„Þróun Taramar-húðlínunnar má rekja til vandamála sem ég hafði með mína eigin húð. Ég var í leit að góðu kremi en þegar ég fór að lesa aftan á krukkurnar og sá hvaða innihaldsefni voru í flestum húðvörum skorti mig orð yfir því sem þar var í gangi. Framleiðendur fóru almennt fögrum orðum um vörurnar sínar og sögðu þær hreinar og virkar. Í mörgum tilvikum var erfitt að finna lista yfir innihaldsefnin án þess að kaupa vörurnar og oft voru eingöngu aðalhráefnin listuð. Það eru einmitt aukaefnin sem vert er að hafa áhyggjur af. Þetta þykir mér heldur ódýr leið, að afvegaleiða fólk á þennan hátt,“ segir Guðrún Marteinsdóttir, prófessor í fiskavistfræði við Háskóla Íslands og frumkvöðull að baki íslensku Taramar-húðvörunum.

Taramar-húðvörulínan er breið og sýnir fljótt einstaklega góðan árangur. MYND/AÐSEND

Fékk sjokk við lestur innihaldsefna

Guðrún, sem alltaf er kölluð Rúna, segist hafa fengið sjokk þegar hún skoðaði innihaldsefnin nánar.

„Ég var fimmtíu ára gömul og farin að sjá áhrif öldrunar á andliti mínu, um leið og ég var að eiga við mjög erfið húðvandamál af völdum skordýrabits sem ég fékk þegar ég var við nám í Bandaríkjunum 25 árum fyrr,“ útskýrir Rúna.

Athuganir hennar á innihaldsefnum húð- og snyrtivara breyttust í langtímarannsóknir.

„Niðurstöður sýndu að þeir sem blanda þessar vörur bera ekki endilega hagsmuni neytenda fyrir brjósti. Í vörunum var að finna mörg varhugaverð efni, svo sem formalín, sem ég nota til að fixera lífsýni í fiskalíffræðirannsóknum; stoðefni sem notuð eru í byggingar- og bílaiðnaði, og mörg hormónaruglandi efni. Einnig skaðleg efni sem eru tekin hratt upp í gegnum húðina og geta sest að í líffærum og lifandi vefjum líkamans þar sem þau geta haft eitrandi og jafnvel krabbameinsvaldandi áhrif,“ upplýsir Rúna.

Hún kveðst hafa orðið öskureið við þessa uppgötvun.

„Mér blöskraði hvernig fyrirtæki gátu annars vegar fullyrt að kremin væru hrein og að þau notuðu eingöngu „free trade“ og sjálfbær innihaldsefni, á sama tíma og þau bættu ljótum efnum í formúlurnar, efnum sem enginn hefur áhuga á að hafa fljótandi um í blóðrásinni þar sem þau geta valdið skaða og jafnvel heilsutjóni.“

Dæmi um innihaldsefni sem Taramar notar ekki, en finna má í mörgum húðvörum

Sprenging í þróun lífvirkra efna

Rúna segist enn og aftur hafa upplifað tilhæfulausar fullyrðingar snyrtivöruframleiðenda; um krem sem eiga að fjarlægja hrukkur og gera mann tvítugan á ný.

„Þó varð ég að viðurkenna að á þessu tímabili, árin 2005 til 2010, komu fram ýmis efni á snyrtivörumarkaðinn, svo sem andoxunarefni, ensím, peptíð og vaxtaþættir, sem höfðu getu til að gera ótrúlega hluti og gátu í raun endurmótað húðina. Í raun hafði orðið sprenging í þróun þessara efna, meðal annars vegna þróunar á tækni sem tengist lyfja- og matvælaiðnaðinum. Þetta þótti mér gríðarlega áhugavert og sá fyrir mér möguleika á að skoða efni úr sjávarfangi með því að nota þessar aðferðir og skilja betur margvíslega virkni sem ég hafði heyrt um, til að mynda hjá íslenskum sjómönnum,“ segir Rúna.

Þetta varð upphafið á flutningi mikils magns rannsóknaniðurstaðna úr matvælarannsóknum dr. Kristbergs Kristbergssonar, prófessors í matvælaefnafræði, og samstarfsaðila hans á árunum 1980-2020, yfir í þróun á Taramar-húðvörunum.

„Þess vegna má segja að Taramar-húðvörurnar líkist að mörgu leyti matvælum frekar en húðvörum úr manngerðum efnum sem byggja á lyfja- og efnafræðirannsóknum,“ upplýsir Rúna.

Dr. Guðrún Marteinsdóttir ásamt Júlíu Stefánsdóttur, dr. Kristbergi Kristbergssyni, Ragnhildi Einarsdóttur og Sólrúnu Símonardóttur á rannsóknastofu Taramar í Sandgerði. Á borðinu eru Taramar-húðvörur í svörtum glerflöskum sem vernda lífvirkni varanna.

