Coca-Cola EuroPacific Partners (CCEP) er alþjóðlegt fyrirtæki sem hefur djúpar rætur í íslensku samfélagi enda með yfir 80 ára sögu hér á landi. Mannauðsmál fyrirtækisins taka því eðlilega mið af því segir Sonja Margrét Scott, mannauðsstjóri CCEP.

„Við erum mjög heppin að mörgu leyti, því við erum í grunninn rótgróið íslenskt fyrirtæki en líka hluti af nýju stóru spennandi alþjóðlegu fyrirtæki. Yfirmaður minn er staðsettur í Hollandi og með mér í teymi eru mannauðsstjórar í Noregi, Svíþjóð, Belgíu, Lúxemborg og Hollandi. Við lærum heilmikið hvert af öðru og líka af mannauðsfólki frá öðrum löndum. Það er svo hollt að ræða málefni við fólk sem kemur úr öðrum menningarheimum og hjálpar okkur að hugsa út fyrir boxið. CCEP er starfrækt í 29 löndum í Evrópu, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Indónesíu. Ég myndi ekki segja nei ef ég fengi tækifæri til að taka að mér verkefni á Fiji-eyjum.“

Víðtækur stuðningur

Það eru nokkur stuðningssvið innan mannauðsmála hjá CCEP sem hafa það markmið að styðja mannauðsstjóra í viðskiptaeiningunum dagsdaglega.

„Þar starfar mjög sérhæft starfsfólk. Á síðastliðnum árum höfum við innleitt hér á Íslandi ótalmargt frá CCEP. Sem dæmi fær starfsfólk okkar tvo daga á ári sem það getur varið í sjálfboðaliðastörf. Við bjóðum einnig upp á ráðgjafarþjónustu starfsfólki að kostnaðarlausu, þar sem þau geta fengið ráðgjöf til dæmis frá sálfræðingum, lögfræðingum eða fjármálaráðgjöfum, allt í fullum trúnaði og án kostnaðar fyrir starfsfólk. Einnig bjóðum við starfsfólki upp á hlutabréfakaup með sérstökum kjörum, en CCEP hefur verið á markaði síðan 2018.“

Jafnréttismálin efst á listanum

Sonja segir flaggskip mannauðsmála hjá CCEP vera jafnréttismálin. „Það er sér jafnréttissvið hjá CCEP sem hefur stutt dyggilega við okkur að opna umræðuna um jafnrétti og fjölbreytileika – í víðum skilningi.“

Hún segir jafnréttismálunum skipt niður í fimm áherslusvið: Kyn, aldur, menningarbakgrunn, LGBTQ+ og fötlun. „Jafnréttissviðið hjálpar okkur að vinna markvisst að þessum áherslusviðum. Við vorum til dæmis með Pride mánuð í júní í fyrra í fyrsta skipti. Það var virkilega skemmtilegt og starfsfólk tók gríðarlega vel undir með átakinu. Við máluðum regnbogavegg í húsnæði okkar, bæði í Reykjavík og í Brugghúsinu á Akureyri, flögguðum Pride-fána, vorum með ýmsa pistla og buðum upp á fræðslu frá Samtökunum ‘78. Starfsfólk tók þessu virkilega vel, enda var þetta skemmtilegt og gott fyrir alla að opna umræðuna og styrkja menningu okkar þannig að öllu starfsfólki líði eins og það sé velkomið eins og það er.“

Þarf oft að aðlagast aðstæðum

Stór hluti af starfi Sonju snýr að því að aðlaga stefnur, verkefni og efni til þess að CCEP á Íslandi fái sem mest virði út úr mannauðsmálum.

„Einnig þarf að meta hvort einhverju eigi hreinlega að sleppa því það skilar okkur á Íslandi ekki miklu. Við fáum oft frábæra fræðslupakka sem eru gríðarlega vel hannaðir og undirbúnir, jafnvel á heimsmælikvarða. En við þurfum að aðlaga fræðsluna að okkar aðstæðum. Nýlega vorum við með leiðtogafræðslu sem var hönnuð á ensku, átti að fara fram í gegnum Teams og vera eingöngu í boði fyrir sölu- og markaðssvið. Til að tryggja að við næðum sem bestum árangri með þessa frábæru fræðslu fengum við íslenska leiðbeinendur, aðlöguðum efnistök að íslenskum veruleika, höfðum það „face to face“, og buðum líka stjórnendum frá fleiri sviðum.“