Hlutverk Festu er að auka þekkingu fyrirtækja, stofnana og hvers kyns skipulagsheilda til að tileinka sér samfélagslega ábyrga starfshætti og stuðla að aukinni sjálfbærni. Festa tengir sama ólíka aðila, fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklinga sem vilja vera leiðandi á þessu sviði.

Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, segir aðildarfélögin á Íslandi vera fjölbreyttan hóp fyrirtækja og stofnana. Frá stærstu fyrirtækjunum niður í þau minnstu, auk sveitarfélaga og stofnanna.

„Okkar hlutverk er að vera kraftmikið leiðarljós í þessum efnum og vera brúarsmiður á milli ólíkra aðila,“ segir hún.

Þann 25. september síðastliðinn undirrituðu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og aðilar sem fara fyrir hátt í 80% af eignum á íslenskum fjármálamarkaði, viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar. Festa, Samtök fjármálafyrirtækja, Landssamtök lífeyrissjóða og forsætisráðuneytið unnu að mótun hennar í víðtæku samráði við fulltrúa helstu aðila á fjármálamarkaði.

Það er einstakt á heimsmælikvarða að svona verkefni sé gert samstíga af ríkinu, atvinnulífi og fjármálageira

„Það er einstakt á heimsmælikvarða að svona verkefni sé gert samstíga af ríkinu, atvinnulífi og fjármálageira,“ segir Hrund.

Hrund segir að frá árinu 2015 hafi Festa lagt mikla áherslu á loftslagsmarkmið í tengslum við Parísarsáttmálann. Festa hefur unnið að því með Reykjavíkurborg og Akureyri með góðum árangri.

„Við erum í samstarfi við sérfræðinga í atvinnulífinu við að innleiða loftslagsmarkmiðin inn í stefnur og aðgerðir fyrirtækja. Heimsmarkmiðin eru svo undirliggjandi í öllu sem við gerum. Við látum ekkert frá okkur án þess að setja það í samhengi við heimsmarkmiðin.“

Heimsmarkmiðin þróuð af fólki um allan heim

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru 17 talsins. Þau eru þróuð í samstarfi milli ríkja og forstjóra og leiðtoga í atvinnulífinu, á milli frjálsra félaga samtaka og fjölmiðla og á milli skóla og menntastofnana út um allan heim.

„Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna hafa stundum verið kölluð stærsta aðgerðaáætlun sem heimurinn hefur farið í. Þessi markmið eru sjálfsprottin af fólki sem býr á jörðinni. Heimsmarkmiðin endurspegla ígrundaðan ásetning og skilning á því að við þurfum að fylkja okkur á bak við sameiginleg markmið um sjálfbæra þróun,“ segir Hrund.

Hún segir mikilvægt þegar fyrirtæki, skólar, ráðuneyti eða hver sem er er að hugleiða innleiðingu heimsmarkmiðanna, að vera meðvituð um að við þurfum öll að taka ábyrgð á þeim og ábyrgðin þarf að einhverju leyti að vera sjálfsprottin.

„Við þurfum að átta okkur á því hverju þau geta áorkað og við þurfum öll að taka okkur saman og finna leiðir til að innleiða þau í stefnur okkar og gera þau hluta af rekstri. Hvort sem við erum í hagnaðardrifnum rekstri eða skólamálum eða hverju sem er.“

Hrund segir að stundum eigi fólk það til að halda að heimsmarkmiðin eigi frekar við um fátækari lönd en sú sé ekki raunin.

„Markmiðin undirstrika að það eru alls konar áskoranir sem blasa við okkur á jörðinni. Ef það eiga sér stað mjög gróf mannréttindabrot annars staðar á hnettinum þá kemur það okkur á Íslandi við. Alveg sérstaklega ef það tengist einhverju sem við styðjum við beint eða óbeint. Það er mikilvægt að vera meðvituð um það. Hvort sem það eru loftslagsmál, fátækt, hreint vatn eða fötin sem ég er í þá tengist það heimsmarkmiðunum. Ég þarf að hugsa um hvernig ég er búin að búa um hnútana og hvaða áhrif það hefur á samfélagið og jörðina.“

COVID-19 skapar ójafnvægi

Hrund segir að COVID-19 komi eins og ljósbrot á heiminn og varpi ljósi á viðkvæmustu þættina í því hvernig við höfum búið um okkur hér á jörðinni.

„COVID-19 hefur komið samfélögunum okkar í ójafnvægi og fátækt verður á einhverjum allt öðrum skala en við kannski gerum okkur í hugarlund. Það er verið að endurskipuleggja fjármagn í öllum ríkjum heimsins á hátt sem hefur hugsanlega aldrei verið gert áður í sögunni. COVID-19 hefur líka varpað ljósi á að alþjóðasamstarf milli ríkja er mjög brothætt,“ útskýrir Hrund.

Hún segir að vegna COVID-19 sé einkageirinn, sérstaklega í Norður- Ameríku og Evrópu, að stíga í auknum mæli inn í hlutverk sitt í samfélagsábyrgð og sjálfbærni.

