„Samstæðan 1912 á þrjú dótturfélög: Nathan & Olsen, sem var stofnað árið 1912, Ekruna og Emmessís,“ segir Anna H. Johannessen, mannauðsstjóri 1912. „Nathan & Olsen sérhæfir sig í sölu og makaðssetningu á vörumerkjum á snyrti- og dagvörumarkaði. Ekran þjónustar stóreldhús og matvælaiðnað með breiðu vöruúrvali og svo er það Emmessís, sem er nú vörumerki út af fyrir sig, en þar framleiðum við og sjáum um sölu á íslenskum og erlendum ís.“

Mikilvægt að fylgja markmiðum eftir

„Það sem gefur samstæðunni sérstöðu er að sjálfsögðu okkar öflugi og fjölbreytti mannauður, sem myndar fyrirtækjamenningu þar sem liðsheildin er höfð að leiðarljósi,“ segir Anna. „Hjá samstæðunni starfar frábært starfsfólk sem er 150 talsins og við leggjum ríka áherslu á jafnvægi vinnu og einkalífs. Vinnustaðamenningin er þannig að samskiptin eru góð, við höfum alltaf haft góðan starfsanda og mikil virðing er borin fyrir samstarfsfólki.

Við erum sérstaklega umbóta- og framfarasinnuð og það sýnir sig í að við erum ISO 9001 vottuð, með nýjustu tækni í okkar vinnu og erum sífellt að finna leiðir til þess að þróa okkur áfram,“ útskýrir Anna. „Okkur hefur líka fundist mikilvægt í okkar starfsemi að setja okkur töluleg markmið til að vinna að og fylgja eftir. Sagan hefur sýnt að ef mismunun eða skekkja er ekki dregin fram í dagsljósið, þá er hún ekki leiðrétt. Svo þarf að setja töluleg markmið og aðgerðaáætlanir um hvernig eigi að gera það. Ég myndi segja að lykillinn sé að fylgja þessum atriðum eftir, því annars heldur skekkjan sér.“

Mikil meðvituð vinna í þágu jafnréttis

„Þegar Nathan & Olsen var stofnað höfðu konur á Íslandi ekki kosningarétt, en fyrirtækið hefur þróast gríðarlega á þessum 110 árum og ég vil meina að við séum í fararbroddi íslenskra fyrirtækja þegar kemur að jafnrétti kynjanna,“ segir Anna. „Til að mynda vorum við með þeim fyrstu sem innleiddu jafnlaunavottun árið 2014, sem var heldur óvenjulegt á þeim tíma og fyrir fyrirtæki af þessari stærðargráðu, en jafnlaunavottun var ekki lögfest í landinu fyrr en árið 2017.

Í dag er hlutfall kvenstjórnenda í samstæðunni 42%, sem endurspeglar kynjaskiptingu samstæðunnar, en í framkvæmdastjórn er jafnt hlutfall kvenna og karla. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Í dag er hlutfall kvenstjórnenda í samstæðunni 42%, sem endurspeglar kynjaskiptingu samstæðunnar, en í framkvæmdastjórn er jafnt hlutfall kvenna og karla. Þessi árangur náðist með því að taka meðvitaða ákvörðun um að auka við hlut kvenna í stjórnendastöðum,“ útskýrir Anna. „Það er mjög auðvelt að vera með háfleyg loforð en til þess að loforðin standist þá þarf að setja markmið og stjórnendur þurfa að taka meðvitaðar ákvarðanir í takti við þau og fylgja þeim eftir. Þessu höfum við unnið ötullega að og erum gríðarlega stolt af þeim árangri sem við höfum náð.“

Engin dæmigerð kynjaskipting í störfum

„Það sem er fallegt við samstæðuna er að hér eru fjölmörg mismunandi störf og í dag lítum við ekki svo á að um kynjatengd störf sé um að ræða og höfum náð að útrýma ímyndinni af dæmigerðum karla- og kvennastörfum,“ segir Anna. „Til dæmis eru meiraprófsbílstjórar, lagerstarfsmenn á lyftara og sérfræðingar í snyrtivörudeildinni af öllum kynjum.

Við teljum mikilvægt að fólk hljóti sömu tækifæri óháð kyni, bæði við ráðningar sem og við starfsþróun, en við leggjum ríka áherslu á að þróa starfsfólk í starfi,“ segir Anna. „Margir af okkar sérfræðingum og stjórnendum í dag hófu störf á öðrum sviðum og hafa fengið stöðuhækkun.“

Fleira en kyn skoðað í jafnlaunavinnu

„Núna er líka hafin vinna við að skoða aðrar breytur en kyn í árlegri jafnlaunavinnu okkar, til að mynda uppruna starfsfólks og móðurmál þeirra,“ segir Anna. „Við teljum þetta vera næsta mikilvæga skrefið í áframhaldandi umbótavinnu jafnréttis.“ ■