Þrjú ísfiskskip landa fiski til vinnslu í fiskiðjuverinu á Granda.

„Afli þeirra var á síðasta ári um 23 þúsund tonn,“ upplýsir Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Brims.

„Félagið rekur einnig þrjú frystiskip sem landa framleiðslu sinni í frystigeymslu félagsins í Örfirisey. Afli þeirra var um 28 þúsund tonn og var heildarafli togara Brims því um 51 þúsund tonn á árinu 2019.“

Framleiðsluverðmæti botnfiskafurða var samtals um 20 milljarðar króna árið 2019, á gengi dagsins í dag.

„Það er athyglisvert að Brim á Granda er væntanlega sá staður á Íslandi þar sem verðmætasköpun bolfiskafurða er hvað mest á landinu. Tekjur Brims og íslenskra dótturfélaga árið 2019 voru um 33 milljarðar króna og skattspor félaganna var um 7,6 milljarðar á meðalgengi ársins,“ segir Ægir Páll.

Þessa dagana er unnið að endurnýjun botnfiskvinnslu Brims á Granda.

„Nánast öllum búnaði, allt frá móttöku aflans til pökkunar, verður skipt út. Auk þess verður vinnsluhúsnæði og starfsmannaaðstaða lagfærð. Með þessari framkvæmd aukast afköst, nýting verður betri sem og gæði afurða. Framkvæmdin sem hófst í maí er mjög umfangsmikil og lýkur á næstu vikum, og að loknum framkvæmdum verður fiskiðjuver Brims á Granda eitt það tæknivæddasta,“ segir Ægir Páll.

Brim teygir anga sína um víðan völl á Granda, allt frá Marshallhúsinu að Þúfu Ólafar Nordal. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins mikil hvatning

Brim hlaut Umhverfisverðlaun atvinnulífsins árið 2019, sem var mikil viðurkenning á starfi félagsins að umhverfismálum undanfarin ár. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Guðmundi Kristjánssyni, þáverandi forstjóra Brims, verðlaunin á Umhverfisdegi atvinnulífsins.

Í umsögn dómnefndar verðlaunanna sagði meðal annars:

„Brim hefur tekið umhverfismálin föstum tökum. Fyrirtækið leggur áherslu á samfélagsábyrgð og virðingu fyrir umhverfinu og hefur unnið að því að kortleggja áhrif og ábyrgð félagsins. Þá hefur Brim sett sér markmið og mælikvarða til að mæla árangur, draga úr sóun og auka verðmæti. Brim hefur dregið markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda, fjárfest í nýrri tækni og skipum sem hefur skilað miklu.“

„Við hjá Brim erum stolt af því að hafa hlotið Umhverfisverðlaun atvinnulífsins en það er mikilvæg viðurkenning fyrir okkur og hvatning til að halda áfram á sömu braut,“ segir Ægir Páll.

„Úti á Granda er Brim með Svaninn, fullbúna flokkunarstöð, þar sem stafrænum lausnum er beitt, bæði hvað varðar skráningu á almennum úrgangi og endurvinnsluhráefni,“ upplýsir Ægir Páll.

Félagið flokkar sorp, hvort sem það fellur til á sjó eða í landi, og endurnýtir það eins og hægt er.

„Brim hefur á síðustu árum skipulagt mikið flokkunar- og umhverfisstarf með það að markmiði að lágmarka þann úrgang félagsins sem fer í urðun,“ segir Ægir Páll.

Svanurinn er fullbúin flokkunarstöð Brims á Granda. Þar er stafrænum lausnum beitt við skráningu á úrgangi sem fellur til á sjó eða í landi. MYND/ KRISTJÁN MAACK

Vinsæll áfangastaður á Granda

Árið 2013 efndi Brim, ásamt Sambandi íslenskra listamanna og Faxaflóahöfnum, til samkeppni um nýtt listaverk sem prýða átti umhverfið við Ísbjörninn, nýja frystigeymslu félagsins sem byggð var sama ár.

„Fyrir valinu varð verkið Þúfa, eftir listakonuna Ólöfu Nordal. Þeir sem ganga upp á toppinn njóta eins tilkomumesta útsýnis yfir Reykjavík sem völ er á og er listaverkið einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna í Reykjavík,“ segir Ægir Páll.

Brim er einnig eigandi Marshall-hússins sem staðsett er á athafnasvæði félagsins á Granda.

„Marshallhúsið er nýr vettvangur lista við Gömlu höfnina í Reykjavík. Húsið var byggt sem síldarbræðsla árið 1948 en hýsir nú Nýlistasafnið, Kling & Bang, Stúdíó Ólafs Elíassonar ásamt vinnustofu og veitingastaðinn La Primavera Ristorante.“

Kynntu þér allt um Brim á brim.is