Þýskir kvikmyndadagar verða haldnir í 14. skiptið í Bíó Paradís dagana 24. febrúar til 5. mars 2023. Kvikmyndadagarnir er samstarf Bíó Paradísar, Goethe-Institut Dänemark og þýska sendiráðsins á Íslandi. Stórkostleg þýsk kvikmyndaveisla ásamt broti af úrvali frá Mannréttindakvikmyndahátíðinni í Berlín!
Flestar myndirnar á kvikmyndadögunum hafa hlotið mikla athygli á heimsvísu. Þar má nefna All Quiet on the Western Front sem hlýtur níu Óskarstilnefningar sem og Rabiye Kurnaz vs. George W. Bush og Love, Deutshmarks and Death en þær fengu báðar verðlaun og verðskuldaða athygli á Berlinale.
Opnunarmynd kvikmyndadaganna í ár er Rabiye Kurnaz vs. George W. Bush, sannsöguleg mynd sem segir frá konu frá Bremen sem leitar allra leiða til að bjarga syni sínum úr Guantanamo Bay-fangelsinu. Hún leitar til lögreglu og yfirvalda og endar, í nafni sonar síns, í málaferlum við Bandaríkin. Myndin sló í gegn á kvikmyndahátíðinni Berlinale, keppti um Gullbjörninn og hlaut þrenn verðlaun, meðal annars fyrir besta handritið. Hún fer í almennar sýningar að hátíð lokinni í Bíó Paradís.
Aðrar myndir á þýskum kvikmyndadögum eru:
All Quiet on the Western Front
Ungur maður, Paul Bäumer og vinir hans, Albert og Müller, ganga sjálfviljugir í þýska herinn í fyrri heimsstyrjöldinni. Ískaldur hryllingur stríðsins hefst svo í fremstu víglínu. Átakanleg mynd sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara!
Myndin er tilnefnd til níu Óskarsverðlauna og hlaut 14 tilnefningar til BAFTA-verðlaunanna 2023.
The Ordinaries
Dramatísk gamanmynd sem segir frá Paulu sem þráir að verða aðalleikkona í sínu eigin lífi og leitast við að kanna uppruna fjölskyldu sinnar og þá sérstaklega föður síns.
Ein eftirtektarverðasta mynd ársins frá Þýskalandi, mynd sem vísar í gullaldartíma Hollywood, mynd sem enginn má missa af!
Nachschuss
Werner Teske er ráðinn til leyniþjónustu kommúnistaflokks Austur-Þýskalands. Þegar fjárkúganir, þvinganir og símhleranir verða hluti af hans daglegu störfum fara að renna á hann tvær grímur.
Sannkallað pólitískt drama og sálfræðileg spennumynd þar sem fjallað er um átakanlega tíma í sögu Þýskalands. Nachschuss er byggð á sannri sögu.
Love Deutschmarks and Death
Stórkostleg heimildarmynd um tónlist tyrkneskra innflytjenda í Þýskalandi, í senn grátbrosleg og áhugaverð en umfram allt hjartnæm menningarsaga fólks, þar sem tjáningarformið er tónlist. Cem Kaya veitir hér innlit í einstakan lífleika þessarar tónlistarmenningar.
Myndin vann áhorfendaverðlaunin í Panorama-flokknum á Berlinale 2022.
Eftirfarandi heimildamyndir eru brot af úrvali frá Mannréttindakvikmyndahátíðinni í Berlín í samstarfi við þýska sendiráðið á Íslandi. Frítt er inn og allir velkomnir en þó er nauðsynlegt að skrá sig í gegnum hlekk sem finna má á heimasíðu Bíó Paradísar.
Backlash: Misogyny in the Digital Age – Boðssýning
Heimildarmynd um kvenhatur á stafrænni öld. Fylgst er með fjórum konum og einum karli sem hafa orðið fyrir barðinu á netofbeldi.
Laura Boldrini er ein mest áreitta stjórnmálakona Ítalíu. Kiah Morris var stjórnmálakona í Vermont en sagði af sér í kjölfar mikillar áreitni og hótana á netinu.
Marion Séclin fékk meira en 40.000 kynjamisréttisskilaboð á netinu, þar á meðal hótanir um nauðganir og líflát. Laurence Gratton er ungur kennari sem varð fyrir netárásum frá fyrrverandi samstarfsmanni.
Einnig er viðtal við föður stúlku sem svipti sig lífi eftir að ofbeldi af henni var dreift á netinu.
Heimildarmynd sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
A House Made of Splinters – Boðssýning
Í stríðshrjáðum og fátækum austurhluta Úkraínu er griðastaður fyrir börn til að komast tímabundið frá foreldrum sínum. Fylgst er með þremur börnum sem bíða örlaga sinna. Munu þau snúa aftur til foreldranna eða flytja á nýtt heimili? Átakanleg heimildarmynd um aðstæður barna á stríðstímum.
Myndin er tilnefnd til Óskarsverðlaunanna sem besta heimildarmyndin 2023!
Þýskir kvikmyndadagar í Bíó Paradís, dagana 24. febrúar til 5. mars 2023.





