Árið 1995 hóf ég nám í kínversku í Beijing. Það Kína sem ég kynntist þá er harla ólíkt Kína dagsins í dag. Óhætt er að fullyrða að varla sé til það land í heiminum sem hefur tekið eins miklum breytingum á þessum tíma og Kína.

Það hefur sannarlega verið ótrúlegt að fylgjast náið með Kínverjum taka risa skref til nútímans. Þar verður mörgum tíðrætt um hinar áþreifanlegu breytingar með háhýsum stórborga og að bílum var skipt út fyrir reiðhjól. Það sem mér finnst þó merkilegast við þessar umbreytingar eru breytingar á aðstæðum og kjörum almennings sem líkja má við byltingu.

Fyrir utan auðvitað þrautseigju Kínverja í að bæta sín kjör spila aukin tengsl Kína við umheiminn á þessum tíma stóra rullu. Það er gömul saga og ný í gegnum kínverska sögu að Kínverjum hefur farnast best þegar þeir hafa haft mikil og góð samskipti við önnur lönd. Nákvæmlega það sama á einmitt við um Ísland og því segir það sig sjálft hversu mikið hagsmunamál það er fyrir báða aðila að hlúa að góðum og nánum samskiptum landa.

Íslenskt sendiráð í Beijing

Íslenska sendiráðið í Beijing var sett á laggirnar á þessu góða ári 1995. Eins og fram kemur í afar skemmtilegu og fróðlegu viðtali í hlaðvarpi Konfúsíusarstofnunar við fyrsta sendiherra Íslands með aðsetur í Kína, Hjálmar W. Hannesson, markaði opnun sendiráðsins tímamót í samskiptum landanna. Augljóst var að Íslendinga þyrsti í nánari kynni af Kína og hófst þá nýr kafli í samskiptasögu okkar sem með auknum viðskiptum og menningarsamskiptum landanna hafa tekið algerum stakkaskiptum á þessum rúmu 25 árum sem hafa liðið síðan.

Mikilvægt hlutverk

Konfúsíusarstofnunin Norðurljós við Háskóla Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í samskiptum landanna á sviðum menningar og menntunar. Í gegnum starf mitt þar hef ég haft tækifæri til að kynna kínverska tungu og menningu fyrir Íslendingum.

Meginmarkmið Konfúsíusarstofnunar, sem kennd er við kínverska heimspekinginn Konfúsíus, er kennsla í kínversku, bæði innan HÍ og í íslensku samfélagi almennt. Eins stendur stofnunin fyrir menningarviðburðum sem og umfjöllun um Kína í gegnum fyrirlestra og málþing. Fjöldi Íslendinga sem læra kínversku fer vaxandi og er ánægjulegt að sjá að fleiri ungmenni leitast eftir að kynna sér þetta fjarlæga og krefjandi en jafnframt skemmtilega tungumál.

Þekkingu á Kína og kínversku er verðmætt að hafa í farteskinu. Viðskipti landanna aukast hröðum skrefum og kínverskir ferðamenn streyma til þessa leyndardómsfulla lands okkar sem þeir kalla „bingdao“ eða íseyjuna upp á kínversku. Vaxandi þörf er því á fólki sem hefur innsýn í menningu Kínverja og talar tungumál þeirra til að við getum betur tekið á móti þessum ört vaxandi hópi ferðamanna.

Samskipti á mörgum sviðum

Á hinu akademíska sviði eru samskipti við Kína á fjölmörgum sviðum. Í áratugi hafa kínverskir nemendur sótt þekkingu til Íslands, sérstaklega í gegnum Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Umfangsmikið samstarf landanna þegar kemur að nýtingu jarðvarma í Kína er dæmi um verkefni til hagsbóta fyrir bæði löndin sem og allan heiminn í glímunni við loftslagsvána. Árið 2007 hófst nám í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands og með því gafst íslenskum nemendum möguleiki á að læra kínversku og taka Kína-tengd námskeið til BA-prófs á Íslandi. Í þau tæp 15 ár sem kínversk fræði hafa verið í boði hafa vel á annað hundrað nemenda sótt kennslu í kínversku í gegnum þessa námsleið og stór hluti þeirra hefur haft tækifæri til að dvelja í kínverskum háskóla í eitt til tvö misseri sem hluta af náminu.

Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti, og Dorrit Moussaieff í heimsókn í Kína árið 2007 þegar Eimskip opnaði formlega stærstu kæli- og frystigeymslu þar í landi.

Samstarf háskóla

Háskóli Íslands er nú í samstarfi við fjölmarga háskóla í Kína. Á meðal þessara skóla eru allir helstu skólar í Kína eins og Peking- og Qinghuaháskólar í Beijing og Fudan-háskóli í Shanghai. Einnig langar mig sérstaklega að nefna Ningbo-háskóla sem hefur staðfastlega stutt við Konfúsíusarstofnunina Norðurljós og sent mikið úrvalslið kennara til að kenna kínversku við Háskóla Íslands.

Aðrir íslenskir háskólar eru einnig í samstarfi við kínverska háskóla, mismikið þó. Það er mitt mat að áhugi íslensks háskólafólks á samstarfi og samvinnu við kínverska kollega sína sé vaxandi. Aukinn styrkleiki kínverskra háskóla á heimsvísu hefur þar eflaust mikið að segja og miklar framfarir í Kína á tæknisviðinu. En mikilvæg ástæða þessa er trúlega ekki síst sú staðreynd að fleiri eru að átta sig á því að gagnvart þeim miklu áskorunum sem mannkyn stendur frammi fyrir spilar Kína mjög vaxandi hlutverk og framtíðarlausnir á þeim eru óhugsandi án þess að Kína komi þar að borðinu.

Á þessum tímamótum við 50 ára afmæli stjórnmálasamskipta Íslands og Kína er það von mín að löndin muni halda áfram þeim vinalegu samskiptum sem alla tíð hafa einkennt samband þjóðanna. Svo góð hafa þau samskipti í raun verið að hvergi hefur þar fallið blettur á. Fjölmörg tækifæri bíða okkar í samvinnu landanna og það er margt sem við getum lært hvort af öðru. Aðalatriðið er að nálgast það með opnum huga og framtíðarsýn að leiðarljósi til hagsbóta fyrir báðar þjóðir