Aðalheiður Karlsdóttir, löggiltur fasteignasali og framkvæmdastjóri Spánareigna sem er íslensk fasteignasala, hefur sérhæft sig í sölu fasteigna á Spáni til Íslendinga í tuttugu ár og er því öllum hnútum kunnug þegar kemur að slíkum kaupum. „Ljúfur lífsstíll í Spánarsólinni heillar fleiri og fleiri Íslendinga og við höfum síðustu misserin orðið vör við verulega aukinn áhuga fólks á að eignast sitt eigið heimili á Spáni, sérstaklega eftir að flestir eru fullbólusettir og þyrstir í ferðalög til heitari landa,“ segir Aðalheiður og bætir við að Íslendingar vilji í auknum mæli hafa fastan samastað á Spáni. „Með því að fara beint í eigið húsnæði getur fólk lágmarkað alla sameiginlega fleti og dregið úr áhættunni á því að smitast af covid,“ segir hún.

Armani-villan Morning Breeze, á Las Colinas-golfvellinum, hönnuð af Monicu Armani. Fullkominn glæsileiki sem vakið hefur mikla athygli. Las Colinas var valinn besti go lfvöllur á Spáni árið 2020.

Góður tími til að kaupa húseign á Spáni

„Það er mjög góður tími til að kaupa fasteignir á Spáni um þessar mundir, verðin eru enn góð en við sjáum hækkanir í kortunum. Salan hefur verið lífleg að undanförnu og fer vaxandi. Fólk virðist vera að endurhugsa margt í kjölfar Covid og horfir til lífsgæða á annan hátt en áður. Fleiri og fleiri geta sinnt fjarvinnu í gegnum netið og það opnar ný tækifæri og eykur sveigjanleika í búsetu. Að eiga heimili í sólinni er orðið mun eftirsóttara hjá íbúum Norður-Evrópu og Skandinavíu og spilar þar margt inn í, en sennilega aðallega veðrið og verðið,“ segir hún.

„Íslendingar virðast vera á sömu línu og nágrannaþjóðir okkar, enda mikil lífsgæði fólgin í því að eiga heimili í sólinni. Sjálf get ég alveg tekið undir það, enda búin að njóta þess að eiga mitt annað heimili á Spáni í rúm 20 ár og hefði ekki viljað fara á mis við það, enda átt þar fjölmargar sælustundir með fjölskyldu og vinum. Verðið á allri neysluvöru er mjög hagstætt og sólin skín yfir 300 daga á ári. Mér finnst aldrei eins og ég sé í vinnunni þegar ég er með viðskiptavinum, ég hef mikla ánægju af því að deila með öðrum góðri reynslu minni af því að eiga heimili í sólinni og aðstoða fólk við að velja það sem hentar því best.“

Á Las Colinas er fjölbreytt úrval af fallegum íbúðum með frábæru útsýni yfir golfvöllinn. Starfsfólk Spánareigna veitir persónulega þjónustu við kaupin.

Áralöng reynsla og traust

„Við hjá Spánareignum höfum selt fasteignir á Spáni frá því 2001 og höfum því yfirgripsmikla þekkingu og góð sambönd sem nýtist viðskiptavinum okkar vel. Við erum með skrifstofu á Íslandi og fólki finnst þægilegt að byrja ferlið á því að koma til okkar í kaffi og persónulegt spjall og fá upplýsingar um hvað er í boði, eignir og staðsetningar, og hvernig kaupferlið gengur fyrir sig, áður en það bókar skoðunarferð til Spánar,“ upplýsir Aðalheiður og bætir við að það sé ekki flókið að kaupa fasteign á Spáni. „Engu að síður er afar mikilvægt að fá aðstoð fagfólks til að allt gangi vel upp og forðast óþarfa vandamál,“ segir hún.

Fallegar íbúðir í Flamenca Village. Sundlaugargarður, leiksvæði fyrir börn inni á lokuðu svæði. Göngufæri á ströndina, La Zenia Boulevard og laugardagsmarkaðinn á Playa Flamenca. Hagstæðir húsgagnapakkar eru í boði fyrir viðskiptavini Spánareigna.

„Við aðstoðum viðskiptavini okkar við allt kaupferlið, frá upphafi til enda, allt frá því að við förum yfir kaupóskir, mismunandi tegundir eigna og staðsetningu, verð, skipulag skoðunarferðar og þar til skrifað er undir kaupsamning, lyklar afhentir og afsal gefið út. Við tökum líka þátt í kostnaði við skoðunarferðina fyrir okkar viðskiptavini. Enn fremur veitum við ráðgjöf í sambandi við fjármögnun á fasteignakaupum og erum í samstarfi við góða aðila á því sviði, til að tryggja bestu lánakjörin sem í boði eru hverju sinni. Um þessar mundir eru vextir hagstæðir og hægt er að tryggja fasta vexti á lánum til allt að 20-25 ára, sem auðveldar fólki kaupin og verðtryggð lán þekkjast ekki á Spáni. Höfuðstóll lánsins lækkar við hverja afborgun og eigið fé í eigninni eykst.

