Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks (SVS) er einn stærsti starfsmenntasjóður hér á landi. Hann var stofnaður árið 2000 á grundvelli kjarasamninga á milli Samtaka atvinnulífsins (SA) annars vegar og VR og Landssambands íslenzkra verzlunarmanna hins vegar. Sjóðurinn þjónar því þessum þremur aðilum sem koma að gerð samningsins segir Selma Kristjánsdóttir, sérfræðingur hjá SVS. „Helsta hlutverk sjóðsins er að auka starfshæfni og menntunarstig félagsmanna sjóðsins sem leitt gæti til virðisauka fyrir þá og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, auk þess sem sjóðnum er einnig ætlað að bæta samkeppnishæfni fyrirtækja sem greiða í sjóðinn með aukinni menntun starfsfólks.“

Afgreiðsla umsókna úr sjóðnum á sér annars vegar stað gegnum þau stéttarfélög sem eiga aðild að samningnum og snýr að einstaklingunum og hins vegar gegnum sameiginlega vefgátt sem snýr að fyrirtækjum og kallast attin.is.

Unnið innan ákveðins ramma

Einstaklingar og fyrirtæki geta sótt um styrki auk þess sem tekið er við sameiginlegum umsóknum frá fyrirtækjum og einstaklingum segir Selma. „Auðvitað viljum við styrkja sem flest en sjóðurinn þarf að fylgja hlutverki sínu og markmiðum og vinna innan ákveðins ramma. Þegar horft er til þess hvað flokkist sem styrkhæf námskeið af hálfu sjóðsins er horft til nokkurra þátta. Í fyrsta lagi verður námskeiðið að hafa skilgreint upphaf og endi og tengjast fyrir fram ákveðinni áætlun sem leidd er af leiðbeinanda. Í öðru lagi verða allar upplýsingar um námskeiðið að vera aðgengilegar og námskeiðið skal ekki vera sérsniðið fyrir einstaka lokaða hópa heldur aðgengilegt öllum.“

Svo er spurning hvort námskeiðið sé starfstengt eða tengt tómstundum bætir hún við. „Ef námskeiðið eflir starfsmann í starfi og eykur hæfni hans flokkast það sem starfstengt námskeið. Ef það er hins vegar óháð vinnu en fellur undir viðmið námskeiðs sem ég fór í hér að framan er það styrkhæft sem tómstundatengt. Styrkur til tómstundanámskeiða er 50% af reikningi að hámarki krónur 30 þúsund á ári.“

Erfitt að lofa fyrir fram styrk

Hún segir að almennt sé veittur starfstengdur styrkur fyrir 90% af námskeiðsgjaldi en þó að hámarki 130.000 krónur á almanaksári. „Ef ekkert hefur verið sótt um í starfsmenntastjóðinn í þrjú ár í röð myndast uppsöfnum sem er að hámarki 390.000 krónur fyrir einu samfelldu námi en aðeins er hægt að sækja um þann styrk í einu lagi.“

Selma segir erfitt að lofa félagsfólki styrkjum fyrir fram þar sem réttur hvers og eins getur verið misjafn. Þar getur starfshlutfall haft áhrif og áður nýttur réttur á almanaksárinu. Þau sem ná lágmarkslaunum á 12 mánaða tímabili öðlast 100% rétt í sjóðinn meðan þau sem ná því ekki öðlast hlutfallslegan rétt. Réttur félagsfólks endurreiknast svo um hver áramót.

Áskorun að kynna starfsemina

Mikil ásókn hefur verið í styrki hjá SVS en þó er einn hópur sem mætti sækja meira um að mati Selmu. „Það eru karlmenn, 35 ára og eldri. Þetta er helst sá hópur sem sækir minna um hjá okkur en þó merkjum við að hópurinn sé í sókn.“

Mikilvægt sé að hver og einn hugi að eigin styrkleikum, hvar sé hægt að bæta sig og efla í starfi og leik. „Þetta snýst alls ekki um að allir eigi að setjast á skólabekk heldur frekar að hver og einn reyni jafnt og þétt að efla sig sem einstakling í síbreytilegu samfélagi, bæði tengt vinnu og einkalífi. Mikið er til af flottum leiðum til eflingar en vandamálið kannski að finna út hvað hentar hverjum hverju sinni.“

Annars sé helsta áskorunin að kynna starfsemi sjóðsins og styrkjafyrirkomulag svo félagsfólk sé meðvitað og hugsi stanslaust um eigin starfsþróun. „Við reynum því að kappkosta að koma upplýsingum áleiðis um hvað telst styrkhæft enda greinum við að margir þarna úti eru óöryggir varðandi hvaða námskeið eru styrkhæf og hver ekki.“

Því leiti margir til sjóðsins til að fá staðfestingu á því hvort svo sé. „Þá skoðum við lýsingu námskeiðsins og skoðum hvort hún falli að viðmiði okkar. Ef það vantar frekari upplýsingar köllum við eftir þeim. Í þessu sambandi má nefna að ýmis meðferðarúrræði, til dæmis meðferð gegn flughræðslu svo dæmi sé tekið, falla því miður ekki innan ramma okkar þótt slík meðferð sé að sjálfsögðu nauðsynleg og gagnleg. Það er bara ekki okkar hlutverk sem starfsmenntasjóðs að styrkja slíkt.“