Að mörgu er að hyggja varðandi launasetningu og launamál fyrirtækja. Í því skyni þarf meðal annars að skoða fylgni við lög og kjarasamninga, laun sem hlutfall af veltu, launajöfnuð innan fyrirtækis, samkeppnishæfni launa og arðsemi eða sjálfbærni rekstrar til framtíðar, svo nokkur atriði séu nefnd.

„Undanfarin ár hefur umræðan og áherslan snúist mikið um launajöfnuð, hvort tveggja launamun kynjanna og að greidd séu sambærileg laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Jafnlaunavottun og lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna leika þar lykilhlutverk,“ segir Hafsteinn Már Einarsson, stjórnandi markaðslauna hjá PwC. „Í hnotskurn má segja að jafnlaunaáherslan snúist um innra launajafnvægi hvers fyrirtækis eða stofnunar. Mikilvægt er að gætt sé að launabili hvers starfshóps sem samanstendur af sambærilegum eða jafnverðmætum störfum, að bilið sé innan eðlilegra vikmarka og tilvik um launafrávik séu réttilega greind og brugðist við þeim.

En það er ekki nóg að gæta aðeins að innra launajafnvægi, því fyrirtæki og stofnanir eru í samkeppni um starfsfólk og þurfa að greiða samkeppnishæf laun til að halda í lykilstarfsfólk sitt. Í heiminum er vaxandi samkeppni um hæft starfsfólk og er Ísland þar engin undantekning,“ útskýrir Hafsteinn. „Samkeppni um starfsfólk nær út fyrir hefðbundna samkeppni við fyrirtæki innan sömu atvinnugreinar því starfsfólk getur auðveldlega flætt á milli ólíkra atvinnugreina. Fyrirtæki þurfa því að fylgjast vel með samkeppnishæfni launasetningar sinnar og gæta að því að þau séu að greiða markaðslaun til lykilstarfahópa.“

Launakostnaður hlutfallslega hár á Íslandi

„Í alþjóðlegum samanburði er launakostnaður (laun og launatengd gjöld) gjarnan mældur sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Samkvæmt samantekt UNECE (United Nations Economic Commission for Europe) var þetta hlutfall 61,3% á Íslandi árið 2019 og er það með því hæsta sem mælist meðal þjóða í Evrópu,“ segir Hafsteinn. „Til samanburðar eru Norðurlandaþjóðirnar Noregur, Svíþjóð, Finnland og Danmörk með launahlutfall á bilinu 53-56%. Þetta eru hins vegar engin ný tíðindi, því launahlutfall á Íslandi hefur verið hátt til margra ára. Undanfarin 13 ár hefur launahlutfallið verið á bilinu 60-64% af þjóðarframleiðslu, með undantekningu á eftirhrunsárunum 2009 og 2010, þar sem hlutfallið var 55 -57%.

Myndin sýnir launaniðurstöður fyrir skrifstofustörf við launavinnslu og bókhald frá árinu 2020.

Þetta þýðir að íslensk fyrirtæki hafa að jafnaði úr minna að spila en helstu samanburðarlönd til að mæta öðrum rekstrarkostnaði en launum, fjármagnskostnaði og væntingum þeirra til arðsemi. Eigi að viðhalda samkeppnisstöðu á Íslandi þá þrengir þetta háa launahlutfall óneitanlega að hinu margumtalaða svigrúmi til launahækkana í kjarasamningum hérlendis,“ segir Hafsteinn. „Niðurstaða kjarasamninga skiptir þannig gríðarlega miklu máli og mikilvægt er að þar náist hinn gullni meðalvegur milli ásættanlegra launabreytinga og þess að viðhalda rekstarjafnvægi fyrirtækja.“

Mikilvægt að fylgjast vel með

„Í mörgum fyrirtækjum eru haldin árleg launasamtöl þar sem línan er lögð fyrir launabreytingar ársins. Mikilvægt er fyrir stjórnendur og mannauðsstjóra að undirbúa þau samtöl vel með gögnum og rökum. Launaþróun gerist ekki jafnt og þétt, því einstaka hópar og starfsstéttir geta hækkað fyrr og hraðar en aðrir,“ segir Hafsteinn. „Hækkunin getur einnig verið mismikil á milli atvinnugreina, svo meðaltalshækkun á markaðinum segir því ekki alla söguna.

Mikilvægt er fyrir stjórnendur og mannauðsstjóra að fylgjast vel með markaðslaunum hjá lykilstarfahópum sínum og byggja ákvarðanir á áreiðanlegum gögnum þar að lútandi til að minnka áhættuna á að missa lykilstarfsfólk frá sér,“ segir Hafsteinn. „Það hjálpar þeim einnig við að staðsetja fyrirtækið í launasetningu gagnvart markaðinum í heild og meta þörfina til launabreytinga hjá einstaka starfshópum eða starfsmönnum.“

Áreiðanlegar upplýsingar um markaðslaun

„PwC hefur í 44 ár gert árlega greiningu á markaðslaunum fyrirtækja og stofnana og gefið út skýrsluna „Markaðslaun á Íslandi“. Skýrslan er ítarleg og tekur til markaðslauna yfir 150 starfsheita og nær til allflestra atvinnugreina og starfahlutverka á Íslandi. Fyrirtæki og stofnanir taka þátt í greiningunni með innsendingu launagagna sem fengin eru beint úr launakerfum þeirra,“ segir Hafsteinn. „Markaðslaun PwC hafa á undanförnum árum byggt á launagögnum um 15-20 þúsund launþega á Íslandi, sem samsvara um 10% af heildarvinnuafli á íslenskum markaði. Launagögnin ná til allra hlutverka í fyrirtækjunum, allt frá grunnstörfum til forstjóra. Áreiðanleiki þessara gagna er mikill, þar sem upplýsingarnar byggja á reiknuðum og greiddum launum úr launakerfum frá fyrirtækjum og stofnunum.

Það má líka glöggva sig á launasamsetningu starfahóps með því að rýna í þær aukagreiðslur sem hópurinn fær og hver meðalupphæð slíkrar greiðslu er fyrir hverja tegund aukagreiðslu,“ segir Hafsteinn. „Slíkar upplýsingar og frekari greiningar að auki eru birtar fyrir öll starfsheiti í markaðslaunaskýrslu PwC.“

Gagnast á margan hátt

„Öllum fyrirtækjum og stofnunum stendur til boða þátttaka í markaðslaunum PwC og þátttaka veitir aðgengi að greinargóðum samanburðarupplýsingum um laun. Upplýsingarnar geta nýst stjórnendum og mannauðsstjórum á margan hátt, svo sem við nýráðningar, í undirbúningi launasamtala, við mótun launastefnu og svo framvegis,“ útskýrir Hafsteinn. „PwC býður enn fremur upp á ýmsar sértækari greiningar í tengslum við markaðslaun, til að mynda stjórnendalaunagreiningu, sem getur nýst starfskjaranefndum vel við ákvarðanir á launakjörum lykilstjórnenda.“ ■