Að sögn Inga Þórs Jónssonar, markaðsstjóra hjá Heilsustofnun, var stofnunin einn af frumkvöðlunum hérlendis í lífrænni ræktun.

„Frá upphafi hafa sjálfbærni­sjónarmið einnig verið mjög ríkjandi í starfseminni þó það hafi ekki verið búið að finna upp þetta hugtak,“ segir Ingi Þór, en Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði hefur starfað frá árinu 1955.

„Það skiptir miklu máli til framtíðar að tileinka sér sjálfbærni. Við höfum gert það meðvitað og ómeðvitað frá upphafi. Við erum það heppin að við búum yfir okkar eigin orku að hluta til, sem eru tvær borholur sem hita upp öll húsin okkar, samtals 12.000 fermetra. Þar með talin gróðurhús,“ segir hann.

„Á Heilsustofnun koma árlega um 1.350 einstaklingar í endurhæfingu og dvelja hér í fjórar vikur að meðaltali. Í grunninn er boðið upp á mjög fjölbreytt og heilsusamlegt grænmetisfæði, myndarlegan salatbar ásamt girnilegum aðalréttum og súpum. Þetta er mjög hrein fæða og við notum ekki hvítan sykur eða hvítt hveiti, þannig hefur það alltaf verið hér. Fjölbreyttur, bragðgóður matur úr heilnæmu hráefni og fiskur er á boðstólum tvisvar í viku.“

Á Heilsustofnun í Hveragerfði hefur verið lögð mikil áhersla á sjálfbærni frá upphafi og grænmeti til matargerðar er ræktað á staðnum.

Næring mikilvæg

Ingi Þór segir að lífræn ræktun og endurhæfing fari vel saman.

„Kjörorð okkar er að bera ábyrgð á eigin heilsu. Í því felst að sinna bæði líkamlegri og andlegri heilsu. Við erum með fjölbreytta endurhæfingu hér á Heilsustofnun. Geðendurhæfingu, gigtarendurhæfingu, hjarta- og lungnaendurhæfingu, krabbameinsendurhæfingu, öldrunarendurhæfingu, tauga- og bæklunarendurhæfingu, offitu- og efnaskiptameðferð, streitumeðferð og verkjameðferð. Næringarþátturinn er mjög stór þáttur í heilsu og mikilvægur í allri endurhæfingu,“ segir hann.

„Undanfarin ár höfum við lagt áherslu á að rækta fleiri tegundir af grænmeti til að bjóða upp á hér á Heilsustofnun, en við erum ekki að framleiða á markað eins og áður. Hugsunin bak við það er að geta boðið upp á fjölbreyttara, lífrænt ræktað grænmeti fyrir okkar dvalargesti. Við höfum meðal annars verið að bæta við ýmiss konar salati, hnúðkáli, kúrbít og fleiri tegundum sem henta vel í matargerð. Einnig er leitast við að kaupa íslenskt grænmeti í heimabyggð. Fólk er sífellt að verða meðvitaðra um það hvað góð og holl næring skiptir miklu máli. Lífræn ræktun spilar stórt hlutverk þar.“

Ingi segir að auk heilnæmrar, lífrænnar fæðu spili umhverfi Heilsustofnunar stórt hlutverk í endurhæfingunni.

„Fólk nýtur þess að vera úti í náttúrunni, en við erum með skipulagðar gönguferðir sem hluta af endurhæfingunni. Hér á lóðinni hafa verið gróðursettar þúsundir trjáa og umhverfið er aðlaðandi. Hér er því kjörið að næra bæði líkama og sál.“


Hollvinasamtök Heilsustofnunar hafa stutt Heilsustofnun og fjármagnað kaup á ýmsum tækjum og búnaði. Hér taka Aðalheiður Einarsdóttir, sjúkraliði, Stefanía Sigurjónsdóttir, deildarstjóri hjúkrunar, Þorkell Guðbrandsson, hjartalæknir og Ingi Þór Jónsson, markaðsstjóri, við ABPM sólarhringsblóðþrýstingsmæli frá Welch Allyn.