Helga segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á málnotkun unglinga og tók meðal annars þátt í norrænu verkefni um unglingamál þegar hún var í doktorsnámi í Helsinki.

„Þegar ég fluttist til Íslands 2017 eftir margra ára dvöl erlendis var mikil umræða meðal almennings um stöðu íslensku gagnvart ensku. Mikið var rætt um það að íslensk börn og unglingar væru hætt að nenna að tala íslensku. Öndvegisverkefni Sigríðar Sigurjónsdóttur og Eiríks Rögnvaldssonar sem meðal annars beinir sjónum að því hvar og hversu oft íslenskir unglingar nota íslensku og ensku var þá farið af stað. Mér fannst nauðsynlegt að skoða sjálf samskiptin, að taka upp raunveruleg samtöl unglinga og kortleggja einkenni íslensks unglingamáls eins og það er í dag. Ég vildi safna raunverulegum upptökum til að kortleggja notkunina og varðveita upptökur fyrir framtíðina,“ útskýrir Helga.

Styrkur skipti sköpun

„Við fengum þriggja ára styrk frá Rannsóknasjóði sem gerði okkur kleift að ráða stúdenta til að skrá efni og búa til gagnagrunn. Fyrsta árið fór í undirbúning og upptökur. Við vildum vanda vel til verka áður en við færum að safna efni. Þurftum til dæmis að fá leyfi frá Vísindasiðanefnd og skólayfirvöldum í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Einnig þurftum við að fá skólastjóra og íslenskukennara til liðs við okkur svo ekki sé minnst á nemendur. Þetta verkefni hefði fallið um sjálft sig hefðu kennarar, foreldrar og nemendur ekki verið svona velviljaðir og jákvæðir gagnvart verkefninu,“ segir Helga.

„Þegar söfnun efnis var lokið hófst skráning sem var gífurlega tímafrek. Við fengum fimm nemendur úr HÍ í hlutastarf við skráningu. Það var erfið nákvæmnisvinna. Auk aðstoðarmanna við skráningu vorum við með einn doktorsnema sem sinnti rannsóknum og tvo nemendur sem skrifuðu meistararitgerð.“

Helga segir að unglingsárin séu mikilvæg mótunarár í lífi fólks. „Það er á þessum árum sem einstaklingurinn klippir á naflastrenginn og fer að sækja meira í jafnaldra sína. Á efri árum grunnskólans og í framhaldsskóla mótast sjálfsmyndin sem getur haft áhrif á málnotkunina. Unglingar eru oftast skapandi og opnir fyrir nýjungum. Samkvæmt kenningum félagsmálafræðinnar eiga málbreytingar sér einna helst stað einmitt á þessum árum. Það er mikilvægt að kortleggja það sem er að gerast í unglingamálinu hverju sinni því þótt sumar þessara breytinga séu aldursbundnar og hverfi úr málinu þegar einstaklingurinn vex úr grasi eru aðrar komnar til að vera.“

Úrelt orð í nútímanum

Þegar Helga er spurð hvort eitthvað hafi komið á óvart við vinnsluna, svarar hún: „Það sem kom mér fyrst og fremst á óvart var hversu margir áttu erfitt með að skilja orð sem mér finnst svo sjálfsagt að kunna. Þá er ég að tala um orð yfir hluti sem eru eiginlega orðnir úreltir eins og frímerki, geislaspilari og plötuspilari. Svo voru aðrir hlutir sem þeir voru með á hreinu en ég átti erfitt með að skilja.

Þetta er ekkert sem á að koma á óvart því orðaforðinn endurspeglar samfélagið. Sennilega eru orð á borð við plötuspilari jafn fjarri unglingum í dag og gömul heyskaparorð voru þegar ég var unglingur.

Aðgengi Íslendinga að alþjóðlegu afþreyingarefni hefur aukist mikið með tilkomu snjalltækja og það hefur orðið gríðarleg sprenging í notkun upphrópana úr ensku á borð við Oh my god, what, what the fuck og oh yeah. Þetta á þó ekki bara við um íslensku. Tilgangurinn með þessari rannsókn var þó ekki að skoða tengsl snjalltækja og málnotkunar. Það kom á óvart að í sumum viðtölum notuðu nemendur nær engin ensk aðkomuorð en síðan voru aðrir nemendur sem notuðu þau mikið. Sumir voru meðvitað að reyna að vanda sig og sýna sínar bestu hliðar á meðan mikill galsi var í öðrum.

Mikið og fróðlegt efni

Umræðuefnið getur síðan kallað á notkun aðkomuorða, til dæmis þegar verið er að fjalla um rapptónlist eða segja frá myndskeiðum á YouTube. Ég held að flestir unglingar geri sér grein fyrir þessum blæbrigðamun og geti valið sér málsnið sem hentar aðstæðum en þetta þarf að sjálfsögðu að skoða nánar,“ segir Helga en söfnun efnis var tvískipt. „Annars vegar fórum við í heimsóknir í grunn- og framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu, Norðurlandi, Austfjörðum og Vestfjörðum. Hins vegar bað ég unglinga um að taka upp efni heima, það er að segja samtöl unglinga við vini og vandamenn. Meðal annars safnaðist töluvert af efni þar sem grunnskólanemar voru að spila tölvuleiki. Þessar upptökur eru eiginlega allar af höfuðborgarsvæðinu.

Í skólaviðtölunum var okkur alls staðar vel tekið og það var virkilega fróðlegt og skemmtilegt að ræða við unga fólkið því það hefur oft aðra sýn á heiminn en þeir sem eldri eru. Í viðtölunum spjölluðum við til dæmis um lífið í skólanum, tómstundir, framtíðardrauma og fréttamiðla. Svo spilaði ég fyrir þau nokkur tóndæmi úr ýmsum áttum og fékk þau til að segja mér hvað þeim fyndist um þessa tónlist. Ég komst að því að nær enginn kannaðist við Sigur Rós nema sem auglýsingatónlist og að flestir flokki Guns’n Roses sem pabbatónlist.

Bók um unglingamál

Nú er rannsóknarhópurinn að skrifa bók um íslenskt unglingamál. Vinnan við hana er hafin. Við vonumst til að bókin eigi ekki síst eftir að vekja forvitni kennara og annarra sem starfa mikið með unglingum.

Gögnin úr rannsókninni verða aðgengileg í gagnagrunni sem fræðimenn geta sótt í. Þau geta verið gríðarlega verðmæt fyrir framtíðarrannsóknir og ég hvet alla málfræðinga til að nýta sér efnið. Þarna er efni sem má nota í rannsóknir á hljóðfræði, beygingarfræði, setningafræði, merkingarfræði og málnotkun,“ segir Helga en með henni í verkefnastjórn voru Ásgrímur Angantýsson, Ásta Svavarsdóttir, Finnur Friðriksson, Jón Guðnason og Sigríður Sigurjónsdóttir.