Örn Tryggvi Johnsen, rekstrarstjóri hjá ÞG Verki, segir að fyrirtækið byggi á gömlum grunni með yfir tuttugu ára reynslu á byggingarmarkaði. „ÞG Verk er bæði í eigin verkum og útboðsverkum svo þetta er viðamikil starfsemi. Eigin verkefni eru að mestu íbúðarhúsnæði um þessar mundir. Við höfum verið með mjög stórt verkefni í Vogabyggðinni og höfum byggt upp það svæði frá árinu 2018. Skektuvogur er fullbyggður en þar byggðum við 73 íbúðir sem eru að mestu leyti seldar. Uppbygging er hafin í Arkarvogi þar sem verða 165 íbúðir af fjölbreyttum gerðum og stærðum. Þar er uppsteypa í fullum gangi hjá okkur og fljótlega verður hafist handa við síðasta áfangann sem eru tæplega 100 íbúðir við Kuggavog. Í Kuggavogi er hönnun að ljúka og beðið eftir afgreiðslu byggingaryfirvalda á byggingarleyfisumsókn, við munum vonandi byrja þar innan tíðar,“ segir Örn Tryggvi. „Vogabyggð byggir á gömlum grunni við ósa Elliðaár, en þar var áður atvinnustarfsemi sem nú hefur vikið fyrir íbúðabyggð. Hjóla- og göngustígar liggja meðfram sjávarsíðunni og upp í Elliðaárdal og niður í Fossvogsdal. Laugardalurinn er steinsnar frá og umhverfið býður upp á frábæra möguleika til útivistar. Vogabyggðin er frábær staðsetning og þar verður glæsilegt íbúðahverfi,“ segir hann.

„Íbúðir í Vogabyggð eru frá tæplega 60 fermetrum upp í 120-130. Mjög stífir skilmálar voru varðandi stærð og gerð íbúða, auk ýmissa annarra skilmála. „Við erum bundin af þeim skilmálum sem komu frá borgaryfirvöldum. Við hefðum viljað hafa fleiri litlar íbúðir á kostnað þeirra stærri en okkur var neitað um það þótt stöðugt sé verið að tala um vöntun á litlum íbúðum og að það þurfi að fjölga þeim. Það er oft lítill sveigjanleiki hjá skipulagsyfirvöldum og afar erfitt að breyta eða aðlaga,“ segir hann.

Þannig mun Arkarvogur líta út í endanlegri mynd. Fallegt og fjölskylduvænt svæði þar sem stutt verður í alla þjónustu. MYND/ÞG VERK

Mörg stór verkefni

„Við erum með tæplega 200 fasta starfsmenn. Síðan erum við með fjölmarga undirverktaka sem við höfum átt í góðu samstarfi við lengi. ÞG Verk er þekkt fyrir góð gæði og við leggjum mikla áherslu á að vanda til verka,“ segir Örn Tryggvi.

Annað stórt verkefni hjá ÞG Verki er í Urriðaholti í Garðabæ. „Þar erum við með um 100 íbúðir í byggingu. Fyrstu íbúðirnar í þeim áfanga fara á sölu í kringum páska. Það er mikill spenningur fyrir íbúðum á þessu svæði enda fallegt hverfi og vel heppnað og stutt í ósnerta náttúru.

Nýlega keyptum við lóð í Sunnusmára, rétt við Smáralind, og þar munum við byggja 165 íbúðir. Við áformum að hefja framkvæmdir í næsta mánuði. Mikill fjölbreytileiki verður þar í íbúðarstærðum, margar íbúðir munu hafa einstakt útsýni og staðsetningin er auðvitað mjög góð með tilliti til þjónustu og samgangna.

Enn eitt verkefni okkar er á Akranesi þar sem við munum byggja 28 íbúðir. Við erum mjög spennt fyrir sveitarfélögum í kringum Reykjavík. Það er stutt að fara og margir tilbúnir til að breyta til og færa sig frá ys og þys borgarinnar. Við horfum til Akraness sem spennandi vaxtarsvæðis enda Akranes með skemmtilegan bæjarbrag og fjölbreytta verslun og þjónustu. Áður höfum við byggt 58 íbúðir á Selfossi sem allar eru seldar,“ segir Örn Tryggvi en verkefnin eru fleiri.

