Mikill áhugi er á listasmiðjum fyrir börn sem tveir öflugir sumarstarfsmenn hafa séð um í sumar. Þetta er fyrsta sumarið sem smiðjurnar eru starfræktar, og aðsóknin hefur farið fram úr öllum björtustu vonum. Guðný Sara Birgisdóttir, hönnuður og verðandi nemi í listkennslufræði, hefur umsjón með starfinu og henni til aðstoðar er Birna Berg, tónlistarkona og framhaldsskólanemi.

„Við erum með listasmiðjur tvisvar í viku, þriðjudaga og miðvikudaga frá klukkan 14-16. Ekki þarf að skrá sig til leiks, heldur eru smiðjurnar opnar öllum og eru ókeypis, en þær verða haldnar út júlí,“ segir Guðný. Yngri börn eru einnig velkomin í fylgd með fullorðnum.

„Í smiðjunum leggjum við áherslu á að horfa til sköpunarferlis frekar en endilega lokaútkomu, sem er liður í því að styðja við skapandi uppeldi og sjálfsöryggi í sköpun. Þegar krakkar verða eldri er hætt við að þeir hætti að geta bullað og leikið sér og verði óöruggir, finnst þeir kannski ekki nógu flinkir að teikna eða búa til skapandi verk. Í smiðjunum viljum við sporna við þessu, því það er engin rétt eða röng leið í listsköpun,“ bendir hún á.

Guðný segir að í smiðjunum sé einblínt á hvað það sé gaman að skapa og það þurfi ekki að vera flókið. MYND/AÐSEND

Guðný sækir í reynslubanka frá því hún vann við smiðjur í öðru bæjarfélagi og segir þetta starf gott framhald af því.

„Við einblínum á hvað það er gaman að skapa og það þarf ekki að vera eitthvað flókið,“ segir hún. Hugað er að umhverfismálum, enda eru börn í dag vön endurvinnslu og sjálfbærni. „Við notum því gjarnan óhefðbundinn efnivið, sem finnst jafnvel heima við, því það þarf ekki alltaf að fara út í búð og kaupa eitthvað nýtt. Við notum til dæmis plastrusl og grænmetisafskurð til að búa til form, eða sækjum lauf og greinar og leikum okkur með það,“ segir Guðný með bros á vör.

Hún nefnir að yfirlitssýning á verkum Kristínar Þorkelsdóttur, sem nú stendur yfir í Hönnunarsafninu, veiti bæði börnunum og þeim Birnu mikinn innblástur. „Við horfum til þess sem Kristín hefur gert, og notum til dæmis kartöflur til að búa til stimpla, en þá er skorin út mynd í kartöflu og hún máluð og síðan notuð sem stimpill. Þetta hvetur börnin líka til að skoða sýninguna og spá í verk Kristínar,“ segir Guðný. Þegar hún er spurð hvort smiðjurnar hafi verið eftirsóttar í sumar kemur í ljós að svo hefur verið. „Já, það er búið að vera mikið að gera í sumar. Smiðjurnar hafa spurst vel út og vakið mikla lukku á meðal barnanna. Það er svo gaman fyrir þau að láta sköpunargáfuna njóta sín og mörg þeirra koma með vini sína í næsta sinn sem þau mæta. Markmiðið er að sýna börnunum hvað hægt er að gera úr hinum ýmsu hlutum og gefa þeim verkfæri til að nýta sér þá þekkingu áfram í lífinu,“ segir Guðný.

Nánari upplýsingar má fá á vefsíðunni honnunarsafn.is