Mannvit hefur lagt það til grundvallar í sínu starfi að vinna sem mest með heimsmarkmiðin. „Í raun má hæglega segja að í okkar daglegum störfum vinnum við með fjórtán af sautján heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. En við leggjum mikla áherslu á að vinna með heimsmarkmiðin í allri þjónustu sem við veitum okkar viðskiptavinum. Þá er lykilatriði að starfsfólk okkar þekki markmiðin vel,“ segir Sandra Rán Ásgrímsdóttir sjálfbærniverkfræðingur hjá Mannviti.

„Við höfum unnið með heimsmarkmiðin innanhúss frá því árið 2017. Í byrjun árs 2019 tóku allir starfsmenn Mannvits þátt í vinnustofum þar sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru kynnt og allir fengu fræðslu um þau. Starfsfólk okkar er því meðvitað um heimsmarkmiðin í sínu starfi,“ bætir hún við.

Heimsmarkmið í fóstur

„Við settum okkur að auki enn skýrari markmið að hlúa að heimsmarkmiðunum með því að „setja þau í fóstur“ til hópa starfsfólks. Þetta eykur vitundarvakningu innan vinnustaðarins og þekkingu starfsfólks á heimsmarkmiðunum. Við viljum halda áfram með þetta verkefni til þess að viðhalda vitundarvakningunni því sjálfbærni er ekki eitthvað sem við náum að uppfylla, heldur eitthvað sem við vinnum sífellt betur að og bætum okkur í eftir því sem á líður. Því þó svo við séum komin vel á veg, þá er þetta eilíf vegferð og það má alltaf gera betur,“ segir Sandra.

Sandra og Rúnar Dýrmundur Bjarnason, sérfræðingur í umhverfismálum, vinna bæði að því að þjónusta fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög af ýmsu tagi við að innleiða og samræma heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna við stefnu og rekstur þessara aðila. „Við höfum reynslu og þekkingu til þess að vinna markvisst að því að innleiða heimsmarkmiðin inn í stefnu fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á skilvirkan hátt,“ segir Rúnar.

Stefnumótun og vinnustofur á grundvelli markmiðanna

Mannvit hefur unnið náið með bæði Kópavogsbæ og Landsvirkjun undanfarið, en bæði hafa unnið mikið með sjálfbærni, sem samræmist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. „Við vitum hversu mikilvægt það er að starfsfólk þekki heimsmarkmiðin svo að vinnan skili sér í raunverulegri innleiðingu markmiðanna í stefnu og rekstur fyrirtækja og stofnana. Þá höfum við aðstoðað aðra, eins og til dæmis Landsvirkjun og Kópavog í slíkri stefnumótunarvinnu,“ segir Sandra.

„Í tilfelli Landsvirkjunar héldum við vinnustofur með starfsfólki fyrirtækisins. Markmiðið var að stuðla að frekari innleiðingu heimsmarkmiðanna í alla starfsemi Landsvirkjunar. Í vinnustofunum fékk starfsfólk tækifæri til þess að skilgreina hvernig það vinnur að heimsmarkmiðunum dagsdaglega innan Landsvirkjunar, hvernig það skilar sér inn í fyrirtækið og hvað það er sem fyrirtækið eigi að leggja áherslu á. Út úr ferlinu kom ítarleg skýrsla sem við skiluðum inn á borð til Landsvirkjunar sem vinnur nú í því að máta sig enn betur við heimsmarkmiðin. Þegar fyrirtækið tilkynnir svo hvaða markmið séu í forgangi þá getur starfsfólk þekkt sinn hluta í þessari vinnu,“ segir Sandra.

Stefnumótun í aðalskipu-lagi Kópavogsbæjar Hjá Kópavogsbæ var nálgunin frábrugðin. „Kópavogur hefur unnið að heimsmarkmiðunum í nokkurn tíma og hefur bæjarstjórn Kópavogs samþykkt að innleiða heimsmarkmiðin í stefnu Kópavogsbæjar. Við vorum fengin til þess að koma að endurskoðun aðalskipulags bæjarfélagsins. Þau vildu fá okkar sýn á hvernig hægt væri að innleiða heimsmarkmiðin í auknum mæli í stefnumótun aðalskipulags. Verkefnið stendur þannig að búið er að fara í gegnum vinnustofur. Þá unnum við með þremur hópum, það er starfsmönnum á umhverfissviði, hagsmunaaðilum og bæjarfulltrúum og fórum í grunnkafla aðalskipulags sem snúa að byggð, grunnkerfi, samgöngum, umhverfi og samfélagi. Út úr þessu kom mikilvægisgreining um mikilvægustu málefnin með tilliti til sjálfbærni og var sú niðurstaða tengd við heimsmarkmiðin.

Í tilfelli byggðar voru þrjú heimsmarkmið talin mikilvægust í þeim málaflokki. En í tilfelli hinna fjögurra grunnkaflanna voru fimm heimsmarkmið valin til grundvallar. Nánari rýni var svo unnin með tilliti til heimsmarkmiðanna. Sett voru ný markmið en einnig fékkst staðfesting á þeim markmiðum sem Kópavogsbær hefur stefnt að í núgildandi aðalskipulagi. Þessi nýju markmið voru enn fremur tengd við þá mælikvarða og hugbúnað sem Kópavogsbær hefur þróað til þess að vakta það góða starf sem þau hafa nú þegar unnið að. Þannig verður betur en áður hægt að fylgjast með og mæla frammistöðu aðalskipulags með tilliti til sjálfbærni í Kópavogi,“ segir Rúnar.

Áþreifanleg markmið

Markmið Mannvits er að innleiða heimsmarkmiðin í daglegan rekstur, bæði innanhúss og hjá viðskiptavinum sínum. „Það getur verið hjálplegt að fá inn aðila eins og okkur til þess að hjálpa til við nýja stefnumótun í samræmi við heimsmarkmiðin. Það getur reynst mörgum erfitt að ná utan um hugtakið sjálfbærni og að innleiða sjálfbærni inn í sinn rekstur. En með skilgreiningu og samhengi Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna verður strax auðveldara að ná utan um hugtakið og sjá hvernig markmiðin samræmast stefnu hvers fyrirtækis fyrir sig.

Auk þess er afar hjálplegt fyrir fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög að nýta sér þjónustu eins og þá sem Mannvit býður upp á, og fá aðstoð við að skilgreina þau heimsmarkmið sem viðkomandi aðili vinnur nú þegar eftir, sem og hvað má gera til þess að reksturinn samræmist enn betur heimsmarkmiðunum. „Með því að setja heimsmarkmiðin í samhengi þá verða þau áþreifanlegri bæði fyrir stjórnendur fyrirtækja sem og starfsfólk, og þá verður ósjálfrátt auðveldara að vinna eftir þeim og innleiða þau í auknum mæli í dagleg störf og rekstur,“ segir Sandra.

Nánari upplýsingar má nálgast á vef Mannvits, mannvit.is Urðarhvarfi 6, 203 Kópavogi. Sími: 422-3000