„Sem drengur elskaði ég að njósna um maura og þeirra fullkomna samfélag, en líka að sjá hvernig þeir brugðust við sakleysislegum hrekkjum mínum. Næsta skref var að búa til eigið maurabú svo ég gæti rannsakað maurana betur. Stundum er sagt að samfélag maura vinni sem ein lífvera, og þegar maður athugar málið vandlega sést að það er hreina satt,“ segir Marco sem stundar nú meistaranám í líffræði við Háskóla Íslands og rannsakar maura á Íslandi, en það er nánast ókannað svið.

Marco rifjar upp skemmtilega minningu frá æskuárunum.

„Ég var sjö eða átta ára þegar ég fann risastórt maurabú rauðra skógarmaura (Formica rufa) í nálægu tré. Búið var kúpulaga hrúga af barrnálum og sökum forvitni að fá séð inn í búið hóf ég að krafsa ofan af því með berum höndum. Ekki liðu nema örfáar sekúndur þar til tugir þúsunda maura skriðu upp úr hrúgunni og réðst að mér með því að spreyja á mig maurasýru. Ég varð samstundis þakinn sýrunni á höndum, handleggjum og í andlitinu, og minnisstætt að lyktin og bragðið var beiskt, þótt það minnti líka á sítrónu. Mér er ekki illa við maurasýrulyktina í dag en þennan dag hljóp ég eins og fætur toguðu heim og í sturtu með það sama!“ segir Marco og hlær.

Önnur skemmtileg mauraminning er frá árinu 2011 þegar Marco ferðist einn með tjald og bakpoka í regnskógum Gana.

„Í Afríku, sunnan Sahara, er hægt að koma auga á stórfengleg maurabú vefmaura (Oecophylla longinoda). Þeir tvinna saman lauf með silki sem lirfa framleiðir á lokastigi sínu og búin eru hrein listaverk. Mig dreymdi um að finna mauradrottningu en vissi að það væri þrautin þyngri. Svo einn daginn fékk ég malaríu, var með 41°C hita, óráð og dúndrandi höfuðverk. Ég hef aldrei orðið jafn veikur á ævinni og man lítið fyrstu fimm til tíu tímana í því ástandi, en ég man þó vel þegar vefmauradrottning trítlaði í sakleysi sínu fram hjá mér. Með erfiðismunum tókst mér að taka mynd af henni og sú er mér ákaflega dýrmæt.“

Vefmauradrottningin góða sem Marco tókst að mynda sárlasinn í regnskógum Gana. MYND/MARCO MANCINI

Mauraleysið var verst

Marco býr á Seltjarnarnesi þar sem hann er með tilbúin maurabú.

„Ég varð ástfanginn af Íslandi um leið og ég sté hér niður fæti. Það eina sem mér þótti slæmt við landið var ekki vindurinn, kuldinn né myrkrið; nei, það var mauraleysið!“ segir Marco og skellir upp úr.

„Það hefði aldrei hvarflað að mér að geta verið með tilbúin maurabú heima á Íslandi. Eins og flestir hélt ég að maurar þrifust ekki á þessari litlu eyju í miðju Atlantshafinu, en svo fór ég að hugsa: „Hvernig er það mögulegt?“ Maurar hafa numið land í nánast öllum heimshornum, svo hví ekki hér,“ segir Marco sem í kjölfarið setti sig í samband við meindýraeyðinn Steinar.

„Steinar sýndi mauraverkefni mínu strax mikinn áhuga og okkur varð fljótt vel til vina. Hann reyndist hafa lent í nokkrum mauraplágum og mælti með að ég hefði samband við Náttúrufræðistofnun Íslands sem ættu í fórum sínum upplýsingar um maura á Íslandi í gegnum tíðina. Það gerði ég og komst að því að fyrsti maurinn fannst í Reykjavík árið 1974. Svo fór ég með Steinari í hús í miðbænum og þar fundum við maura. Ég gleymi ekki hversu spenntur ég var þann daginn!“ segir Marco kátur.

Hann er með nítján maurabú heima og fimm ólíkar maurategundir. Sextán eru smá í sniðum, með drottningu og fáeinum vinnumaurum í petrískálum; þrjú eru með yfir 3.000 vinnumaura.

