„Mér þykir óendanlega vænt um þetta verkefni og þekki þennan hóp afskaplega vel. Þegar ég var drengur fór ég í sveit á sumrin til afa og ömmu í Gunnarsholti, þar sem afi var aðstoðarforstöðumaður á meðferðarheimili fyrir langt gengna alkóhólista. Þar kynntist ég þessum meisturum götunnar og þótti einstaklega vænt um þessa karla sem voru gegnumgóðir og miklir vinir manns. Ég hef sjálfur glímt við alkóhólisma og öll mín reynsla af fólki sem lent hefur í þessari stöðu er eins. Það mætir mjög hörðum veruleika og þarf að bjarga sér á vegu sem við hin getum ekki einu sinni ímyndað okkur. Þá er oft máluð svört mynd af mjög góðu fólki.“

Þetta segir Hörður Jónsson, sem verið hefur sjálfboðaliði í skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins, Frú Ragnheiði, frá árinu 2017. Í sumar hljóp Hörður Laugaveginn til styrktar Frú Ragnheiði. Hann lauk BS-gráðu í sálfræði í fyrra og var lokaverkefnið rannsókn á hópi skjólstæðinga Frú Ragnheiðar.

„Skaðaminnkun er ástríða hjá mér. Hún snýst um að lágmarka allan skaða sem hlýst af líferni einstaklinga í vímuefnavanda. Það gerum við með því að kenna fólki að nota efni og áhöld til vímuefnanotkunar rétt, því þegar einstaklingar í vímuefnavanda nota vímuefni í æð er mikil hætta á smiti á HIV-veirunni, lifrarbólgu C og fleiri sýkingum. Með því að skaffa þeim nýjan búnað má koma í veg fyrir þessa sýkingarhættu. Jafnframt fræðum við fólk um örugga notkun vímuefna, hvar best sé að hitta á æðar og hvaða æðar er öruggt að nota. Við sýnum því líka að til sé hópur í samfélaginu sem þykir innilega vænt um það. Við færum því hlý föt og gefum því að borða því margir í þessu líferni þjást af miklum næringarskorti. Við erum þakklát veitingastöðum sem gefið hafa Frú Ragnheiði mat, en það er alltaf vöntun á slíku,“ greinir Hörður frá.

Hörður segir þjónustu Frú Ragnheiðar vera einstaklingsmiðaða og að skjólstæðingar hennar nálgist bílinn á sínum forsendum. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Sálrænn stuðningur mikilvægur

Allir í vímuefnavanda geta leitað til Frú Ragnheiðar.

„Fólk nálgast bílinn á sínum forsendum og það er enginn sem segir því að gera eitt né neitt. Það einfaldlega hringir í okkur og við mætum á staðinn þar sem viðkomandi vill hitta okkur. Áður vorum við með föst stopp í bænum en það nýttist verr. Þjónustan er því einstaklingsmiðuð og byggist á trausti. Orðspor Frú Ragnheiðar hefur svo aukist gríðarlega, orðið gengur á milli manna og þess vegna hefur Frú Ragnheiður fengið þennan status. Til að byrja með var hún ljóti andarunginn hjá Rauða krossinum og fáir sem sóttust í sjálfboðastarfið, en nú er orðið erfitt að komast þar að,“ upplýsir Hörður.

Hann segir einstaklinga í vímuefnavanda forðast að leita sér aðstoðar innan heilbrigðisgeirans þar sem þeir mæti gjarnan neikvæðu viðmóti.

„Við erum með sáraþjónustu í bílnum því skjólstæðingar okkar eru oft komnir með mjög slæmar sýkingar sem þarf að meðhöndla í bráðafasa. Frú Ragnheiður fékk nýverið leyfi til að útdeila sýklalyfjum og það hefur breytt miklu.“

Meirihluti þeirra sem kalla eftir þjónustu Frú Ragnheiðar eru einstaklingar í vímuefnavanda.

„En þegar við förum í neyðarskýlið bætast við eldri karlar sem verið hafa meira í áfengi og þurfa líka á aðstoð að halda. Þeim finnst lítið hlustað á sig en þurfa mikið að létta á sér. Starfið snýst því líka um sálrænan stuðning, að bjóða öxl til að gráta á og hlusta. Við erum á ferðinni öll kvöld nema á laugardögum. Þegar ég byrjaði komu um tíu manns í bílinn á annasömu kvöldi, en nú eru þeir upp undir þrjátíu, enda vita æ fleiri af þessari þjónustu, sem betur fer,“ segir Hörður.

Síminn hjá Frú Ragnheiði á höfuðborgarsvæðinu er 788 7123, á Akureyri 800 1150 og í Reykjanesbæ 783 4747. Sjá nánar á raudikrossinn.is