„Mikil gróska er í myndlistinni þessa dagana og gaman að sjá hve margt nýtt og ungt listafólk er að hasla sér völl í senunni. Það er ekki síður gaman að sjá hve fólk vinnur að listsköpun sinni í fjölbreytta miðla. Nú á tímum má allt og listafólkið sem selur hjá í galleríinu vinnur jafnt í teikningu, málun, stafrænni tækni, ljósmyndum, keramík, textíl og fleiru. Í Gallerí Fold ættu því sannarlega allir að finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Maddý Hauth, sýningarstjóri gallerísins.

„Hér fyrir nokkrum árum voru ýmiss konar smáverk vinsæl gjafavara en þróunin hefur verið sú að fólk vill frekar færri og stærri verk og þá verða alls konar prentverk oft fyrir valinu. Við eigum til að mynda alltaf prent í takmörkuðu upplagi eftir Kristjönu Williams, Harald Bilson og fleiri listamenn sem eru mjög vinsæl, jafnt í gjafir sem og í beinni sölu inn á heimili fólks. Öllum verkum sem keypt eru í beinni sölu er svo velkomið að skipta og því hafa þiggjendur úr miklu að velja ef verkin falla ekki að smekk þeirra,“ segir Jóhann Ágúst Hansen, framkvæmdastjóri Gallerís Foldar.

Jóhann Ágúst Hansen er framkvæmdastjóri Gallerís Foldar. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Gjafabréf láta drauma rætast

Í Gallerí Fold er einnig hægt að fá gjafabréf að hvaða upphæð sem er.

„Það er ekki síðri kostur,“ segir Jóhann. „Gjafabréf Gallerís Foldar renna aldrei út og þau má nota jafnt í ný verk, á uppboðum þar sem eldri perlur koma aftur á markaðinn eða í innrömmun. Þá nota margir gjafabréf til að kaupa stærri og dýrari verk en annars hefði verið möguleiki.“

Jóhann Ágúst bendir á að oft hafi fólk lengi dreymt um að eignast stærri verk eftir ákveðna listamenn, til dæmis olíu- eða vatnslitaverk.

„Það hefur svo ekki endilega passað inn í heimilisbókhaldið á hverjum tíma, en gjafabréf getur brúað bilið og gert fólki kleift að láta drauminn rætast,“ segir Jóhann og tekur fram að það sé afskaplega gaman að hjálpa fólki að finna rétta verkið enda sé list svo persónuleg upplifun á margan hátt.

Þá býður galleríið fólki einnig að kaupa verk með kaupleigufyrirkomulagi sem er algjörlega vaxtalaust.

Gjafir oft nýttar í stærri verk

Jóhann greinir frá því að sum fyrirtæki hafi fyrir sið að gefa öllum starfsmönnum verk eftir sama listamanninn við ákveðin tækifæri, svo sem stórafmæli eða hjónavígslu.

„Þá verður oft þekktur og vinsæll listamaður fyrir valinu sem flestir eru ánægðir með. Sumir starfsmennirnir hafa þó nýtt gjöfina sem innborgun á stærri verk sem þeir hefðu kannski annars ekki haft ráð á. Við leggjum mikið upp úr þessum sveigjanleika og tökum vel á móti öllum.“ ■

Gallerí Fold er á Rauðarárstíg 12-14. Sími 551 0400. Netfang fold@myndlist.is. Skoðið úrval listaverka hjá Gallerí Fold á gallerifold.is