Klara Guðbrandsdóttir er náms- og starfsráðgjafi hjá fangelsum landsins. Hún segir hlutverk náms- og starfsráðgjafa í fangelsum fjölbreytt, en það gengur út á að veita viðtöl, hópráðgjöf, fræðslu, kennslu, áhugasviðsgreiningu, styrkleikapróf og hafa samskipti við stofnanir og jafnvel foreldra. Fangar hafa aðgengi að ýmiss konar námi, bæði í fjarnámi og í gegnum skóla á Litla-Hrauni og Sogni. Ráðgjöfinni er ætlað að auðvelda föngum, á hvaða aldri sem er og við hvaða aðstæður sem er, að átta sig á styrkleikum sínum, færni og áhuga til að eiga hægara með að ákveða stefnu í námi og starfi.

„Það hefur verið náms- og starfsráðgjafi í fangelsunum í um 10 ár í mjög misjöfnu starfshlutfalli, en ég er í 100% starfi við að sinna Litla-Hrauni, Hólmsheiði og Sogni og svo er ein sem er í 15% starfi frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga sem sinnir Kvíabryggju,“ segir Klara. „Við vinnum eftir heildstæðri stefnu náms- og starfsráðgjafar, en ég og kennslustjórinn á Litla-Hrauni vorum í vinnuhópi á vegum ráðherranefndar til að móta þessa stefnu og þeirri vinnu lauk 2020.

Í því samstarfi sá ég að við á Íslandi stöndum framarlega á þessu sviði, sem var mjög gaman að sjá,“ segir Klara. „Það er gaman að geta borið sig saman við nágrannalöndin og séð og sagt að við séum fagleg og að vinna gott starf og núna eru öll Norðurlöndin að vinna eftir sömu stefnu í náms- og starfsráðgjöf í fangelsum.“

Ýmsir möguleikar í boði

„Allir fangar hafa aðgang að náms- og starfsráðgjafa og þeir eru duglegir að nýta þessa þjónustu,“ segir Klara. „Þegar fangi kemur inn í fangelsi fer hann í móttökuviðtal hjá félagsráðgjafa þar sem er farið yfir sögu einstaklingsins og komið inn á menntamál í fangelsum og náms- og starfsráðgjöf. Oft vísa félagsráðgjafar fólki sem vill koma beint til mín. Einnig koma þeir að eigin frumkvæði. Þeir geta leitað til ráðgjafa hvenær sem er á meðan á afplánun stendur.

Mjög margir eru bara að velta fyrir sér hvað er í boði og hvað þeir geta gert til að byggja sig upp. Sumir eru bara að stoppa stutt, því þeir eru í gæsluvarðhaldi en ekki að afplána dóm, og þá förum við oft yfir námsferilinn og skipuleggjum námsferilsáætlun “ segir Klara. „Svo hjálpum við föngum að sækja um í skólum, skoða styrkleika, áhugasvið, vinnumarkaðinn og fleira þess háttar.

Á Litla-Hrauni og Sogni rekur Fjölbrautaskóli Suðurlands skóla. Þar getum við boðið föngum nám á framhaldsskólastigi burtséð frá annakerfi og öðrum takmörkunum, þannig að fangi sem hefur áhuga getur byrjað strax í námi um leið og hann kemur í fangelsið,“ segir Klara.

Annakerfið og skert tölvuaðgengi skapar áskoranir

„Starfinu fylgja margar áskoranir. Það er í fyrsta lagi ákveðin áskorun að vinna í fangelsi, en ég upplifi mig samt örugga þar,“ segir Klara. „Það eru líka rosalega margar áskoranir varðandi það að hjálpa fólki að komast í nám. Skólakerfið er rekið í annakerfum en fangar koma í fangelsi allt árið, ekki bara á annaskiptum, og svo hafa kvenfangar á Hólmsheiði bara aðgang að fjarnámi, því þar er enginn skóli. Það er dýrt fyrir fangana og dagsetningarnar skipta miklu máli.

Það er líka erfitt fyrir fólk sem er á háskólastigi að hafa skert tölvu- og netaðgengi í lokuðu fangelsi og því skiptir máli hvaða námsleið fólk velur og það þarf oft að finna alls konar lausnir til að vinna í kringum öryggisreglur fangelsanna,“ segir Klara. „Það er næstum alltaf hægt að finna leiðir, en þetta getur verið flókið.

Fangar hafa aðgang að öllu fjarnámi, svo framarlega sem það rímar við öryggisreglur í fangelsinu þeirra. Það skiptir samt máli hvar þú ert og hvort þú ert í opnu eða lokuðu úrræði,“ útskýrir Klara. „En það hefur bara einu sinni komið upp tilvik þar sem nám gekk ekki upp.“

Kerfið bregst mörgum

Klara segir að það sé mjög mikilvægt að veita föngum náms- og starfsráðgjöf því margar rannsóknir sýni að menntun sé góð betrun. Hún segir það líka mjög gefandi að veita ráðgjöf.

„Ég er búin að heyra ofboðslega margar sögur frá fólki sem upplifði sig utangátta í skólakerfinu mjög snemma. Margir kvarta undan því og segja að þörfum þeirra hafi ekki verið mætt,“ segir Klara. „Það eru margir sem koma í fangelsi sem hafa slæma reynslu úr námi en komast svo að því að þeir eiga alveg jafn mikinn séns og allir aðrir.

Í venjulegu námsumhverfi mætti segja að kannski, ef ég giska, um 20% af nemendum séu með námsörðugleika, athyglisbrest, hegðunarvanda og slíkt, en hjá okkur glímir yfirgnæfandi meirihluti við slíkar áskoranir,“ útskýrir Klara. „Því eru mjög margir sem leita til mín sem hafa litla trú á eigin getu og eru óöruggir. Svo sér maður fólk blómstra og öðlast trú á eigin getu. Það er ofboðslega gaman að heyra fólk segja „ég vissi ekki að ég gæti lært“ og það er mjög oft í viku sem ég hugsa, „þetta er ástæðan fyrir því að ég er hérna“.“