Samkaup hlutu Menntasprota atvinnulífsins árið 2020 og Menntaverðlaun atvinnulífsins fyrr á þessu ári.

Hjá Samkaupum er lögð áhersla á jafnrétti í víðu samhengi og vellíðan fólks í vinnu og hlaut fyrirtækið Hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2021. „Það er enginn eyland í þessum heimi og að baki hverjum og einum er auðvitað öflugt teymi og hjá Samkaupum er gríðarlega öflugt mannauðsteymi sem byggir á mismunandi styrkleikum, en í grunninn er fyrirtækinu mjög umhugað um starfsfólkið,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs Samkaupa. „Í gegnum allt sem við gerum skín í gegn þessi kærleiki gagnvart fólki. Og þegar teymið byggir á því þá verður allt annað betra. Það er línan sem við höfum haldið.

„Við settum upp heildræna menntastefnu sem miðar að því að geta mætt hverjum einstaklingi þar sem hver og einn fær tækifæri til að mennta sig samhliða vinnu í takti við hið formlega menntakerfi,“ segir Gunnur.

Við erum með mjög sterka mannauðsstefnu sem byggir á ákveðnum grunngildum og fjórum stórum stoðum í okkar grunnstefnu, sem skipta okkur miklu máli. Og við horfum til þessara stefnustoða í öllu því sem við gerum: Það er í fyrsta lagi öflug framlína, í öðru lagi að það sé skýr og skilvirk stefna á öllum sviðum, í þriðja lagi að það sé skilvirkt og skýrt upplýsingaflæði og góð samskipti innan fyrirtækisins og svo í fjórða lagi að það séu skýrar ákvarðanir teknar með velferð fólksins okkar í huga sem við segjum að sé öflugasta framlína landsins. Og öflugasta fólk landsins. Við sem erum í mannauðsmálum erum í raun og veru í algjörri stoðþjónustu við þetta: Svið okkar vinnur fyrir verslanirnar en Samkaup starfrækja 65 verslanir úti um allt land og það er okkar að styðja við allt þetta fjölbreytta fólk sem er þar til staðar, sem er hátt í 1.500 manns. Það er virkilega gaman að vinna í þessum málum og með svo öflugu teymi.“

Útskrift úr leiðtoganámi Samkaupa 2022 í samstarfi við Háskólann á Bifröst.

Nám með vinnu

Samkaup eru með skýra menntastefnu sem snýr að því að mæta bæði störfum nútíðarinnar og störfum framtíðarinnar. „Við settum upp heildræna menntastefnu sem miðar að því að geta mætt hverjum einstaklingi þar sem hver og einn fær tækifæri til að mennta sig samhliða vinnu í takti við hið formlega menntakerfi. Fólk getur farið í raunfærnimat og fengið það sem það lærir á vinnustaðnum metið til framhaldsskólaeininga. Bæði það sem það lærir á vinnustaðnum sjálfum og í gegnum rafrænan fræðsluvettvang Samkaupa. Þá getur það farið í fagnám í verslun og þjónustu við Verzlunarskóla Íslands og fengið fagbréf í verslun og þjónustu, sem vegur vonandi þungt í kjarasamningum verslunarfólks af því að það gerir viðkomandi að menntuðum einstaklingi í þjónustu, framlínu og verslunarfræðum. Fólk getur svo bætt við sig námi; klárað stúdentspróf, farið áfram í diplómanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun og tekið BS-nám í viðskiptafræði. Þá er hægt að bæta við sig leiðtogafræðum Samkaupa í samstarfi við Háskólann á Bifröst en Samkaup eru eina fyrirtækið á Íslandi sem starfrækir leiðtoganám á háskólastigi. Allt þetta myndar heildræna menntastefnu og heildræna nálgun á að starfsfólk Samkaupa geti vaxið innan frá; allt frá framhaldsskóla og upp í háskóla og svo styrkjum við fólk reyndar áfram líka í meistaranám. Þannig að starfsfólk fær bæði sveigjanleika í vinnunni, það fær skólagjöldin greidd og með fram þessu blómstrar fólk í sinni starfsþróun innan fyrirtækisins.“

Af um 1.500 starfsmönnum Samkaupa eru um 100 í námi á vegum fyrirtækisins og segir Gunnur að það fólk sé á öllum aldri eða á bilinu 20 til 65 ára. Frá því að þessu var komið á hefur starfsmannavelta minnkað.

„Ég held að það komi skýrt í ljós og sanni að í gegnum þau verðlaun sem við höfum unnið, bæði þegar við unnum Menntasprotann árið 2020 fyrir nýsköpun í menntun í atvinnulífinu og svo núna 2022 sem menntafyrirtæki ársins, að það er enginn að gera þetta eins vel og við; Samkaup eru það fyrirtæki sem er leiðandi í mennta- og fræðslumálum. Við erum einu skrefi á undan af því að við vitum að störfin eru að breytast, samfélag okkar er að breytast og þarfir viðskiptavinanna eru að breytast og við erum skrefi á undan að mæta því; að þróa fólkið okkar innan frá og gefa því aukin tækifæri. Samkeppnin um starfsfólk á innanlandsmarkaði mun aukast og við ætlum að halda áfram að vera í forskoti á grundvelli mannauðs og fyrirtækjamenningar. Við erum með forskot og virkilega hæfileikaríkt fólk á bak við okkur.“

