Erla er doktor í umhverfis- og jarðefnafræði frá Macquarie-háskóla í Sydney, Ástralíu. Í náminu skoðaði hún mengun á Suðurskautinu og vann í framhaldi af því sem ráðgjafi í Ástralíu. Hún flutti svo til Íslands árið 2019 og hóf störf hjá Verkís.

„Verkís er góður staður til að vinna á og mikill stuðningur við starfsfólkið. Það er hlustað á starfsfólkið þegar það kemur með nýjar hugmyndir og leggur til nýjar aðferðir. Eins leggur fyrirtækið áherslu á að við finnum jafnvægi á milli vinnu og heimilis,“ segir hún

„Helstu verkefnin mín hjá Verkís eru rannsóknir á jarðvegi. Við höfum meðal annars verið gera mengunarrannsóknir á iðnaðarsvæðum sem á að breyta í íbúðasvæði,“ segir Erla.

„Núna erum við að vinna í úrbótaframkvæmdum á Hofsósi en þar varð olíuleki. Þar er enn mengun til staðar sem við erum að hreinsa,“ útskýrir hún.

Auk jarðvegsrannsókna sinnir Erla meðal annars grunnvatnsvöktunum fyrir Isavia í Keflavík og kemur inn í verkefni sem tilheyra BREEAM vottun.

„BREEAM er bresk vottun sem snýr að sjálfbærni og umhverfisvottun fyrir hverfi. Ég kem inn í verkefnið að því leyti að það er skyldukrafa að meta mengunarstöðu landsvæðis, og eiga niðurstöður matsins að hafa áhrif á hvernig skipulagi svæðisins er háttað. Vottunin hvetur til uppbyggingar á röskuðum landsvæðum en ekki að byggt sé á óröskuðum svæðum,“ upplýsir hún.

Starf Erlu er fjölbreytt og mikið um ferðalög á milli landshluta.

„Það eru mörg verkefni sem snúa að svæðum þar sem bandaríski herinn hefur verið og skilið eftir sig umhverfisspor. Við tökum jarðvegs- og vatnssýni til að átta okkur á magni og útbreiðslu mengunarinnar,“ segir hún.

Erla telur það vera mjög mikilvægt að mengunarrannsóknir og öll mengunarvinna sé unnin á sem sjálfbærastan hátt, „því við viljum ekki auka mengun með okkar aðferðum.“

„Ég legg mikið upp úr því, þegar við erum að finna leiðir í hreinsunarverkefnum, að hægt sé að gera það á staðnum á sem sjálfbærastan hátt. Þegar mengun finnst er ekki endilega fýsilegast að hún sé bara mokuð upp og send í urðun. Þá fer mengunin ekki neitt heldur er hún flutt á annan stað í vörubílum með mikið kolefnisspor og mögulegri hættu á að hún dreifist á leiðinni. “

Á Íslandi er ekki mikið af mengunarsérfræðingum miðað við það sem Erla þekkir frá öðrum löndum.

„Ég hef tekið eftir því að íslenskar reglugerðir og leiðbeiningar um aðferðafræði mengunarrannsókna er ábótavant. En ég bind vonir við að þetta fari í betri farveg á næstunni og að mengunarrannsóknir verði framkvæmdar fyrr í ferlinu í skipulagsmálunum. Ég hef mikinn áhuga á að taka þátt í þessum breytingum.“