennara á aðgengilegan hátt.

Við spyrjum alla þátttakendur álits og um 97% þeirra sem hafa tekið þátt eru ánægðir. Það er því engin ástæða til að nýta ekki þetta tækifæri,“ segir Rúna.

Með því að fara úr landi margfaldast möguleikar fólks í námi og rannsóknir hafa líka sýnt að við það að þurfa að fóta sig í nýju umhverfi eykur fólk alls kyns hæfni. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Nýtt og spennandi tímabil að hefjast þessi áramót

„Við stöndum á tímamótum núna, því við erum að klára sjö ára tímabil í Erasmus+ sem stóð yfir frá 2014. Á þeim tíma höfum við á Íslandi úthlutað 60 milljónum evra fyrir um þúsund verkefni, þannig að þetta er mjög umfangsmikið starf,“ segir Rúna. „Á tímabilinu sem er að hefjast verður byggt á því sem hefur gengið vel hingað til en það verða líka nýjungar.

Það er sérstakt gleðiefni að ESB hefur samþykkt að leggja meira fé í áætlunina en áður, en alls verður 27 milljörðum evra varið í Erasmus+ og European Solidarity Corps á tímabilinu,“ segir Rúna. „Svo eru áherslur í þessum nýju áætlunum sem ég held að falli vel í kramið. Það verður aukin áhersla á aðgengi að áætlununum, þannig að þessi tækifæri standi öllum til boða. Það er til dæmis verið að bjóða upp á skemmri dvalir í vissum tilvikum, allt niður í eina viku. Þetta hentar okkar unga fólki mjög vel, en þau eiga oft erfiðara með að losa sig frá öllu og taka marga mánuði erlendis en önnur ungmenni í Evrópu. Það er mikilvægt að gefa þeim sem geta ekki verið lengi samt möguleika á að fá alþjóðavinkil í líf sitt.

Það er svo hægt að byggja á þeim grunni með Erasmus+ námi á netinu og það er lögð mikil áhersla á að nýta stafræn tól, en markmiðið er að byggja á því sem við höfum lært í COVID og veita fólki á öllum aldri hæfni til að fóta sig í stafrænum heimi,“ útskýrir Rúna. „Það er líka mikil áhersla á loftslagsmál og verkefnisstjórar munu fá stuðning til að framkvæma verkefni á sem vistvænastan hátt.

Nýja tímabilið er ekki hafið en fyrstu umsóknarfrestirnir til að taka þátt í verkefnum sem fylgja því verða auglýstir í lok febrúar eða byrjun mars. Við hvetjum fólk til að fylgjast með á síðunni okkar en við vorum að setja í loftið undirsíða um nýja tímabilið á slóðinni www.erasmusplus.is/um/ny-taekifaeri,“ segir Rúna.

Víðtækt tengslanet í boði

„Eurodesk er upplýsingaveita og samstarfsnet sem miðlar upplýsingum um tækifæri sem bjóðast í Evrópu og víðar til ungs fólks á aldrinum 13-30 ára. Eurodesk vinnur náið með æskulýðsvettvanginum í Evrópu og hefur 1.600 tengiliði í 36 löndum, svo þetta er mjög víðtækt,“ segir Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, verkefnastjóri Upplýsingastofu um nám erlendis og Eurodesk. „Á vefnum Eurodesk.is er leitarvél þar sem hægt er að leita að möguleikum sem í boði eru hverju sinni, hvort sem það er nám, starfsnám, sjálfboðaliðastörf eða styrkir.“

Eurodesk styður einnig við þá sem starfa með ungu fólki hér heima með því að miðla upplýsingum sem gagnast í æskulýðsstarfinu hér innanlands.

„Við hvetjum fólk til að sækja um sjálfboðaliðastörf, starfsnám eða nám erlendis. Það er mikið af skemmtilegum verkefnum og fjölbreyttir staðir í boði og það er auðvelt að leita upplýsinga,“ segir Miriam. „Ef einhver er með fyrirspurn getum við líka nýtt okkar gríðarstóra tengslanet.“

Hafsjór af upplýsingum hjá Upplýsingastofu

„Upplýsingastofa um nám erlendis veitir upplýsingar um hvað þarf að gera til að fara í nám erlendis og hjálpar þeim sem eru að fara út á eigin vegum eða velta því fyrir sér,“ segir Miriam. „Við rekum vefinn farabara.is, þar sem finna má mikið af gagnlegum upplýsingum um hvað þarf til að hefja þetta ferli.

Það er mest spurt um nám á Norðurlöndum og Danmörk er líklega vinsælasta landið. En við fáum líka fyrirspurnir um styrki og erum með undirsíðu þar sem við höfum safnað saman upplýsingum um styrki sem hægt er að skoða eftir fögum og löndum,“ segir Miriam. „Á vefnum er líka mikið af gagnlegum upplýsingum um námsmat, gögn sem þarf og inntökupróf í ákveðnum löndum. Við bjóðum einnig upp á gagnvirkt landakort sem er hægt að nota til að fá ýmsar upplýsingar um nám í fjölmörgum löndum.

Fólki er velkomið að hafa samband við Upplýsingastofuna. Við getum vísað fólki í rétta átt í umsóknarferlinu og gefið fólki ráð um þau gögn sem þurfa að fylgja umsóknum,“ segir Miriam. „Við leiðbeinum fólki svo það geti sjálft unnið að því að komast í draumanámið erlendis.“


Nánari upplýsingar er að finna á www.erasmusplus.is, www.farabara.is og www.eurodesk.is.