Jafnrétti fyrir alla

Samkaup fóru í haust af stað með átak sem kallast „jafnrétti fyrir alla – Samkaup alla leið“. „Við fórum í samstarf við Samtökin ‘78, Þroskahjálp og Mirru, fræðslu- og rannsóknarsetur um málefni erlendra starfsmanna, í þá vegferð að opna umræðuna og lyfta betur upp fjölbreytileikanum. Í samfélaginu okkar býr fjölbreyttur hópur af fólki og við eigum að lyfta því hærra. Við eigum að vera mjög meðvituð um að við erum ekki öll eins og hvað við ætlum að gera sem fyrirtæki til að stíga dansinn þar. Það á ekki að gera ráð fyrir að allir passi í sama kassann. Við erum með fræðslu, þá sérstaklega til stjórnenda, um fjölbreytileikann, um mismunandi þjóðerni, mismunandi menningarheima og um það að vera með starfsfólk í vinnu sem er með skerta starfsgetu. Allt þetta skiptir máli fyrir samfélagið okkar. Þannig að við byrjuðum með fræðsluvettvang til að fræða stjórnendur og starfsfólk um fjölbreytileikann okkar. Næsta skref í þessari jafnréttisvegferð er að setja af stað rýnihópa og jafnréttisnefnd úti um allt land; einstaklingar úr verslunum Samkaupa verða jafnréttissendiherrar og munu svo miðla þekkingunni áfram. Við erum að passa upp á hvernig við tölum, hvort við séum að bjóða allt starfsfólk og viðskiptavini velkomin, hvernig við setjum skilaboðin fram, á hvaða tungumálum og hvort allt starfsfólk sé með í vegferð Samkaupa. Þannig að við erum sífellt að miðla því hve mikilvægt það sé að við berum virðingu fyrir hvert öðru, sama hvaðan við komum eða hvernig við erum.

Það skiptir gríðarlega miklu máli að okkur sem samfélagi sé umhugað um fólkið í kringum okkur og séum meðvituð um þá minnihlutahópa sem eru til staðar í samfélaginu okkar. Aðalmarkmið Samkaupa með nýrri og útvíkkaðri jafnréttisáætlun er að opna enn meira á umræðuna í samfélaginu og fræða starfsfólk okkar til þess að lágmarka hættu á fordómum, með það að markmiði að menning Samkaupa endurspegli fordómaleysi og frelsi allra einstaklinga til að vera þeir sjálfir á vinnustaðnum.

Samkaup leggja áherslu á jöfn tækifæri til starfsþátttöku og að nýta til fulls styrkleika allra, óháð þeim takmörkunum sem fólki kunna að vera sett, þannig að hæfileikar, kraftar og færni allra starfsmanna fyrirtækisins njóti sín sem best. Með jafnréttisáætlun og stefnu Samkaupa í jafnréttismálum hafa stjórnendur skuldbundið sig til að leggja áherslu á málaflokkinn, þar sem hver einstaklingur er metinn að verðleikum eftir hæfni og frammistöðu.

Að auki við að vinna jafnréttisáætlun með það að markmiði að efla hag starfsfólks og starfsánægju, er það einlæg von Samkaupa að þessi metnaðarfulla jafnréttisáætlun verði eftirtektarverð úti í samfélaginu og hvetji önnur fyrirtæki til að feta sömu leið í jafnréttismálum. Þannig vonast Samkaup til að verða jákvætt afl út í allt okkar samfélag og breyta heiminum í vissum skilningi.“

Nýsköpunarkeppni

Nú stendur yfir nýsköpunarvika Íslands og samhliða því var sett á laggirnar nýsköpunarkeppni innan Samkaupa. „Við erum að hvetja starfsfólk okkar til að taka skref í nýsköpun og er nú verið að safna hugmyndum innan Samkaupa. Þar getur hver einasti starfsmaður, hvort sem þeir vilja hópa sig saman eða koma fram sem einstaklingar, sent inn hugmyndir að hvers konar nýsköpun sem þau hafa trú á að geti virkað innan fyrirtækisins, hvort sem það er breytt eða bætt ferli, vara sem ætti að fara á markað eða nýjung í þjónustu, og í raun erum við opin fyrir öllum hugmyndum. Fimm af þessum hugmyndum verða í maílok valdar af dómnefnd og þrjár af þeim fara í framkvæmd. Þarna erum við að virkja hvern einasta starfsmann fyrirtækisins til að taka skrefið og láta í sér heyra og fá svo tækifæri til að taka verkefni sitt áfram og fjármagn til að setja það í framkvæmd.“

Gunnur endurtekur að hún hafi trú á því að hjá Samkaupum starfi öflugasti mannauður landsins og að Samkaup séu eitt af eftirsóknarverðustu fyrirtækjunum á íslenskum markaði. „Það er einstakt að vinna hjá Samkaupum, það er gott lið og góð liðsheild og við finnum það á starfsfólkinu okkar, núna þegar við erum að fara að heimsækja allar verslanir og tala við starfsfólk, að það virkilega skín í gegn þetta stolt. Það er sama hjá hvaða vörumerki það vinnur – hvort það er Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin eða Iceland; það eru allir stoltir af að vinna hjá Samkaupum og vera í Samkaupaliðinu. Þannig að grunnstefna okkar skín í gegn – við hugsum um fólkið okkar, við vitum fyrir hvað við stöndum í dag og hvert við erum að stefna áfram til framtíðar.“