Að vera heiðarlegur og segja fólki satt

Vangaveltur Rúnu urðu til þess að Taramar raungerðist og fór að vaxa.

„Nýjar rannsóknir á lífvirkni efna úr íslenskri náttúru fóru á fullt upp úr 2012 og í dag eru mörg verkefni í gangi og nýjar hugmyndir sem safnast fyrir og bíða síns tíma. Í upphafi einsettum við okkur að koma fram af heiðarleika og segja fólki ætíð satt. Þannig gætum við þróað alvöru hreinar vörur með sjáanlegri virkni úr nýjum náttúrulegum efnum sem við þróuðum úr íslenska lífríkinu,“ segir Rúna.

Hún heldur áfram:

„Þannig skyldi vera í lagi að borða vörurnar okkar og viðkomandi sæi með berum augum hvernig húðin breyttist til hins betra frá degi til dags. Við vildum sýna að okkur er annt um neytendur og berum af í þessari súpu fyrirtækja sem öll segjast vera hrein, á meðan ákaflega fá þeirra eru það í raun og veru.“

Til að ná fram þessum markmiðum þurftu Rúna og teymið hennar að þróa nýjar aðferðir og ný náttúruleg efni sem koma í staðinn fyrir öll óæskilegu efnin sem eru notuð í venjulegum húðvörum.

„Aðferðin sem við notum til að rotverja vörunar og losna við slæm efni eins og Paraben og Phenoxyethanol, byggir á fimm náttúrulegum örveruhindrunum. Þörungarnir og jurtirnar mynda tvær hindrananna og umbúðirnar, lokuð glerflaska með pumpu, mynda eina af hindrunum. Að lokum þróuðum við nýja tækni til að blanda og geyma húðvörur sem við höfum skráð undir nafninu NoTox®. Sú tækni gerir vörurnar öruggar án þess að nota eitrandi, ertandi eða hormónaruglandi efni. NoTox-tæknin veldur því að Taramar-vörunar eru með hreinustu húðvörum sem völ er á.

Öll virku efnin í Taramar-vörunum eru náttúruleg og óskaðleg. MYND/AÐSEND

Lífvirkar vörur úr íslenskri náttúru

Taramar-húðvörurnar hafa allar mikla náttúrlega virkni.

„Taramar-serum er ein þeirra sem virkar mjög hratt og á fyrstu sjö dögunum má sjá hvernig línur og minni hrukkur á augnsvæðinu verða minna áberandi. Eftir 28 daga er húðin orðin mun sléttari, fyllri, rakameiri og og farin að ljóma,“ útskýrir Rúna.

Áhrif Taramar-húðlínunnar hafa verið sannprófuð hjá virtum, óháðum rannsóknaraðilum í Frakklandi.

„Sumar vörurnar, eins og augnkremið, taka aðeins lengri tíma til að byrja með, eða nokkrar vikur, en þegar fyrsta árangri er náð er minna mál að halda virkninni við. Þannig dregur augnkremið úr fellingum fyrir ofan augun, minnkar poka neðan við augun og dregur úr baugum, séu þeir til staðar,“ upplýsir Rúna.

Taramar-dagkremið er svo algjörlega einstakt.

„Dagkremið okkar er eitt af þeim kremum sem vinna sleitulaust og við upplifum sterkt að það heldur áfram að laga og styrkja húðina, mánuð eftir mánuð, og ár eftir ár. Dagkremið byggir á rannsóknum prófessors Kristbergs Kristbergssonar á náttúrulegum ferjum og við notum þær til að færa lífvirku efnin djúpt inn í húðina. Þannig á sér stað ákaflega flott ferli í húðinni, sem stuðlar að heilbrigðari efnaskiptum og fær frumurnar til að hreinsa sig og vinna á kröftugan hátt.“

Nú á nýárinu mun Taramar tefla fram mörgum nýjum og spennandi húðvörum.

„Því er ekki úr vegi að benda fólki á að skrá sig í vildarklúbb Taramar, á taramar.is. Með því er hægt að fá aðgang að nýjum vörum, og oft fylgir með frír kaupauki. Einnig að fylgjast með því sem er að gerast í félaginu og fá tilkynningar um tilboð sem eru alltaf í gangi,“ segir Rúna. ■

Dagana 2. til 12. febrúar verður hægt að njóta frábærs tilboðs á Taramar-dagkremi þar sem Taramar-serum fylgir sem kaupauki. Tilboðin verða í snyrtivörudeildum Hagkaupa í Kringlunni, Garðabæ, Smáranum og á Akureyri, Íslandsapóteki, Lyfjaveri og taramar.is