Sesselja Hreindís skildi og vann með náttúrunni. Það sést á öllum hennar verkum og arfleifðinni sem hún skildi eftir sig á Sólheimum. „Fyrir mig í dag sem matreiðslumeistara, eru það hrein forréttindi að fá að vinna með það sem ræktað er hérna á staðnum. Geta gert súpu úr því sem garðyrkjufólkið kemur með á hverjum degi. Vitandi að í því er ekkert nema spriklandi hollusta,“ segir Dóra Svavarsdóttir, matreiðslumeistari á Sólheimum.

„Þó svo að það sé ekki eldað kjöt og kartöflur í hvernum, líkt og var hér í upphafi, þá spilar jarðhitinn stórt hlutverk. Hann gerir það að verkum að tómatar, eggaldin, kúrbítur, epli, laukar og um það bil allt sem hugurinn girnist, getur dafnað hér í gróðurhúsunum. Það hefur verið hlúð að plöntunum líkt og mannfólkinu hér á staðnum, með natni og smá húmor. Við í eldhúsinu fáum það í hendur og nýtum í mat handa íbúum og starfsfólki Sólheima. Alla daga geta gestir og gangandi keypt sér súpu og nýbakað brauð. Kaffilyktin lokkar, enda ristum við kaffið okkar sjálf og með því er upplagt að fá sér kökusneið eða vöfflu með sultu og rjóma,“ segir hún.

„Eldhúsliðið tekur síðan allt þetta dásamlega grænmeti og býr til arfapestó, gúrku-relish, þurrkaða tómata í olíu, sýrðar gúrkur, sultur og ýmislegt fleira, allt eftir því hvað hefur vaxið mest síðustu dagana. Þetta er allt til sölu í búðinni okkar og getur glatt bragðlaukana þegar heim er komið og er upplagt sem tækifærisgjöf fyrir vini og ættingja sem eiga allt.

Það er fátt skemmtilegra en að gefa fólki að borða, diskaglamur og vellíðunaruml er góðs viti fyrir okkur kokkana. Besta hrósið er ef það er alveg þögn fyrst þegar fólkið fær að borða. Svo kemur hláturinn og skemmtisögurnar úr hversdagslífinu hérna á Sólheimum,“ segir Dóra og gefur hér góða uppskrift.

Arfapestó Sólheima

200 g haugarfi

50 g basilíka

3 dl repjuolía

2 hvítlauksgeirar

2 tsk. salt

¼ tsk. svartur pipar

100 g kasjúhnetur

Setjið allt í matvinnsluvél, nema hneturnar, og maukið saman.

Bætið hnetunum út í og maukið áfram, passið að hneturnar fari ekki alveg í mauk. Njótið með góðu brauði.

Tómat-paprikusúpa

Fyrir 5

1 laukur, saxaður

1 tsk. timian

3 hvítlauksgeirar, saxaðir

Svartur pipar

½ kg plómutómatar, skornir í tvennt

2 rauðar paprikur, kjarnhreinsaðar og skornar gróft

1 grein rósmarín

½ lítri vatn

1 gulrót, fínt skorin

½ kúrbítur, fínskorinn

Salt og pipar

Laukurinn er svitaður í potti ásamt pipar, timiani og hvítlauknum. Tómötunum bætt út í ásamt paprikunni, vatni og rósmaríngrein, soðið rólega í 25 mínútur, vatni bætt út í ef þurfa þykir.

Veiðið rósmaríngreinina upp úr og maukið súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél.

Smakkið til með salti og pipar, setjið fínt skorið grænmetið út í og sjóðið upp á súpunni og berið fram með söxuðum kryddjurtum.