Weird Pickle hóf starfsemi sína fyrir um einu og hálfu ári, en hlutverk fyrirtækisins er að vinna með sprotafyrirtækjum og hjálpa þeim að stíga sín fyrstu skref. Það eru ekki mörg fyrirtæki sem sinna þessu hlutverki á Íslandi, en Weird Pickle var stofnað af Rünno Allikivi fjárfestingastjóra, Emil Ásgrímssyni hönnunarstjóra og Jósep Birgi Þórhallssyni, sem sér um viðskiptaþróun.

Bæta upp það sem sprotafyrirtæki skortir

„Við valdeflum sprotafyrirtæki og veitum þeim aðstoð á þeim sviðum sem þau skortir hana. Við tökum bæði þátt í stofnun fyrirtækja með öðrum eða stofnum fyrirtæki byggð á okkar eigin hugmyndum. Við vinnum með frábærum frumkvöðlum, veitum þeim fjármögnunartól og hjálpum þeim að byggja upp fyrirtækin sín,“ segir Rünno. „Við veitum ekki fjármagn, heldur veljum við þau sprotafyrirtæki sem við aðstoðum mjög vandlega. Við byggjum þau svo upp þar til þau hafa laðað til sín fjárfesta og farið í gegnum að minnsta kosti eitt fjármögnunarferli.

Við stofnendurnir höfum allir ólíkan bakgrunn,“ segir Rünno. „Emil er mjög hæfileikaríkur hönnuður og sér um sjónræna hluta Weird Pickle. Það er oft eitthvað sem stofnendur sprotafyrirtækja skortir og yfirleitt hafa þeir ekki efni á því að byggja upp aðlaðandi vörumerki og finna réttu leiðina til að kynna sig fyrr en á seinni stigum.“

„Það snýst ekki bara um hvernig við látum fyrirtækið líta út, heldur líka hvaða sögu það segir, allt frá fyrsta degi,“ bætir Emil við.

„Jósep kemur svo að rekstrinum, hjálpar til við að byggja upp ólík verkefni og skapa viðskipta-, þróunar- og söluáætlanir,“ segir Rünno. „Við þrír vinnum saman að þeim ólíku þáttum sem þarf að bæta upp hjá fyrirtækjunum sem við tökum þátt í að stofna.“

Minnka áhættu fyrir fjárfesta

„Sjálfur kem ég úr umhverfi vísissjóða og fjárfesta og vann með viðskipta- og fjárfestingarfyrirtæki á Norðurlöndum sem heitir Funderbeam,“ segir Rünno. „Eftir það tók ég þátt í að stofna Poolside, fyrirtæki sem einfaldar stofnun og utanumhald fjárfestingarsjóða. Það er eitt af fyrstu fyrirtækjunum sem Weird Pickle tók þátt í að stofna.

Margir frumkvöðlar átta sig ekki á áhættunni sem er fólgin í því að fjárfesta á fyrstu stigum fyrirtækjanna, en það sem við gerum er að draga úr þessari áhættu og gera fyrirtækin þannig meira aðlaðandi fyrir fjárfesta,“ segir Rünno. „Vegna tengsla minna við fjárfesta á Norðurlöndum get ég líka hjálpað til við að laða fjármagn inn í íslensk sprotafyrirtæki.“

Hluti af fjölbreyttum fyrirtækjum

„Sem stendur komum við að þremur íslenskum fyrirtækjum, einu sænsku og einu eistnesku og getum varla bætt við fleirum,“ segir Rünno. „Í Svíþjóð erum við hluti af upplýsingatæknifyrirtæki sem Jósep stýrir, en það vinnur að því að minnka kolefnislosun með því að gera vöruflutninga skilvirkari. Við erum líka hluti af rafíþróttafyrirtæki sem heitir ECA, sem er að klára fyrstu fjármögnun. Nýlega hófum við líka samstarf við Vitar Games, sem er stórskemmtilegt tölvuleikjafyrirtæki. Ef fólk á leið fram hjá skrifstofunni okkar getur það svo bragðað á Hops, áfengislausum gosdrykk með humlum sem fer bráðlega í sölu.“

Vaxa hratt og þurfa gott fólk

„Weird Pickle er að vaxa hratt og í sumar verður ráðist í fjármögnum fyrir sum af fyrirtækjunum sem við höfum tekið þátt í að stofna,“ segir Rünno. „Við erum alltaf að leita að hæfileikaríku starfsfólki með bakgrunn í markaðssetningu og þurfum á góðu fólki að halda til að halda í við þróunina sem er að eiga sér stað.

Við vinnum náið með Iceland Innovation Week og íslenskum vísisfjárfestum og hvetjum alla til að koma til okkar í opið hús á Laugavegi 10, næsta þriðjudag, 17. maí, milli klukkan 16-18,“ segir Rünno. „Þar getur fólk komið og smakkað humlavatn og danskt náttúruvín og kynnt sér starfsemi okkar nánar.“ ■