Dagana 27. maí til 8. júní næstkomandi verður haldin jarðvangsvika í Reykjanesjarðvangi eða Reykjanes UNESCO Global Geopark. Þetta verður röð fjölbreyttra viðburða, meðal annars gönguferðir, fjölskylduratleikur, hreinsun með Bláa hernum, fuglaskoðunar- og fjöruferð og fyrirlestur um eldvirkni á Reykjanesi. Dagskráin er enn í mótun og verður auglýst á vefsíðu jarðvangsins, www.reykjanesgeopark.is og á Facebook.

„Vikan hefst á gönguferð í samstarfi við Wappið, gönguapp sem Einar Skúlason stendur fyrir og er að þróa,“ segir Daníel Einarsson, verkefnastjóri jarðvangsins á Reykjanesi. „Wappið inniheldur meðal annars gönguleiðir um Reykjanes, sem jarðvangurinn hefur kostað.“

Útivist í Geopark er samstarfsverkefni jarðvangsins, HS Orku og Bláa lónsins. Dagskrá sumarsins verður auglýst á næstunni á heimasíðu/facebook.

Markmið jarðvangsins

Reykjanesjarðvangur vinnur að því að kveikja áhuga íbúa og gesta á svæðinu. Meðal annars með því að vekja athygli á áhugaverðri jarðsögu. Hann vinnur að því að fræða íbúa og gesti um svæðið og annast landsvæðið á sjálfbæran hátt. Jarðvangurinn nær yfir allt land sveitarfélaganna Grindavíkurbæjar, Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Sveitarfélagsins Voga. Hann varð hluti af alþjóðlegum samtökum jarðvanga, Global Geoparks Network, árið 2015.

„Ástæða þess að jarðvangurinn fær UNESCO vottun er að það er einstakt á heimsvísu að úthafshryggur sjáist svo vel á landi, þar sem Mið-Atlantshafshryggurinn rís úr sæ og stígur á land við Reykjanestá. Allt landslag á svæðinu endurspeglast af því. Afleiðingin er eldvirkni, gliðnunarsprungur, jarðskjálftar og jarðhiti. Mið-Atlantshafshryggurinn er eitt stærsta einstaka jarðfræðifyrirbæri á jörðinni,“ segir Daníel.

Veröld vættanna

Það er ýmislegt fleira á döfinni hjá Reykjanesjarðvangi á næstunni. Nýlega var sett af stað verkefni sem kallast Veröld vættanna. Það er samstarfsverkefni jarðvangsins, Þekkingarseturs Suðurnesja og Markaðsstofu Reykjaness. Markmið verkefnisins er að koma upplýsingum og fróðleik á framfæri við yngstu kynslóðina. Vættirnir koma til með að auðvelda öll samskipti við yngri kynslóðina og auka þannig staðarvitund hennar og þekkingu á umhverfismálum og umhverfinu.

Vættirnir eru fjórir. Bergrisinn góði, Berglind blómadís, Brimir hafmaður og Reykjanes-Skotta. „Við fengum Margréti Tryggvadóttur, rithöfund og fyrrverandi alþingiskonu, til að skrifa persónulýsingu og sögu um vættina. Svo fengum við hönnuðina Guðmund Bernharð og Silviu Pérez til að teikna myndheiminn,“ segir Daníel.

„Framhaldið á þessu verkefni er óendanlegt. Við sjáum til dæmis fyrir okkur að nýta þetta í framtíðinni til að búa til gönguleiðir fyrir fjölskyldur. Okkur langar að setja upp einhvers konar gagnvirk skilti í hæð barnanna svo þau geti leitt göngu með foreldrum sínum og fræðst á sama tíma.“

Samstarf við Bláa lónið

Nýlega tóku Bláa lónið og Reykjanesjarðvangur upp víðtækt samstarf sem að stuðlar að markmiðum jarðvangsins og sveitarfélaganna. Til stendur til að Bláa lónið sjái um uppbyggingu og rekstur þjónustumiðstöðvar við Reykjanesvita. „Það er mikið fagnaðarefni að fá svona sterkan aðila til að koma inn í þetta með okkur,“ segir Daníel.

„Það er ótrúlega fjölbreytt og mikilfengleg náttúra á Reykjanesi. Um leið og þú keyrir út af Reykjanesbrautinni geturðu farið mjög flotta hringi á stuttum tíma og séð fjölbreytta náttúru. Það er hægt að lýsa Reykjanesinu sem þverskurði af náttúru Íslands. Það er nánast allt þarna nema vatnsmiklar ár og stórir fossar. Við hvetjum alla til að taka sunnudagsrúntinn og heimsækja Reykjanesið.“