Maurar vinna sem einn maður. Þeir lifa sumpart svipuðu lífi og maðurinn gerir; þeir færa björg í bú, hugsa vel um ungviði sitt, fara út með ruslið og byggja sér margslungin heimkynni. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Finnast helst í þvottahúsum og á baðherbergjum

Yfir 90 prósent maura sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur skráð hafa fundist á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

„Líklegustu staðirnir til að finna maura eru þvottahús og baðherbergi. Þar af er húsamaur (Hypoponera punctatissima) algengastur og frá árinu 1974 til dagsins í dag hafa yfir 400 slíkir fundist á höfuðborgarsvæðinu. Vinnumaurar af þeirri tegund eru sjaldséðir á yfirborðinu vegna þess hve þeir vinna leynilega og aðeins nýfæddar, vængjaðar drottningar hafa komið upp um þá þegar þær hafa sést fljúgandi í þvottahúsum, baðherbergjum og stofum. Þessi eiginleiki húsamaura gerir meindýraeyðum sérlega erfitt fyrir að útrýma þeim, því nánast útilokað er að finna maurabú þeirra,“ útskýrir Marco.

Hann segir húsamaura margliða og búa til fleiri en eitt bú sem geta talið nokkrar frjósamar drottningar sem svo auka líkur á risastórum maurabúum.

„Í fyrrasumar könnuðum við hvort risabú húsamaura fyndust neðanjarðar í Reykjavík, og sem væru mögulega að dreifa sér um frárennsliskerfið. Til þess fengum við styrk frá Rannís (Nýsköpunarsjóði námsmanna) og erum nú að skoða niðurstöðurnar,“ upplýsir Marco.

Tvær aðrar maurategundir finnast innanhúss á Íslandi, það er faraómaur (Monomorium pharaonis) og draugamaur (Tapinoma melanocephalum), en í mun minna magni.

„Á Íslandi hefur aðeins ein maurategund fundist utanhúss, það er blökkumaur (Lasius niger) sem finnst aðallega í görðum. Dreifing hans er enn tiltölulega lítil en hann er orðinn frekar algengur og verður trúlega enn algengari sökum hnattrænnar hlýnunar og meiri innflutnings á til dæmis pottaplöntum.“

Marco segir maura einstaklega skemmtileg skordýr, þótt líkja megi sumum maurategundum við stórhættuleg rándýr enda valdi þær víða miklum skaða. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Maurar eins og stórhættuleg rándýr

Marco er spurður hvort það sé jákvætt fyrir Ísland að fá maura í skordýraflóruna, og hvort þeir geri náttúrunni gagn.

„Nei, það er alls ekki gott og þótt ég elski þessar örsmáu verur vil ég gera mitt besta til að hjálpa meindýraeyðum að útrýma maurabúum á Íslandi. Það má líta á maura sem stórhættuleg rándýr, svipað og stóra hákarla í sjónum eða ljón á hitabeltisgresjunum. Maurar sem ráðast inn í ný lönd eru þekktir fyrir að hafa verulega neikvæð áhrif á margar tegundir hryggleysingja sem hefur svo oftast hrikalegar afleiðingar á umhverfið. Á mörgum fjarlægum eyjum er lítið um mauralíf og þegar maurar ráðast inn á slíkar eyjur getur það haft hörmuleg áhrif á vistkerfið þar sem maurarnir lifa á varnarlausum og hrekklausum skordýrum. Gott dæmi er Hawaii, þar sem yfir fjörtíu maurategundir eiga sök á útrýmingu margra landlægra hryggleysingja,“ greinir Marco frá.

Hann segir ástandið á eyjum sunnan við norðurheimskautsbaug vera skárra þar sem færri maurategundir geti lifað utanhúss, langt frá upphituðum húsum.

„Hins vegar sýna athuganir að innrásarmaurar koma nú líka frá tempruðum svæðum, sem gerir eyjur í Norður-Atlantshafinu að nýjum áfangastöðum maura. Það er engin tilviljum að sex tegundir innrásamaura hafa nýlega fundist í Færeyjum.“

Til dagsins í dag hafa fjórar maurategundir fundist á Ísland, sem líka hafa komið sér upp búum.

„Það er húsamaur (Hypoponera punctatissima) árið 1974, faraómaur (Monomorium pharaonis) árið 1980), blökkumaur (Lasius niger) árið 1994) og draugamaur (Tapinoma melanocephalum) árið 2009. Skráning Náttúrustofnunar Íslands frá árinu 2019 sýnir að aðrar fimmtán tegundir hafa fundist hér á landi, en það eru sjaldgæfari tilvik og ekki eins mikið mál og hinar fjórar.“

Að sögn Marcos eru flestar maurategundir á Íslandi meinlausar; þær hvorki bíta né stinga.

