„Hér er ég alinn upp, mér var aldrei hleypt út og að lokum skilinn eftir. Kannski það skrifist á hversu efnilegur ég var í frummótasmíðinni, en ég horfði á handtökin hjá afa og lærði þau af móðurbróður mínum sem seinna varð meistarinn minn,“ segir Grétar Már Þorvaldsson, frummótasmiður og einn eigenda Málmsteypunnar Hellu við Kaplahraun 5 í Hafnarfirði.

Fjölskyldufyrirtækið Hella var stofnað árið 1949 af Leifi Halldórssyni, frummótasmið og móðurafa Grétars, en fyrirtækið hefur æ síðan verið rekið af afkomendum Leifs.

„Í dag rekum við fyrirtækið saman, ég og eldri bróðir minn, Leifur Þorvaldsson. Við erum þessi fræga þriðja kynslóð sem setur allt á hausinn, en við erum þó enn á lífi, þótt ég lofi engu,“ segir Grétar og hlær.

„Ég held að maður þurfi að hafa þetta í blóðinu til að halda fjölskyldufyrirtæki gangandi í 73 ár og það gerist ekki sjálfkrafa; maður þarf alltaf að vera að og vinna. Þetta er nefnilega ekki olíulind sem við fundum en þetta er okkar lifibrauð sem gengur vel, og þrátt fyrir allt ruglið sem gengið hefur á í þjóðfélaginu höfum við alltaf lifað af og kvörtum ekki neitt. Við Leifur stöndum í þessu saman og höfum aldrei gert neitt annað, sem er eflaust svolítið klikkað, en svona er það nú samt. Okkur líkar þetta vel, kunnum vel við starfið og teljum okkur ágæta í því.“

Áskoranir að reka fyrirtæki

Grétar er eini menntaði og starfandi frummótasmiður landsins.

„Frummótasmiður býr til mót fyrir allt sem þarf að steypa í málmsteypu, hvort sem það eru skilti, upphækkunarklossar í bíl, tengibúnaður fyrir raflínur og allt þar á milli,“ upplýsir Grétar og verkefnin eru bæði fjölbreytt og ærin, en alls eru fimm starfsmenn í fullu starfi hjá Hellu og nokkrir í hlutastarfi.

„Því fylgja töluverðar áskoranir að reka fyrirtæki á Íslandi í dag. Margt er orðið flóknara, ásamt því að nú felst mikill fastur kostnaður í því að reka fyrirtæki. Þá miðar kerfið mun meira að stórum fyrirtækjum eða fyrirtækjum í vexti, þar sem krafan er helst að hafa verkfræðing í gæðaeftirliti og markaðsfræðing í auglýsingagerð, en við viljum ekki fara þangað og slíkt hentar ekki litlum fyrirtækjum. Við viljum ekki verða stærri og erum ekki á þeirri leið að verða risastór. Við erum hérna fjölskyldan að vinna og það gengur fínt þegar allir vinna saman,“ segir Grétar.

Hann bendir á að minni fyrirtæki þurfi að eiga sinn tilverurétt og að það sé þörf á þeim í íslensku atvinnulífi.

„Ég held að almennt sé gott að vinna hjá litlum fjölskyldufyrirtækjum. Það er persónulegra og þar er starfsfólkið ekki bara númer á blaði heldur mikilvægur hluti af öllu púslinu sem þarf að ganga upp,“ segir Grétar sem nýtur hvers dags í vinnunni.

„Það þarf að vera gaman í vinnunni og við reynum að hafa gaman. Vinnuandinn er léttur og góður, enda eins gott þar sem maður er flestar sínar vökustundir í vinnunni. Hér er kært á milli manna sem hafa starfað lengi saman og sá sem hefur unnið hér lengst byrjaði hjá Hellu árið 1989. Það segir sitt um vinnustaðinn,“ segir Grétar kátur.

Grétar tekur gjarnan skorpur í pönnukökubakstri á alíslenskri pönnukökupönnu Hellu, en segist líka njóta góðs af því hversu tengdamóðir hans er dugleg að baka pönnukökur. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Stoltir af fjölskyldufyrirtæki afa

Þekktasta vara Málmsteypunnar Hellu er pönnukökupanna sem húsmæður á Íslandi hafa valið til pönnukökubaksturs undanfarna sjö áratugi.

„Það var afi sem gerði mótið af pönnukökupönnunni um 1950 og er pannan því ein af okkar fyrstu vörum. Vitaskuld framleiddu menn pönnukökupönnur fyrir tíma afa í gamla daga en okkar er sú lífseigasta og er enginn að framleiða íslenskar pönnukökupönnur í dag nema við,“ greinir Grétar frá.

Pönnukökupanna Hellu er nákvæmlega eins og sú sem afi Grétars smíðaði fyrst fyrir 72 árum.

„Okkar panna er með tréhandfangi og alls ekki sú sem er með svarta plasthandfanginu. Það er gaman að segja frá því að þessi með svarta handfanginu var áður framleidd á Íslandi en er nú búin til í Asíu og þó seld sem „íslenska“ pönnukökupannan. Það er hluti af áskoruninni við að reka fyrirtæki á Íslandi, að innflutningur er töluverður og hvergi kemur fram hvar varan er framleidd þótt hún sé seld sem íslensk,“ segir Grétar og finnst slíkt óneitanlega vera svindl.

„Ég veit um neytendur sem eru hundfúlir yfir því að kaupa hina pönnukökupönnuna í góðri trú um að hún sé íslensk framleiðsla. Við drullum ekki yfir neinn og auðvitað reyna allir að lifa, en þetta er hluti af því að reka fyrirtæki hér á landi. Neytendur eiga svo rétt á því að vita hvaðan vörurnar koma og að það er stór munur á því að baka pönnukökur á pönnu úr íslensku áli, en pönnurnar okkar eru úr áli frá Norðuráli sem er umhverfisvænsta ál í heimi,“ upplýsir Grétar.

Sjálfur tekur hann tarnir í pönnukökubakstri sem honum þykir bæði gaman og gott.

„Ég er líka svo heppinn að tengdó er dugleg að baka pönnsur og ég fæ þær oft hjá henni,“ segir Grétar glaður.

„Mín hugsjón og tilgangur með fyrirtækjarekstrinum er að lifa vel á honum, hafa vinnu og reyna að hafa gaman af henni. Það er vissulega gaman að reka eigið fyrirtæki á flestum tímum, þótt það geti líka verið pínu erfitt á stundum. Við bræður erum stoltir af fjölskyldufyrirtækinu hans afa og höldum ótrauðir áfram.“

Þetta viðtal birtist í sérblaði Samtaka atvinnulífsins sem gefið var út með Fréttablaðinu fimmtudaginn 29. september 2022.