Þegar Gísli er spurður hvers vegna hann ákvað að gerast sjálfboðaliði á Hjálparsímanum, svarar hann: „Ég var í rannsóknarleyfi í Bandaríkjunum og þurfti að koma óvænt fyrr heim vegna COVID, og sem varamaður í stjórn Eyjafjarðardeildarinnar og geðheilbrigðisfagmaður rann mér blóðið til skyldunnar að reyna að gera eitthvert gagn. Ég hafði ekki tekið að mér slíkt sjálfboðastarf áður.“

Gísli segir að þeir sem hringja inn á hans vöktum virðist yfirleitt vera eldri en 18 ára. „Það virðist þó vera að vítt aldursbil nýti sér símann. Yngri hópurinn virðist þó nýta sér skilaboðakerfið okkar frekar.“

Eru vandamálin ólík?

„Ég mundi segja það. Og stundum kannski engin vandamál beint, heldur einstaklingar sem vilja deila lífí sínu og hversdegi með okkur, sem sýnir mikið traust og endurspeglar það góða starf sem Hjálparsíminn hefur unnið í samfélaginu. Það hefur komið mér á óvart hversu fjölbreyttur hópurinn er sem hringir og hversu umræðuefnin eru ólík og sömuleiðis margvísleg. Umræðan en misalvarleg. Það kemur líka vel í ljós það sem ég veit sem geðheilbrigðisfagmaður, að við sem samfélag þurfum að gera betur með aðgengi að samtalsmeðferð og annarri geðheilbrigðisþjónustu.“

Gísli segist hafa komið með seinni skipunum inn í starfið á fyrstu bylgju COVID-19 og yfirflæðið vegna faraldursins var að mestu búið. „En já, COVID hafði mikil áhrif á marga viðmælendur sem lýstu aukinni félagslegri einangrun og einmanaleika í kjölfarið á faraldrinum. Enda eru hóparnir sem eru í áhættuhópi fyrir COVID og þurfa að huga betur að sóttvörnum einnig mun útsettari fyrir félagslegri einangrun,“ segir hann.

Hvað hefur skilið eftir hjá þér að vera sjálfboðaliði?

„Auðmýkt fyrir að þetta starf sé unnið meira og minna af sjálfboðaliðum allan sólarhringinn allt árið um kring og fyrir traustinu sem margir sýna okkur. Það er mikill heiður og vandasamt verkefni að fá að hlusta.“

Hefur reynsla þín og þekking sem geðhjúkrunarfræðingur haft áhrif?

„Já, já, hún er alltaf þarna eins og forrit sem keyrir í bakgrunninum, en í símanum er samt mikilvægt að skilja þann hatt eftir heima. Ég er ekki á símanum sem sérfræðingur í geðhjúkrun eða meðferðaraðili heldur sem sjálfboðaliði RKÍ og starfsviðin því ekki þau sömu. Ég er í því samhengi í nákvæmlega sama hlutverki og aðrir sjálfboðaliðar.“

Geta allir gerst sjálfboðaliðar?

„Já og ég hvet alla sem vilja og geta til að skoða heimasíðu RKÍ, þar er farið vel yfir þau ótal tækifæri sem bjóðast fólki til sjálfboðaliðastarfa. Mörgum finnst það hjálpa sér sjálfum að hjálpa öðrum, kannski ert þú einn af þeim?“