Birgir segir að Reykjalundur hafi verið verulega góður vinnustaður. Þar hafi ríkt góður starfsandi og verið unnið gott starf. „Reykjalundur hefur alltaf verið mikilvæg endurhæfingarstofnun,“ segir hann. „Við vorum nokkrir sjúkraþjálfarar sem störfuðu á deildinni og ég tel að þar hafi verið unnið mjög gott starf. Þarna hafði verið endurhæfingarstofnun frá 1962, í fyrstu vegna berkla, en þegar þeir lögðust af var starfseminni breytt fyrir aðra sjúkróma,“ segir hann. „Reykjalundur varð ein helsta endurhæfingarstöð landsins. Þótt ég hafi starfað í teymi á hjartaendurhæfingadeildinni vann ég á öðrum sviðum líka innan Reykjalunds.“

Birgir K. ­Johnsson starfaði í 35 ár sem sjúkraþjálfari á Reykjalundi og var ánægður með starfsandann.

Birgir segir að á Reykjalundi hafi farið fram endurhæfingarstarf sem hafi breytt lífi margra Íslendinga. „Við settum upp ákveðið, skipulagt endurhæfingarform fyrir hjartasjúklinga, sem fól í sér heilsueflingu og hreyfingu. Við lögðum áherslu á göngur, leikfimi, sund og þess háttar. Um leið fór fram fræðsla um bættan lífsstíl. Það fylgir óhjákvæmilega þegar fólk fer í endurhæfingu að bæta lífsstíl sinn,“ greinir hann frá.

Birgir segir að Reykjalundur hafi verið ótrúlega heppinn með starfsfólk í gegnum tíðina. „Það voru allir áhugsamir að gera sitt besta. Við fundum líka fyrir þakklæti frá skjólstæðingum enda reyndist meðferðarformið vel. Reykjalundur hefur alltaf verið mjög þörf stofnun og gríðarlegur fjöldi fólks hefur fengið bót sinna meina þar.“