Fjölskyldufræði er ekki nýtt fag, að sögn Þorleifs.

„Upphaf fjölskyldumeðferðar úti í hinni víðu veröld má finna allt aftur til byrjunar 20. aldar eða um svipað leyti og aðrar sálfélagslegar kenningar spruttu fram. Saga fjölskyldumeðferðar á Íslandi byrjaði á áttunda áratug síðustu aldar og fagfélag fjölskyldufræðinga hérlendis var stofnað árið 1994.

Kerfiskenningar (e. Systems Theory) eru þær grundvallarkenningar sem liggja að baki hugmyndafræðilegum grunni fjölskyldufræðinga. Það er illmögulegt að hugsa um það hvernig veröldin virkar án þess að hugsa um það hvernig hin ýmsu kerfi virka. Auk kerfiskenninga eru aðrar kenningar sem renna stoðum undir þetta fræðasvið. Fjölskyldumeðferð er gagnreynd og gamalgróin fræði til að aðstoða fjölskyldur og meðlimi þeirra með mismunandi úrlausnarefni.“

Fjölbreytt starf um land allt

Þorleifur býr á Akureyri og starfar þar við fag sitt. Starfið er þó ekki einskorðað við Norðurland og dregur það hann víða á land.

„Ég starfa sem sérfræðingur hjá hinu opinbera. Einnig starfræki ég ásamt öðrum viðtalsstofuna Skref – fjölskylduráðgjöf Norðurlands á Akureyri, þar sem fólk greiðir sjálft fyrir þjónustuna sem þar er veitt. Fólk getur þar fengið meðferðarviðtöl og býð ég þá upp á einstaklingsmeðferð, parameðferð, fjölskyldumeðferð, sáttamiðlun, skilnaðarráðgjöf og handleiðslu fyrir annað fagfólk.

Það kann að hljóma undarlega, en ég starfa hjá sérfræðiteymi Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Þó er ég staðsettur með mína vinnustöð hjá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra á Akureyri. Sérfræðiteymið, sem ég er hluti af hjá sýslumanni, sinnir sáttameðferð, sérfræðiráðgjöf og sérfræðivinnu í forsjár-, lögheimilis- og umgengnisdeilum. Þetta eru málin þar sem foreldrar eru ósammála um þessi atriði hjá sínum börnum. Ég fer oft á flakk í starfi mínu hjá sýslumanni og hitti foreldra og börn alls staðar á landinu en sérfræðiteymið sinnir öllu landinu. Reyndar hefur Covid-19 gert það að verkum að foreldrar eru opnari fyrir því en áður að nýta fjarfundi þegar það er hægt.“

Þorleifur segir aðalstyrkleika fjölskyldufræðinga að geta horft á aðstæður fólks út frá mörgum áttum. FRÉTTABLAÐIÐ/AUÐUNN

Börnin eru aðalatriðið

Þorleifur útskrifaðist árið 2006 sem félagsráðgjafi frá Háskóla Íslands og bætti við sig meistaragráðu í fjölskyldumeðferð árið 2012 frá sama skóla. Einnig er hann með diplómanám í handleiðslu frá HÍ.

„Menntun mín og reynsla sem félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur kemur sér afar vel í öllum ofangreindum störfum mínum. Það getur verið vandasamt að feta þann mjóa veg að hlusta á aðstæður og sjónarmið fólks, sýna hluttekningu og skilning en þurfa líka að benda fólki á að það séu fleiri sjónarhorn og að hægt sé að fara aðra leið en það stefni á. Í starfi mínu hjá sýslumanni eru börnin aðalatriðið og velferð þeirra og það getur reynt á þegar foreldra greinir á um hvað sé barninu fyrir bestu.“

Heildræn nálgun

Að sögn Þorleifs er starfssvið fjölskyldufræðinga afar margþætt og oft og tíðum þverfaglegt enda sé bakgrunnur fjölskyldufræðinga margbreytilegur.

„Aðalstyrkleiki fjölskyldufræðinga er að geta horft á aðstæður fólks út frá mörgum áttum og að geta hjálpað fjölskyldum, af öllum stærðum og gerðum, að takast á við sameiginleg vandamál sem geta skapast í fjölskyldulífinu. Fjölskyldufræðingar telja að horfa verði á verkefnið sem við er að eiga með heildrænum hætti en ekki út frá einstaklingunum sem eiga í hlut.

Algengasta starf fjölskyldufræðinga er að veita einstaklings-, para-, og fjölskyldumeðferð á viðtalsstofum. Þess utan starfa fjölskyldufræðingar hjá ýmsum opinberum stofnunum, eins og til dæmis á heilbrigðissviði, félagsþjónustu, barnavernd og hjá sýslumanni, svo dæmi séu tekin. Fjölskyldufræðingar leynast jafnvel innan þjóðkirkjunnar og hjá óháðum félagasamtökum.“

Fag í sífelldri þróun

„Það má segja að fræðin og fagið séu í sífelldri þróun. Sumt dettur út á meðan annað kemur nýtt inn, en flest nýtist þó í verkfærakistu sérfræðingsins. Það sem mér finnst þó alltaf merkilegast er þegar sumir sérfræðingar segja að sín aðferð sé mest og best, til að ná árangri í því að hjálpa fólki til bættra lífsgæða. Það er hins vegar ekki svo. Frekar eru það einstaklingsbundnir þættir hjá þeim sem nota þjónustuna og meðferðarsambandið sem myndast á milli sérfræðinga og skjólstæðinga, sem mestu máli skipta fyrir árangur í viðtalsmeðferð. Viðtalsmeðferð virkar ef skjólstæðingar upplifa sig sem virka þátttakendur í meðferðinni, upplifa meðferðarsambandið við sérfræðinginn á jákvæðan máta og finnst meðferðin vera í tengslum við sín mál og markmið í átt að bata og betri lífsgæðum.“