„Til að nefna dæmi um þetta þá eru bara örfáir dagar frá því stofnuð var miðstöð um sjálfbæra þróun hjá Brookings Institute. Miðstöðin er gríðarlega öflug og aðstoðaraðalritari Sameinuðu þjóðanna, sem heitir Amina Mohamed, lýsti því á fundi í síðustu viku að miðstöðin, sem fjallar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, er að vissu leyti að svara kalli samtímans eftir COVID-19 líkt og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn gerðu eftir seinni heimsstyrjöldina.“

Hrund segir að vegna COVID þurfi að endurhugsa alþjóðlegan fjárhagslegan stuðning og hönnun fjármálakerfa en heimsmarkmiðin ættu samkvæmt Mohamad að vera lögð til grundvallar því hvernig á að endurskipuleggja fjármagn.

„Í því felst mikil von ef vel tekst til,“ segir hún og bætir við: „Það sem mér finnst áhugavert við þessa stofnun, ef við erum að hugsa um hvernig hún tengist Íslandi, er að hún byggir á því að byggja upp tengsl á milli leiðtoga úr ólíkum geirum, hvort sem þeir tengjast ríki, einkageira, frjálsum félagasamtökum eða skóla. Stofnunin er ákall til einstaklinga eins og mín og þín um að innleiða heimsmarkmiðin í öll þau störf sem við erum að vinna.“

Festa hefur fundið fyrir miklum áhuga hjá ungu fólki á sjálfbærni og samfélagsábyrgð og hefur virkjað þau með sér í ýmis verkefni. ?Fréttablaðið/?Anton Brink

Við erum hluti af heiminum

Hrund ítrekar að heimsmarkmiðin eigi við alþjóðlega og á Íslandi. Hún segir mikilvægt að Íslendingar hugsi um sig í alþjóðlegu samhengi en ekki bara sem eyju.

„Við erum hluti af alþjóðlegum viðskiptum. Það hvernig við neytum og ferðumst gerir okkur hluta af heiminum. Heimsmarkmiðin fá vonandi meira vægi sem leiðarvísir fyrir uppbyggingarstarfið eftir COVID-19 um heim allan. Þau kalla svo mikið á þverfaglegt samstarf, þvert á geira og þvert á lönd á öðrum skala en kannski verið hefur.“

Fyrir tíma COVID gekk ekki nógu vel að ná heimsmarkmiðunum að sögn Hrundar.

„Áður en COVID-19 braust út, var mikið ákall frá SÞ til ríkja og aðila heims að gefa í og gera betur. En núna, vegna áhrifa COVID-19, erum við hugsanlega í stærstu alþjóðlegu kreppunni í 100 ár. Allar þessa samfélagslegu, efnahagslegu og pólítísku áskoranir sem blöstu við okkur eru orðnar stærri vegna faraldursins. Þannig að við þurfum að gefa enn þá meira í til þess að ná markmiðunum. Útlitið er því ekkert mjög bjart miðað við núverandi stöðu,“ segir hún.

„Það sem mér finnst þó bjart er að mér finnst aukin meðvitund í heiminum um mikilvægi þess að taka heimsmarkmiðin alvarlega, að taka loftslagskrísuna alvarlega, að hlúa að heilbrigðiskerfunum okkar og öllum þessum ólíku samfélagshópum og allri virðiskeðjunni, frá þeim fátækustu til þeirra ríkustu. Þetta er vel merkjandi í áherslum víða um heim, um græna uppbyggingu og meiri þungi er settur í sjálfbæra þróun og sjálfbærar fjárfestingar.“

Festa er í samstarfi við verkefnastjórn yfirvalda um heimsmarkmiðin þar sem unnið er að því að auka samtakamátt á milli opinbera- og einkageirans.

„Við höfum stundum talað um að eitt af því fáa sem við höfum sameiginlega sýn á sem land til tíu ára, er að ná heimsmarkmiðunum fyrir 2030. Hagstofan er að vinna mikilvægt starf í því að afla gagna um hvernig okkur gengur að ná heimsmarkmiðunum. Festa til dæmis leggur þessa spurningu fyrir í þjónustukönnun hjá sér árlega og í fyrra kom í ljós að tæplega 80% af aðildarfélögunum okkar, samkvæmt svörun, innleiða heimsmarkmiðin í sinn rekstur. Mér finnst það frábært,“ segir Hrund.

„Eitt af því sem fyrirtækin hafa nefnt í þessum könnunum og samtölum er að heimsmarkmiðin gefa þeim skýrari sýn á hvernig þau vilja haga rekstrinum til framtíðar. Þau tala um hvernig sú áhersla bætir samkeppnisstöðu þeirra alþjóðlega. Ef við sýnum að við erum að huga að heimsmarkmiðunum og alþjóðlegum sjálfbærnimarkmiðum þá eigum við betri séns á alþjóðamarkaði.“

Hrund segir algjört grundvallaratriði að ríki, fyrirtæki og skipulagsheildir tileinki sér heimsmarkmiðin.

„Við höfum tíu ár til stefnu. Þegar við hugsum til baka, hvað vorum við að gera fyrir tíu árum? Við vorum að koma út úr kreppunni. Finnst okkur það langt síðan eða stutt síðan? Hvernig sem við upplifum það þá er það tíminn sem við höfum til stefnu. Næstu tvö þrjú árin eru mjög krítísk ár. Vegna COVID-19 erum við að taka mjög stórar ákvarðanir sem munu hafa áhrif til lengri tíma. Það er rosalega mikilvægt að hafa heimsmarkmiðin sem undirstöðu fyrir þessar ákvarðanir og leyfa þeim að vera leiðarvísir.“