„Húsamaur og faraómaur er þó varhugaverðar tegundir. Húsamaur getur stungið en stungan er ekki alvarlegri en moskítóbit. Faraómaur getur hins vegar borið með sér sýkla, svo sem salmonellu, streptókokka og klasakokka. Því er einmitt varhugavert þegar þegar þeir gera innrás á sjúkrahús. Sumir muna þegar faraómaurar herjuðu á nokkrar deildir Landspítala árið 2014, en sem betur fer gátu meindýraeyðar að uppræta maurabúið áður en skaði hlaust af.“

Eftirlætis maurategund Marcos er af tegundinni Atta cephalotes. Hún býr til eitt stærsta og flóknasta dýrasamfélag sem til er í veröldinni. MYND/MARCO MANCINI

Maurar lifa líkt og menn

Marco vinnur nú að kennslubók um maura fyrir grunn- og leikskólabörn, í samvinnu við Andreas Guðmundsson Gaehwiller háskólastúdent sem unnið hefur með Marco að rannsóknum á maurum, en líka Laufeyju Jónsdóttur teiknara sem myndskreytir bókina og Caterinu Poggi sem hefur mikla reynslu af kennslu og uppeldisfræðum og sér um að boðskapurinn skili sér rétt til barnanna.

„Við erum sannfærð um að maurar séu frábærir til að kenna börnum og fullorðnum sjálfbærni. Við viljum sýna börnum hvernig þessar örsmáu verur geta verið spennandi og allrar athygli virði. Rétt eins og mennirnir byggja maurar flókin samfélög og stórkostlegan arkitektúr, þeir hugsa vel um ungviðið sitt því það tekur við búinu í framtíðinni, þeir fara með ruslið á skilvirkan hátt svo að búið sé hreint og öruggt, og skaffa samfélaginu mat. Sumar maurategundir rækta sína eigin uppskeru og aðrar lifandi búpening. Umfram allt geta maurar kennt okkur samstarf. Hver og einn einasti maur er mikilvægur og ómissandi því hann er hluti af heildinni. Maurar vinna saman að velferð síns samfélags og ég trúi því staðfastlega að samvinna sé nauðsynleg til að fá lifað í heilbrigðu samfélagi,“ segir Marco sem vill endurvekja tengsl barna við náttúruna.

„Við viljum sýna börnum eitthvað forvitnilegt og heillandi, því samband manns og náttúru verður trúlega enn mikilvægara á næstu áratugum. Við erum sannfærð um að börn þurfi að vita meira um lífrænar heildir í umhverfi sínu og viljum ekki að þau vaxi úr grasi með skakka mynd af gerð umhverfisins sem þau lifa í. Verkefnið varpar ljósi á viðfangsefni sem þau myndu sennilega ekki læra um fyrr en seinna á lífsleiðinni.“

Skemmtilegt hliðarverkefni við kennslubókina er færanlegt maurabú sem sýnt verður leikskólabörnum.

„Á maurabúinu er USB-smásjá til að sýna maurana og athafnir þeirra í enn meira návígi. Við trúum því að verkefnið geti hjálpað börnum að taka fyrstu skrefin í átt að sjálfbærni, því ef við hlúum ekki vel að móður jörð, líffræðilegum fjölbreytileika hennar og flóknum vistkerfum, getum við ekki lifað lífi okkar með sama hætti og áður. Við þykjumst vita að bókin á eftir að hitta í mark hjá börnunum.“

Eitt maurabúa Marcos heima á Nesinu, en þar er hann með fimm ólíkar maurategundir og nítján maurabú. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Vill halda rannsóknum áfram

Vinnan við bókina gengur vel og er stefnt að útgáfu í mars 2022.

„Það hefur skipt sköpum fyrir okkur að fá styrki frá Rannís og við erum afar þakklát. Án þess hefðum við ekki getað farið út í svo metnaðarfullt og frumlegt verkefni,“ upplýsir Marco, sem hyggur á fleiri mauraverkefni í framtíðinni.

„Já, hvort ég ætla. Enn er svo lítið vitað um fjölbreytni og útbreiðslu maura á Íslandi og ótal margt sem okkur langar að rannsaka. Við vonum að Rannís haldi áfram að sýna áhuga verkefnum í tengslum við maura og hjálpi okkur að halda rannsóknum áfram. Við erum í raun rétt byrjuð að kafa ofan í þetta spennandi viðfangsefni og viljum tvímælalaust halda því áfram.“

Sástu maur? Sendu Marco þá tölvupóst á netfangið maurarislands@gmail.com og fylgstu með á Instagram @ islenskir maurar.