Einnig aðstoðum við okkar viðskiptavini við kaup á húsgögnum, útvegun á NIE-númerum (spænsk kennitala) opnun á bankareikningi, beingreiðslur neyslureikninga og fleira sem þarf til að allt gangi vel fyrir sig,“ segir Aðalheiður en þannig getur fólk verið áhyggjulaust þegar það fer í fasteignakaupin.

Aðalheiður Karlsdóttir er löggiltur fasteignasali og eigandi.

Persónuleg þjónusta

Lögð er sérstök áhersla á persónulega þjónustu fyrir hvern. „Þarfir viðskiptavina eru mismunandi og við viljum sinna hverjum og einum fyrir sig. Viðskiptavinir okkar hafa verið mjög ánægðir með þjónustuna í gegnum árin, enda fáum við í dag flesta nýja viðskiptavini til okkar vegna meðmæla frá eldri viðskiptavinum. Það finnst okkur best.”

Ungt fólk sækir í betri lífsgæði

„Kaupendahópurinn hefur verið að breytast nokkuð síðustu árin og nú er til að mynda mun yngra fólk að kaupa sér eign í sólinni en áður. Fólk vill ekki bíða þar til það fer á eftirlaun, heldur fara í þetta strax, enda getur það þá fengið lengri og hagstæðari lán og á þá jafnvel eignina sína skuldlausa þegar það fer á eftirlaun, sem einfaldar eftirlaunaárin og eykur lífsgæðin verulega. Þannig er líka hægt að njóta þess að vera í sólinni með börnunum sínum á meðan þau eru enn ung, og síðan taka barnabörnin við, enda ekkert betra en að vera hjá ömmu og afa á Spáni, busla í sundlauginni eða á ströndinni og fá sér ís,“ segir Aðalheiður og talar af reynslu.

Íbúðir og sérbýli með tveimur eða þremur svefnherbergjum, tveimur eða þremur baðherbergjum og sameiginlegum sundlaugargarði njóta mikilla vinsælda. Spánareignir bjóða upp á gott úrval eigna á hagstæðu verði, alveg niður í 25-30 milljónir.

,,Ekki má gleyma öllum sem taka sínar fyrstu golfsveiflur í sólinni, enda hægt að spila golf í góðu veðri allt árið. Alls kyns útivera og íþróttir heilla líka marga, hjólreiðafólk og göngugarpar finna sína paradís á Spáni. Á vissan hátt má því líta á fasteignakaup á Spáni sem langtímafjárfestingu í lífsgæðum.

Við höfum einnig orðið vör við það í auknum mæli að fólk er að kaupa fasteign á Spáni með það í huga að flytja alfarið út, lífsgæði fyrir ungt fólk með börn eru umtalsverð. Hægt er að fá góða fasteign fyrir mun lægra verð en á Íslandi. Skólakerfið og heilbrigðisþjónusta er mjög gott, biðlistar þekkjast varla, og auðvelt að vera með börn á Spáni. Við erum til dæmis með íslenskan starfsmann búsettan á Spáni með tvö börn, sem er öllum hnútum kunnugur þar og hefur gefið mörgum góð ráð í því sambandi.

Eldra fólk flytur líka í auknum mæli alfarið til Spánar, enda finnur það vel fyrir því hversu góð áhrif hitinn hefur á kroppinn, sérstaklega yfir vetrarmánuðina, og eftirlaunin leyfa meiri lúxus.

Glæsilegar íbúðir á Spáni.

Ýmis tækifæri í sólinni

Sömuleiðis færist það í vöxt að fólk kaupi fasteignir á Spáni til að fjárfesta, nýtir þá eignina sjálft hluta úr ári og leigir hana síðan út og nær þannig að reka eignina og fjármagna að miklu leyti. Í þessu sambandi eru það oftast einstaklingar, en líka stórfjölskyldan eða samhentir vinir, sem kaupa saman.

Enn fremur höfum við í auknum mæli verið að aðstoða stórtækari fjárfesta við að setja upp fyrirtæki á Spáni til að kaupa fasteignir og reka þær í atvinnuskyni, enda ýmis spennandi tækifæri fólgin í því. Íslensk fyrirtæki, starfsmannafélög og orlofssjóðir hafa líka verið að kaupa hjá okkur eignir fyrir sitt fólk og opnar það ný tækifæri fyrir launafólk að geta eytt sumarleyfinu sínu á Spáni án þess að það kosti of mikið. Í því felst mikil kjarabót sem skilar ánægðara starfsfólki til fyrirtækisins.“

Það getur verið notalegur lífsstíll á Spáni.

