Hilmar Snær er á 21. ári og stundar nám í læknisfræðilegri verkfræði við Háskóla Íslands. Auk skíðamennskunnar stundar hann golf á sumrin og æfir CrossFit með því.

Hilmar kynntist þjónustu Össurar fyrir rúmum tíu árum í kjölfar þess að hann greindist með krabbamein í hné. „Eftir að ég greindist með krabbamein árið 2009 var frekar ljóst að ég þyrfti á gervifæti að halda. Þá var haft samband við Össur og síðan þá hef ég gengið um á gervifæti frá Össuri.“

Vörurnar sem Hilmar notar

Hilmar rifjar upp fyrstu vöruna sem hann fékk frá Össuri. „Fyrsta varan sem ég fékk frá Össuri var gervifótur með Vari-Flex® ökkla,“ segir hann. „Núna er ég á gervifæti með Pro-Flex® ökkla og labba á honum á sumrin, hann hefur reynst mér vel þar sem ég geng mikið í golfi og að hafa góðan gervifót minnkar álagið.“

Á skíðunum notar Hilmar sérstakar hlífar til þess að verja hendurnar. „Guðmundur stoðtækjafræðingur og Jóhannes stoðtækjasmiður útbjuggu fyrir mig sérhannaðar hlífar á hendurnar sem hafa nýst mér mjög vel og ég hef notað mikið á skíðum, en hlífarnar verja mig fyrir marblettum og frekari meiðslum.“

Utan íþrótta notar Hilmar sérstakan hlaupafót sem komið hefur að góðum notum undanfarið ár. „Ég nota hlaupafót með Cheetah-fjöðrinni. Hlaupafóturinn hefur nýst mér sérstaklega vel þegar þurft hefur að loka líkamsræktarstöðvum í COVID.“

Hilmar Snær er afreksmaður á skíðum en hann stundar einnig golf og Crossfit af miklu kappi.

Verðlaun og viðurkenningar

Hilmar varð í fyrra fyrstur Íslendinga til að vinna Evrópumótaröð IPC í alpagreinum. Hann segir árangurinn afar ánægjulegan. „Það var markmið vetrarins og góð tilfinning að hafa náð því.“

Þá var hann valinn íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra í fyrra, en hann segir viðurkenninguna mikils virði. „Það var mikill heiður og mjög gaman að fá að vera fyrirmynd annarra íþróttamanna í mínum sporum.“

Hilmar segir vörurnar frá Össuri hafa haft gríðarlega mikla þýðingu fyrir sig. „Vörurnar frá Össuri hafa aukið lífsgæði mín til muna. Gervifóturinn er það fyrsta sem ég fer í á morgnana og það seinasta sem ég geri á kvöldin er að fara úr fætinum.

Líf mitt væri allt öðruvísi ef ég ætti ekki svona góðan gervifót. Ég er mjög þakklátur fyrir allan stuðninginn og þjónustuna sem Össur hefur veitt mér síðustu tólf árin.“