Auður Kristín er fyrrverandi landsliðsmaður í skíðagöngu. Hún hefur alltaf hreyft sig mikið þótt það hafi orðið örlítið minna á meðan börnin hennar voru lítil. Nú segist hún hafa meiri tíma fyrir sjálfa sig enda hafa börnin stækkað. „Ég var alltaf á fullu að sinna íþróttaiðkun barnanna minna ásamt því að vinna úti,“ segir hún. „Ég var mjög liðtæk í alls konar félagsstörfum, bæði í kringum skíðaíþróttina og fótboltann hjá krökkunum. Það var dýrmætur tími sem ég átti með börnunum en á meðan sat ég kannski á hakanum,“ útskýrir hún.

„Vinkona mín stundaði líkamsrækt hjá Hilton Reykjavík Spa en við erum æfingavinkonur. Mér datt í hug að prófa einn mánuð fyrir nokkrum árum og sjá hvernig mér myndi líka. Ég er þar enn,“ segir Auður. „Mér hefur líkað mjög vel og fer að jafnaði þrisvar í viku, stundum fjórum sinnum yfir sumartímann. Ég fer alltaf í salinn og þjálfari leiðbeinir mér. Stöku sinnum fer ég einnig í hóptíma. Það eru mjög flottir tímar í boði, verst að ég er í svo mörgu og hef ekki nægilegan tíma. Vildi gjarnan vera meira í hóptímum eins og jóga. Það verður bara að bíða betri tíma. Á þessum árstíma er mjög mikið að gera í skíðakennslu hjá mér,“ segir Auður sem stundar líkamsræktina eftir vinnu á daginn.

Persónulegt umhverfi

„Ég hlakka alltaf til að fara í ræktina og það er algjör lúxus að vera í Hilton Reykjavík Spa. Ég er allan daginn að kenna börnum sem íþróttakennari og finnst voða gott að koma í salinn og fá þjálfara til að segja mér hvað ég eigi að gera. Lyftingarnar hjálpa mér varðandi skíðagöngu og hjólreiðar. Þær eru gríðarlega góður grunnur og bæta mig í öðrum greinum. Líkaminn styrkist mikið við lyftingar,“ segir Auður. „Ég á það til að fara fram úr mér í æfingum og þá er mjög gott að hafa þjálfara til að stoppa mig af. Það er ekki gott að ofþjálfa og þess vegna er aðhaldið frábært.

Hilton Reykjavík Spa er lítil, þægileg og persónuleg stöð. Gulrótin er síðan að fá axlanudd í heitum potti eftir æfingar. Það er hægt að venjast því mjög fljótt og mann langar aftur og aftur. Sú afslöppun er æðisleg. Líkamsræktin hjá mér er lífsstíll. Ég er ekkert að búa mig undir keppni eða þess háttar. Vil bara að mér líði vel. Í Hilton Reykjavík Spa finn ég mikla fagmennsku og mér finnst gott að koma þangað. Einnig kynnist maður mörgum en þarna er mjög vinalegt og gott andrúmsloft,“ segir Auður en Guðbjartur Halldór Ólafsson, eða Bjartur eins og hann er kallaður, hefur þjálfað hana.

Algjör sprengikraftur

„Auður kom til okkar fyrir fjórum árum. Hún hefur komið þrisvar í viku og við höfum verið að vinna með hámarksstyrk og sprengikraft ásamt vöðvauppbyggingu. Hún er afrekskona úr íþróttum og vel á sig komin. Auður hefur verið öflug að lyfta. Það er mjög gott fyrir svona virka manneskju að æfa lyftingar, mikilvægt að byggja upp vöðvamassa og auka styrk hjá þeim sem eru mikið í skíðagöngu og að hjóla,“ útskýrir Bjartur.

Hann segir að þegar nýir meðlimir komi í stöðina sé farið yfir hvað henti viðkomandi best. „Það er ekki fyrir alla að byrja á erfiðum lyftingum í upphafi þjálfunar. Oft þarf að bygga sig upp fyrst. Einnig viljum við að fólk stundi fjölbreytta líkamsrækt svo þetta verði skemmtilegt. Við erum með skemmtilega hóptíma, til dæmis jóga, en það er einmitt mjög gott að blanda styrktaræfingum í sal með öðru. Reyndar er jóga á móti lyftingum frábær blanda,“ segir hann.

Fjölbreytileiki skiptir máli

„Þjálfararnir hér í Hilton Reykjavík Spa benda fólki á heppilegar æfingar ef það hefur til dæmis orðið fyrir einhvers konar meiðslum. Þá byrjum við á því að byggja upp en meðlimir stöðvarinnar eru undir handleiðslu þjálfara frá fyrsta degi. Einnig sjáum við um að búa til einstaklingsmiðað prógramm og fylgjum því eftir með viðkomandi. Við breytum planinu reglulega þannig að fólk sé ekki alltaf að gera sömu æfingarnar. Þannig getum við unnið með vöðvauppbyggingu og styrktaræfingar. Fjölbreytileikinn skiptir miklu máli. Við viljum endilega að fólk prófi sig áfram með sem flest hjá okkur en margt skemmtilegt er í boði,“ segir hann.

„Við fylgjumst alltaf með að fólk sé að gera hlutina rétt. Í lok tímanna erum við með frábæra heita potta með herðanuddi og einnig kaldan pott. Þar fær fólk nauðsynlega hvíld en þar byrjar uppbyggingin eftir þjálfunina. Einnig erum við með litla kaffistofu sem margir nýta sér eftir æfingar. Þar hafa myndast góðir vinahópar og má segja að kaffistofan sé eins og lítil félagsmiðstöð. Þótt fólk sé á öllum aldri hjá okkur er stærsti hópurinn á miðjum aldri og eldri. Elstu viðskiptavinir okkar eru komnir yfir áttrætt. Við bjóðum upp á persónulega þjónustu í notalegu umhverfi og viljum að fólki líði vel hér. Einnig erum við með snyrti- og nuddstofu í hæsta gæðaflokki.“

Hilton Reykjavík Spa er að Suðurlandsbraut 2, sími 444 5090. Nánari upplýsingar má finna inn á heimasíðunni hiltonreykjavikspa.is