Freddi er af stoltu varúlfakyni sem hefur verndað bæinn í héraðinu svo lengi sem elstu úlfar muna.

Sitthvað bendir þó til þess að ekki eigi það fyrir Fredda að liggja að feta í fótspor forfeðranna. Hann virðist raunar vera hálfgerður hrakfallabálkur. Hann glatar meira að segja töfratunglsteini í hendur Foxwell Cripp.

Sjálfur hefur hann þó óbilandi trú á sjálfum sér.

Loks kemur að því að Freddi á að ganga í gegnum umbreytinguna í varúlf. Honum bregður heldur betur í brún þegar hann breytist ekki í ógnvekjandi varúlf heldur fíngerðan púðluhund.

Hann er niðurlægður og verður að sanna sig sem varúlfur þegar tunglið kemur upp næsta dag eða eiga á hættu að vera hrakinn á brott frá flokknum.

Á leið sinni um bæinn kynnist hann flækingshundinum Batty, sem er líka þekkt sem „Houndini“ vegna mikilla hæfileika sinna við að losna úr klóm hundafangara. Batty vísar honum til Cripp en hundafangari klófestir þau bæði og setur í hundageymslu.

Þeim mistekst að flýja og Freddi er settur í holu með einhverjum sem er kallaður skrímslið og er sagður éta hunda.

Freddi kemst að því að skrímslið er pabbi hans sem lenti í klóm hundafangara þegar Freddi glataði tunglsteininum.

Ekki væri sanngjarnt að upplýsa meira um söguþráðinn. Best bara að fara í bíó og sjá myndina.

Laugarásbíó, Smárabíó og Háskólabíó

Frumsýnd 17. febrúar 2023

Aðalhlutverk:

Mikael Kaaber, Ylfa Marín Haraldsdóttir, Þórhallur Sigurðsson (Laddi), Andrea Ösp Karlsdóttir, Bjarklind Björk Gunnarsdóttir, Stefanía Svavarsdóttir, Karl Örvarsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson, Benedikt Óli Árnason, Ari Freyr Ísfeld og Arnór Björnsson

Handrit:

Ranald Allan, David Green og Fin Edquist

Leikstjórn:

Sigurður Árni Ólason

Leyfð