„Það er stórkostlegt fyrir Gerðarsafn að fá þessa tilnefningu. Hún hvetur okkur til dáða og að halda áfram að miðla myndlist á lifandi hátt. Það er vitaskuld dásamlegt að eftir því sé tekið,“ segir Brynja Sveinsdóttir, safnstjóri Gerðarsafns í Kópavogi.

Brynja segir listina vilja tala við fólk.

„Söfn eru full af listaverkum sem eiga erindi, og vilja eiga erindi við mannfólkið. Ég hugsa oft um söfn sem fyrirmyndarvettvang fyrir skoðanaskipti, upplifanir, túlkun og tjáningu. Listaverk geta nefnilega hjálpað fólki við að sleppa tökum á þörfinni fyrir að skilja allt hundrað prósent því það er tilhneiging að vera gramur yfir því að skilja ekki merkingu listaverka. Listaverk geta hins vegar hjálpað okkur að opna hugann, leyfa honum að reika og verða fyrir áhrifum; miklu frekar en að það sé bara eitt svar.“

Þarf ekki að óttast samtímalist

Gerðarsafn er framsækið nútíma- og samtímalistasafn þar sem lögð er áhersla á að efla áhuga, þekkingu og skilning á myndlist með sýningum, fræðslu og annarri miðlun. Í mati valnefndar eru nýjar áherslur safnsins einmitt taldar íslensku samfélagi og safnaumhverfi til framdráttar.

„Við leggjum áherslu á að gera samtímalist aðgengilega. Sýningarnar eru gjarnan framúrstefnulegar því okkur þykir spennandi að miðla því sem sumum þykir torskilið eða óaðgengilegt; að opna það og heilla í gegnum hrífandi viðburðadagskrá. Oft er talað um að skilningur og merking eigi sér stað mitt á milli listamanns og þess sem upplifir, og listasöfn geta sannarlega hjálpað fólki að túlka á sinn hátt. Þau eiga heldur ekki að vera einstefnugata þar sem er prédikað yfir fólki hvað því á að finnast, heldur á þvert á móti að leyfa fólki að skynja eigin merkingu í verkunum.“

Unglingar sérfræðingar safnsins

Brynja segir listasöfn skemmtileg. Reyndar mjög skemmtileg.

„Mörgum þykir ógnvænleg tilfinning að fara á safn og finnst yfirbragðið hátíðlegt, en við reynum að sýna fram á að safn geti verið lifandi og afslappaður staður. Það má meira að segja hlæja að listaverkum og það þarf enginn að læðast um þegjandi á listasöfnum; maður má verða bæði ringlaður, glaður og tapa áttum. Það er hluti af því að skoða myndlist á skapandi stað þar sem er eðlilegasti hlutur í heimi að vita ekki svörin. Fólk þarf að mega að láta listina hafa áhrif á sig, hvort sem það er til góðra verka eða sköpunar, og listaverk geta vakið upp tilfinningar því maður tekur úr augnablikinu alla sína reynslu, hvernig manni leið þann daginn, eða jafnvel veðrið sem getur breytt sýn manns á listaverkin.“

Í verkefninu Í takti tókst Gerðarsafni sérlega vel upp, þar sem markmiðið var að gera safnið unglingavænna og stofna sérstakt unglingaráð safnsins.

„Verkefnið er algjör draumur, unnið í samstarfi við unglinga í Vinnuskóla Kópavogs og leitt af Salvöru Gullbrá Þórarinsdóttur og Helga Grími Hermannssyni sviðshöfundum. Við fengum styrk frá Barnamenningarsjóði og Safnasjóði til að vera með fræðslu fyrir hóp unglinga sem urðu í fyrrasumar starfsmenn Gerðarsafns og titluðu sig Grakkana – ungmennaráð Gerðarsafns. Þá kynntust þau myndlist, prófuðu að skapa eigin verk, heimsóttu söfn og smiðjur spennandi listamanna á ólíkum sviðum, héldu sýningu og viðburðadagskrá. Þetta stendur aftur til í sumar en hugmyndin er að unglingarnir fái að stjórna hvernig myndlist er miðlað til þeirra aldurshóps, í stað þess að við finnum leiðir til að tala til þeirra,“ útskýrir Brynja og hlakkar mikið til sumarsins með unglingunum.

Myndlist er lifandi vettvangur

Í þróun er nýr liður í fræðslustarfi Gerðarsafns sem kallast Myndlist á mannamáli.

„Það eru vikulegar færslur á samfélagsmiðlum og heimasíðu safnsins. Við höfum undanfarin tvö ár deilt safneigninni á samfélagsmiðlum, sem við köllum Safneign á sunnudegi. Þar setjum við inn spennandi glefsur þar sem við segjum frá verkum í léttum dúr, tilurð þeirra og tengingum við samfélagið. Til að útvíkka þetta höfum við búið til hugtakabanka í tengslum við myndlist en markmiðið með því er að lækka þröskuldinn fyrir almenning til að nálgast listaverk, skilja þau og túlka. Þetta er skemmtilegt grúsk í myndlist og við finnum á miklum viðbrögðum við færslum okkar á samfélagsmiðlum að fólk hefur mikinn áhuga á að bregðast við myndlist þegar hún er sett fram á lifandi hátt,“ segir Brynja.

Nýlega fékk safnið styrk frá Safnasjóði til að halda áfram útvíkkun á starfsemi og fræðslustarfi.

„Við erum alltaf að hugsa um að gera safnið að áfangastað fyrir alla og upphugsa viðburði fyrir hvern hóp fyrir sig. Á næstunni verðum við með viðburði fyrir fólk af erlendu bergi brotnu í samstarfi við Helenu Aðalsteinsdóttur og Þórhildi Tinnu Sigurðardóttur undir yfirskriftinni Komdu’inn, þar sem verður skapað virkt samtal við ólíka hópa samfélagsins. Við viljum gera Gerðarsafn að samkomustað þar sem allir fá notið sín og geta fundið sýningar og fræðslustarf við hæfi.“

Sjá meira á gerdarsafn.is