Rétt eign skiptir öllu máli

„Góð staðsetning skiptir ekki minna máli en góð fasteign og leggjum við mikla áherslu á að ráðleggja fólki vel í því sambandi. Eignir við strönd eða golfvelli eru alltaf vinsælar, og margir vilja vera í göngufæri við verslanir og veitingastaði, en það er samt alls ekki krafa frá öllum. Sumir velja rólega staði og vilja vera meira út af fyrir sig. Margir kjósa að láta eignina snúa á móti sól, aðrir kjósa skuggann. Það er því mikilvægt að geta boðið upp á fjölbreytni í gerð fasteigna og ýmsar staðsetningar. Íbúðir, lítil sérbýli og stærri einbýlishús eru það sem fólk er helst að kaupa og nýjar eignir eru mun vinsælli en endursölueignir, þó þær seljist alltaf líka, ef þær eru í góðu ástandi og vel staðsettar.

Góðar eignir á golfvöllum hafa verið að seljast vel að undanförnu, til dæmis við Las Colinas, La Finca og Vistabella golfvellina. Margir kjósa að vera nálægt strönd og þar erum við með sérlega vandaðar og góðar íbúðir, meðal annars í Flamenca Village sem er í örstuttu göngufæri við fallega strönd, vinsælu verslunarmiðstöðina, La Zenia Boulevard, og laugardagsmarkaðinn á Playa Flamenca. Einnig erum við með frábærar íbúðir og lítil sérbýli við strendurnar í Mil Palmeras og Dehesa de Campoamor, svo eitthvað sé nefnt. Villamartin og Cabo Roig eru einnig vinsælir staðir og þar er hægt að velja úr fjölbreyttu úrvali eigna.

Smábæir líka vinsælir

Við verðum líka vör við að fólk kýs í auknum mæli að kaupa fasteignir í spænskum smábæjum, eins og Benijofar, Dona Pepa, Ciudad Quesada, Los Alcazares eða Daya Nueva. Einnig hefur Torrevieja-borgin sjálf verið að aukast í vinsældum og getum við boðið upp á mjög skemmtilegar miðborgaríbúðir á góðum verðum, alveg við ströndina þar. Einnig má nefna glæsilegar nýjar íbúðir við ströndina í Benidorm fyrir þá sem vilja vera í smáfjöri, og notalegar íbúðir á góðu verði við ströndina í Almeria fyrir þá sem kjósa meiri rólegheit og góða aðstöðu til útiveru og íþróttaiðkunar,“ bendir Aðalheiður á.

„Það er því úr mörgu að velja og við leggjum áherslu á að fara vel yfir hvað hentar hverjum viðskiptavini best. Aukið framboð á beinu flugi á milli Íslands og Alicante hefur líka mikið að segja um áhuga fólks á fasteignakaupum á Costa Blanca svæðinu og við höfum tekið eftir því að fólk er í auknum mæli að selja eignirnar sína á Flórída og færa sig yfir til Spánar.“

Ný vefsíða

„Nýlega settum við í loftið nýja heimasíðu, spanareignir.‌is, þar sem við leggjum áherslu á að kynna fjölbreytt úrval af sérvöldum eignum og skoðum vel allar eignir sem þar fara inn til að tryggja að þær standist okkar kröfur um það sem við viljum bjóða viðskiptavinum okkar. Við staðsetjum líka eignirnar inn á kort af svæðinu, þannig að viðskiptavinurinn sjái staðsetninguna.

Spánareignir eru í samstarfi við alla helstu byggingaraðilana á svæðinu og tryggir það viðskiptavinum okkar góða yfirsýn yfir allt það helsta sem er í boði hverju sinni. Það er nauðsynlegt til að hægt sé að velja bestu eignina fyrir hvern og einn. Viðskiptavinir okkar kaupa eignina beint af byggingaraðilanum, en ekki í gegnum breskar eða spænskar fasteignasölur sem milliliði, það tryggir hagstæðasta verðið og bestu þjónustuna.

Góðar upplýsingar

Á heimasíðunni okkar er einnig að finna góðar upplýsingar um kaupferlið, lánamöguleika og hvernig best er að vinna það. Við aðstoðum viðskiptavini okkar í gegnum allt það ferli, greiðslumat og fleira og erum í samstarfi við góða lögfræðistofu á Spáni sem gætir hagsmuna viðskiptavina okkar í einu og öllu. Það er líka ákveðið öryggi í því að hafa löggiltan íslenskan fasteignasala sér við hönd í ferlinu.

Við laumum líka stundum inn á heimasíðuna ýmsum áhugaverðum fréttum, ábendingum um góða veitingastaði, golfvelli eða jafnvel spænskum mataruppskriftum. Þarna nýtist menntun og áralöng reynsla starfsfólks Spánareigna, fagmennska og traust, viðskiptavinum okkar vel enda eru ánægðir viðskiptavinir okkar besta auglýsing,“ segir Aðalheiður og ítrekar að fasteign á Spáni sé langtímafjárfesting í lífsgæðum.

Nánar upplýsingar má skoða á www.spanareignir.is