„Mannauður er auðvitað mikilvægasta auðlindin í allri starfsemi og þjónustu. Við sem teymi sinnum meðal annars ráðgjöf um ákvæði starfsmannalaga og framkvæmd kjarasamninga og leiðbeinum stjórnendum í mannauðsmálum,“ segir Þröstur Freyr Gylfason, sérfræðingur hjá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins.

Teymið sinnir einnig starfsþróun og fræðslumálum ríkisstarfsmanna, málefnum forstöðumanna og stjórnenda. Styrkurinn liggur í stöðugu samtali, samráði og öflugri teymisvinnu með stjórnendum ríkisins og öðrum mikilvægum samstarfsaðilum úr ólíkum áttum.

„Stjórnendastefna ríkisins var gefin út árið 2019 en hún er liður í því að efla stjórnendur hjá ríkinu til að ná auknum árangri. Í stefnunni er kveðið á um hvaða hæfni, þekkingu og eiginleika stjórnendur þurfa að bera, til að geta sinnt skyldum sínum sem leiðtogar í opinberri þjónustu og hvernig ríkið vill styðja stjórnendur til að ná árangri,“ útskýrir Þröstur Freyr.

Liður í því að bæta stjórnendafærni hjá ríkinu er að skilgreina hæfniskröfur sem gerðar eru til stjórnenda.

„Hæfniskröfur eru skilgreindar í kjörmynd stjórnenda. Vægi þátta fer eftir hverju og einu starfi. Kjörmyndina má nota á ýmsa vegu; við skilgreiningar á hæfnisþáttum við ráðningar, skipulag fræðslu og til leiðbeiningar fyrir nýja stjórnendur. Þá er kjörmyndin höfð til hliðsjónar í samtali við stjórnendur, þar sem meðal annars er ákvörðuð starfsþróunaráætlun og greint á hvaða sviðum þörf er á fræðslu og stuðningi,“ upplýsir Þröstur Freyr.

Til að takast á við áskoranir sem stjórnendastörf hjá ríkinu fela í sér þurfa stjórnendur að hafa leiðtogahæfileika, starfa af heilindum og leggja áherslu á árangursmiðaða stjórnun, auk þess að rækta með sér góða samskiptahæfni.

„Við vinnum að bættri stjórnendafærni, meðal annars í gegnum verkefnið um Stjórnendasetur ríkisins, sem horfir á stjórnendur ríkisins sem sérstakan markhóp, veitir stuðning, sinnir fræðslu og starfsþróun og leggur áherslu á eftirfylgni með árangri. Stjórnendur þurfa meðal annars að búa yfir hæfni og þekkingu til að geta brugðist við og haft frumkvæði að breytingum í samfélaginu og sífellt flóknara starfsumhverfi. Þegar við náum góðum árangri í þessum verkefnum næst fram aukinn samfélagslegur ávinningur,“ segir Þröstur Freyr.

Stefnumótun hugleikin

Starfsfólk gegnir lykilhlutverki í því að ná fram þessum samfélagslega ávinningi.

„Því er okkur sérstaklega hugleikin stefnumörkun og framþróun í mannauðsmálum ríkisins. Mikilvægt er að tryggja að starfsfólk búi yfir nauðsynlegri þekkingu og hæfni til að styðja við stöðugar umbætur og þróun á þjónustuleiðum í starfsemi hverrar stofnunar,“ segir Aldís Magnúsdóttir, sérfræðingur hjá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins.

Í haust er lögð áhersla á mótun og útgáfu samræmdrar stefnu ríkisins í mannauðsmálum með það að leiðarljósi að stofnanir geti mætt þeim áskorunum sem fram undan eru.

„Stefna ríkisins í mannauðsmálum þarf að styðja við starfsumhverfi sem kemur til móts við breyttar áherslur, forgangsröðun og kröfur um sveigjanleika á vinnumarkaði. Eins þarf að nýta tækifærið til að styrkja starfsumhverfi ríkisins. Stefnu ríkisins í mannauðsmálum er ætlað að styðja við stjórnendur og starfsfólk hjá ríkinu, til að ná settum markmiðum stofnana og tryggja betur góða opinbera þjónustu,“ greinir Aldís frá.

Vinnustofa á fimmtudaginn

Fimmtudaginn 6. október, sem er í beinum tengslum við Mannauðsdaginn 7. október, verður vinnustofa með mannauðsfólki ríkisins í þeim tilgangi að dýpka vinnuna og samtalið við mótun stefnunnar.

„Það er ósk okkar að fá hugmyndir frá okkar frábæra mannauðsfólki til að vinna með. Tilgangurinn er ekki síður að mannauðsfólk geri verkefnið enn betur að sínu við næstu skref við innleiðingu á stefnunni og ólíkum verkþáttum hjá stofnunum ríkisins. Hver stofnun er yfirleitt með sína eigin mannauðsstefnu en markmiðið nú er sameiginleg, heildstæð sýn, segir Ásta Einarsdóttir, sérfræðingur hjá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins.

„Við viljum búa starfsfólki ríkisins umhverfi þar sem eftirsóknarvert er að starfa og tækifæri gefast til að eflast og þróast í starfi. Þess vegna leggjum við meðal annars áherslu á öfluga starfsþróun í gegnum fræðslusjóði og starfsþróunarsetur sem ríkið á aðild að, sem eru einmitt hugsuð til að styrkja starfsfólk og í reynd stofnanir við framþróun sinna starfsmanna. Auk þess viljum við skoða hvernig starfsþróunaráætlanir, framkvæmd fræðslu og námsleyfi nýtast í sama tilgangi.

Allt þetta kemur til viðbótar við öfluga og góða stjórnendur, heildarstefnu og bætta ráðgjöf í mannauðsmálum, sem og bætt aðgengi að stjórnendaupplýsingum. Svo það eru spennandi tímar fram undan í mannauðsmálum ríkisins.“