Sveitarfélagið Hornafjörður er í mikilli sókn. Svæðið er rómað fyrir ótrúlega náttúrufegurð og er mikil útivistarparadís. Þar búa tæplega 2.400 manns, en íbúum hefur fjölgað umfram væntingar undanfarin ár. Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri segir að helst megi þakka auknum fjölda ferðamanna fyrir þessa fjölgun. „Þetta er í grunninn sjávarútvegs- og landbúnaðarsamfélag. En ferðaþjónustan hefur vaxið hratt á undanförnum árum og er orðin svipuð að stærð og sjávarútvegurinn,“ segir hún.

Aukinn ferðamannastraumur hefur leitt af sér fjölgun atvinnutækifæra í sveitarfélaginu. Starfsemi í kringum Vatnajökulsþjóðgarð hefur eflst mjög hratt. Fjölbreytt fyrirtæki hafa sprottið upp sem byggja starfsemi sína í kringum íshellaskoðanir, jöklaferðir, siglingar, kajakferðir og fleira.

„Við erum líka með mjög góða veitingastaði, sem hafa sprottið upp síðustu ár. Fyrir tíu árum var hægt að velja úr svona tveimur til þremur stöðum, mestmegnis skyndibitastöðum, en nú eru þetta háklassa veitingastaðir eins og finnast á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Matthildur

Öflugt félagslíf

Á Hornafirði er öflugt félagslíf. Þar er meðal annars fjöldi kóra og tónlistarskóli. Ungmennafélagið Sindri er með öflugt og fjölbreytt íþróttastarf. Þar er boðið upp á fótbolta, körfubolta, fimleika, sund, blak og frjálsar íþróttir. Í sveitarfélaginu er líka glæsileg sundlaug og níu holu golfvöllur. Það er því úr nógu að velja.

„Við höfum lagt áherslu á að skipuleggja allt íþróttastarf strax í kjölfar skóla. Þá eru börnin búin með sinn vinnudag þegar foreldrarnir koma heim. Það hefur verið stefna sveitarfélagsins að yngri börnin klári sitt tómstundastarf að mestu fyrir klukkan fjögur á daginn,“ segir Matthildur.

„Það sem við höfum og er oft vanmetið, er þessi smæð. Það tekur bara fimm mínútur að fara á milli staða, í vinnu og með börn á leikskóla og í skóla. Tímasparnaðurinn er vanmetinn og aukatíminn sem fólk vinnur sér inn getur það nýtt í tómstundir, samveru með fjölskyldu og fleira.“

Í Sveitarfélaginu eru tveir grunnskólar. Einn á Höfn og annar í Öræfasveit rétt hjá Skaftafelli. Öræfasveit er 100 kílómetra frá Höfn. „Þar er ákveðin sérstaða líka,“ segir Matthildur. „Það er eins konar smáþorp í sveitarfélaginu. Það eru aðeins í kringum 10 börn í skólanum en skólinn þar er miðstöð alls félagslífs í sveitinni. Leikskólarnir eru einnig tveir, annar í Öræfum og svo er nýr leikskóli hér á Höfn í glæsilegu húsnæði.“

Frá barnastarfi Menningarmiðstöðvar við Vestrahorn.

Ferðamannastraumur allt árið

Ferðaþjónusta hefur einnig byggst hratt upp í Öræfasveit. Það koma um það bil 2.000-3.000 ferðamenn að Jökulsárlóni og Skaftafelli á hverjum einasta degi. Það er fjöldi sem svipar til íbúafjöldans á Höfn. Ferðatíminn er að lengjast svo hann nær yfir allt árið. „Það er nánast sama umferð á svæðinu frá desember fram í febrúar og yfir hásumarið,“ segir Matthildur.

Á Höfn er allt til alls. Það er framhaldsskóli á staðnum til húsa í Nýheimum. Í framhaldsskólanum er boðið upp á hefðbundið nám ásamt list- og verknámi og síðast en ekki síst fjallamennskunám. Í húsnæði Nýheima er einnig að finna menningarmiðstöð, þekkingarsetur, háskólasetur og Náttúrustofu Suðausturlands. Uppbygging íbúðarhúsnæðis hefur verið mikil síðustu tvö ár enda fjölgun íbúa umfram væntingar samkvæmt aðalskipulagi.

Fram undan hjá sveitarfélaginu er Humarhátíðin sem haldin er síðustu helgina í júní ár hvert. Um verslunarmannahelgina verður svo Unglingalandsmót UMFÍ haldið á Höfn í þriðja sinn. Það er því ljóst að allir sem leggja leið sína í sveitarfélagið í sumar ættu að finna sér eitthvað við að vera. „Sveitarfélagið tekur vel á móti gestum og hvetjum við Íslendinga til að heimsækja Hornafjörð.“