Næstu íbúðir sem fara á sölu eru við Arkarvog þar sem verða 165 íbúðir af fjölbreyttum stærðum. Hér eru starfsmenn ÞG Verks við steypuvinnu.

Risaverkefni í miðbænum

ÞG Verk er með mjög stór verkefni í vinnslu í gegnum útboð. „Ég get nefnt uppsteypu á nýjum höfuðstöðvum Landsbankans sem er í fullum gangi og á að ljúka nú í sumar. Sömuleiðis erum við að ljúka við uppbyggingu hótelsins á Landssímareitnum sem verður eitt glæsilegasta hótel borgarinnar. Nýjasta verkefnið okkar er ný skrifstofubygging Alþingis sem mun standa skáhallt á móti Ráðhúsinu. Því verkefni á að ljúka árið 2023. Loks erum við með brúarbyggingu á Sólheimasandi. Þar er verið að gera nýja tvöfalda brú yfir Jökulsá á Sólheimasandi.“

Vogabyggðin er við ströndina, rétt við ósa Elliðaár, og verður fjölbreytt.

Prófanir á framleiðsluferli

„Við leggjum gríðarlega mikið upp úr því að skila frá okkur vandaðri vöru. Við höfum gott orðspor sem okkur er umhugað um. Til þess að tryggja gæði okkar íbúða þá framkvæmum við með markvissum hætti ýmiss konar gæðapróf á framleiðsluferli okkar. Sem dæmi þá framkvæmdum við nýlega slagregnsprófanir á mismunandi aðferðum við gluggaísetningu og lekaprófanir í votrýmum. Við höfum verið að rannsaka hvernig steyptar plötur þorna, jafnvel með innsteyptum mælibúnaði. Með því finnum við til dæmis út hvort rakastig sé innan marka áður en gólfefni eru lögð. Þessi próf eru liður í því að skila frá okkur vönduðu íbúðarhúsnæði með góðri innivist.

Sem fyrirtæki er okkur mjög umhugað um umhverfismál. Ég tel að við séum eina byggingarfyrirtækið sem mælir alla sorplosun og orkunotkun frá hverjum verkstað og gefur út kolefnisskýrslu um starfsemina á hverju ári. Við erum hálfnuð í þeirri vegferð að rafmagnsvæða bílaflota okkar og teljum okkur vera í fararbroddi í byggingargeiranum á því sviði,“ útskýrir Örn Tryggvi.

Það er magnað að fylgjast með uppbyggingunni á þessum slóðum.

Ósveigjanlegt kerfi

„Til að allt geti gengið eðlilega fyrir sig við framleiðslu íbúðarhúsnæðis er mjög mikilvægt að skipulags- og byggingarmál séu skilvirkari. Við teljum að það hafi sjaldan eða aldrei gengið jafn hægt og illa að fá ýmis leyfi eða svör. Það virðist auk þess vera of mikill ósveigjanleiki í kerfinu. Skipulag sem byggt er eftir í dag var hannað fyrir fjórum eða jafnvel sjö árum miðað við forsendur sem voru á þeim tíma. Nú eru aðrar forsendur og þá er nánast ómögulegt að fá skipulaginu breytt nema að farið sé í gríðarlega flókið og tímafrekt ferli. Til dæmis að breyta samsetningu íbúðarstærða eða öðrum valkostum sem markaðurinn kallar eftir í nútíma samfélagi eða mun kalla á eftir tvö ár þegar við setjum íbúðir í sölu. Okkur finnst oft vanta samstarf og samtal milli okkar og skipulagsyfirvalda. Kerfið hjálpar ekki til við að fylla upp í þá eftirspurn sem hefur vaxið mikið á fasteignamarkaði,“ segir Örn Tryggvi.

Hægt er að skoða nýbyggingar á heimasíðunni tgverk.is