„Suðurland er best í heimi, það er bara þannig,“ segir Karen, sem er Rangæingur í húð og hár, alin upp í fögrum Landeyjunum.

„Ég hef búið víða á Íslandi og ferðast mikið um landið. Ég segi samt alltaf að ég sé með Suðurland í hjartanu og þá sérstaklega Rangárþing eystra. Svæðið er fullt af sögu, fallegu mannlífi og svo fjölbreytileika í náttúru sem á ekki sinn líkan á landinu. Þegar ég hugsa um svæðið veit ég ekki hvar ég á að byrja; víðáttan, fjöllin, sandarnir, árnar, skógarnir, jöklarnir, gljúfrin, aurarnir og fossarnir. Þetta er yfirþyrmandi fegurð og þótt ég hafi alla ævi verið viðloðandi svæðið er ég alltaf að uppgötva eitthvað nýtt og upplifa kunnugleg svæði á algerlega nýja vegu. Það er til dæmis alveg sama hversu fólk fer yfir Fimmvörðuháls og Laugaveginn oft, það er aldrei eins.“

Karen hljóp í fyrra með Írenu, systur sinni, frá Keldum, á bak við fjallið Þríhyrning, og inn í Fljótshlíð, en þar rekur Írena ferðaþjónustu að Hellishólum. MYND/AÐSEND

Fyrir þá allra hörðustu og fjölskyldufólk í rólegheitum

Karen nefnir að fyrir skömmu hafi fólk ekki haft trú á að ferðaþjónusta á Íslandi gæti orðið burðug atvinnugrein, en raunin hafi orðið önnur.

„Þótt það laumist stundum að manni eigingjarn söknuður eftir því að njóta náttúrunnar í næði er ábatinn þó langtum meiri en ókostirnir. Uppbygging á vinsælum svæðum hefur gert þau öruggari og aðgengilegri. Metnaðarfull afþreyingarfyrirtæki og veitingastaðir gera svæðið að enn skemmtilegri áfangastað auk þess sem þau gera líf íbúa á svæðinu skemmtilegra og atvinnulífið fjölbreyttara.“

Í bakgarðinum eru Fjallabaksleið, Emstrur, Þórsmörk og jöklarnir, en Karen segir þá sem vilja helst ekki fara langt frá Þjóðvegi eitt líka verða gagntekna af fegurðinni.

„Á ferð með fjölskyldunni er hægt að komast inn í töfraheim á tveimur mínútum með því að leggja við Seljalandsfoss og ganga á bak við hann, það er upplifun sem lítið barn mun geyma í minni sér út ævina. En Seljalandsfoss er ekki bara þessum göldrum gæddur heldur er hann líka eins konar hliðvörður á milli yfirþyrmandi fegurðarinnar undir Eyjafjöllum og svo víðáttunnar yfir Markarfljótsaura, Landeyjar og inn í Fljótshlíð,“ segir Karen um nokkrar af óviðjafnanlegum náttúruperlum Rangárþings eystra.

„Skógafoss þarf svo vart að nefna en þau sem hafa gengið yfir Fimmvörðuháls, það er að segja frá Skógum og inn í Þórsmörk, vita að hann er bara einn af mörgum stórfenglegra fossa sem blasa við á þeirri leið.“

Hér stendur Karen í gljúfri í Þórólfsfelli inn af Fljótshlíðinni. MYND/AÐSEND

Ævintýraveröld í bakgarðinum

Karen hvetur ferðalanga til að gefa söfnum og sýningum gaum, hvar sem er á landinu.

„Mér finnst söfn og sýningar á Íslandi hafa tekið miklum framförum undanfarin ár, en engin sýning þykir mér þó jafn mögnuð og sú sem er í Lava Centre á Hvolsvelli. Þar er stórkostlegt að fræðast á skemmtilegan hátt um eldvirkni svæðisins og kynngimagnaða orkuna í jörðinni. Eiginlega má fólk bara ekki láta þetta fram hjá sér fara,“ segir Karen, sæl í sinni heimasveit.

„Það er bara einhver stórkostleg orka í Rangárþingi sem yljar mér um hjartarætur. Eitthvað blítt, hlýtt og fagurt en samt svo óútreiknanlegt og klikkað. Það eru svo mikil forréttindi að geta heimsótt svona undraheim án nokkurrar fyrirhafnar. Veröld sem höfundar ævintýrabóka geta ekki einu sinni náð utan um.“ n