Kristján, ásamt konu sinni Dóru Ruf, hefur stundað mjólkurframleiðslu að Neðra-Hálsi frá árinu 1984 en árið 1996 fengu þau lífræna vottun á mjólkurframleiðslu sína. „Það að vera komin með vottaða lífræna mjólk gaf þeim hjónum tækifæri til að skapa sérstöðu á markaði, þar sem engar lífrænar mjólkurafurðir var hægt að fá í búðum hérlendis,“ segir Helgi Rafn Gunnarsson, einn eigenda Biobús og framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Stofnun og framleiðsla Biobús

Fyrstu vörur Biobús, lífræn jógúrt, fóru á markað 3. júní 2003. „Starfsemin hófst í 100 fm húsi í Stangarhyl en framleiðslan sprengdi húsnæðið utan af sér 2006. Þá var fjárfest í 500 fm húsnæði við Gylfaflöt í Reykjavík. Í dag er Biobú elsta starfandi mjólkurbúið á landinu fyrir utan MS,“ segir Helgi.

Helstu vörur Biobús hafa verið sýrðar mjólkurafurðir svo sem jógúrt í ýmsum bragðtegundum og svo skyr, ostur og drykkjarmjólk. Biobú var einnig fyrst á markað með Gríska jógúrt sem notið hefur mikilla vinsælda hjá íslenskum og erlendum neytendum.

„Lífrænu vörur Biobús eru frábrugðnar hefðbundnum mjólkurvörum að því leyti að þær eru framleiddar úr ófitusprengdri lífrænni mjólk. Meginreglan er sú að vinna matvælin sem minnst og halda þeim eins náttúrulegum og kostur er.“

Ólafur Magnússon hefur þó í baráttu sinni við MS verið duglegur að vekja athygli á mikilvægi samkeppni, ekki bara í mjólkuriðnaðinum heldur í öllu.

Framtíðarsýn

Á allra síðustu misserum tóku eigendur Biobús þá ákvörðun að breyta vörumerki Biobús. „Stefnan var sett á að útvíkka starfsemi fyrirtækisins með það að markmiði að bjóða neytendum upp á fleiri lífrænar vörur. En nýlega hófum við hjá Biobú sölu og dreifingu á lífrænu nautakjöti. Starfsmönnum Biobús hefur fjölgað jafnt og þétt frá því að vera tveir starfsmenn í upphafi upp í 9-10 manna vinnustað eins og hann er í dag.“

Á starfstíma Biobús hefur neysla lífrænna mjólkurvara aukist jafnt og þétt, og telur nú um liðlega 30 prósent á ári að sögn Kristjáns. „Undanfarin misseri hefur verið skortur á lífrænni mjólk til framleiðslunnar. Það stendur þó til bóta þar sem von er á nýjum framleiðanda á lífrænni mjólk. Eyði Sandvik í Sandvíkurhreppi framleiðir um 400 þúsund lítra á ári en fyrir tekur Biobú mjólk frá Neðra-Hálsi í Kjós, Búlandi í Landeyjum og Skaftholti í Gnúpverjahreppi, sem samsvarar samtals um 430 þúsund lítrum á ári. Aukið magn gefur möguleika á að þróa lífrænan mjólkurvörumarkað enn frekar með fleiri vörutegundum, neytendum og umhverfinu til hagsbóta,“ segir Helgi.

Samkeppni er ætíð af hinu góða

Helgi segir samkeppnisumhverfið í mjólkuriðnaðinum í dag henta fyrirtækinu. „Það er engin samkeppnishindrun frá MS að stofna mjólkurbú í dag og var heldur ekki 2002 þegar Biobú var stofnað. Það getur hver sem er gert það. Ólafur Magnússon hefur þó í baráttu sinni við MS verið duglegur að vekja athygli á mikilvægi samkeppni, ekki bara í mjólkuriðnaðinum heldur í öllu,“ segir Helgi að lokum.