„Það er sérstaklega skemmtilegt að starfa í upplýsingatækni í bönkunum þessi misserin. Það eru gífurlegar breytingar á því hvernig við veitum okkar þjónustu þar sem tækninni fleygir fram og viðskiptavinir vilja að sjálfsögðu fá eins mikla og góða þjónustu í sjálfsafgreiðslu og hægt er,“ segir Halldóra sem starfar við þróun hugbúnaðar á sviði greiðslumiðlunar á Upplýsingatæknisviði Landsbankans, þar sem hún er hópstjóri.

„Þetta leiðir af sér ógrynni góðra hugbúnaðarverkefna og getur verið snúið að forgangsraða og velja vænlegustu verkefnin. Þessi nýju verkefni keyrum við eins hratt og vel og við getum í svokölluðum sellum, þar sem blandaður hópur sérfræðinga er settur saman í verkefnahóp. Í sellunni eru þá bæði forritarar, sérfræðingar, verkefnastjóri og lögfræðingur – eða í rauninni allt sem þarf til að hægt sé að klára verkefnið vel. Sellan situr síðan saman og ber ábyrgð á því að klára verkefnið.“

Vinnur fyrir Íslands hönd

Halldóra tók nýlega sæti í stjórn Reiknistofu bankanna (RB) og í Greiðsluráði Evrópu (EPC) fyrir hönd íslensku bankanna.

„Eitt af því sem nánast öll fjármálafyrirtæki í Evrópu hafa legið yfir síðustu árin, og er stóra verkefnið mitt nú, er ný reglugerð frá Evrópusambandinu sem nefnist PSD2. Tilgangur með reglugerðinni er að auka öryggi í netgreiðslum og leyfa öðrum en bönkum að fá aðgengi að bankareikningum viðskiptavina sinna, en að sjálfsögðu aðeins með samþykki umræddra viðskiptavina,“ upplýsir Halldóra, og heldur áfram:

„Þetta þýðir að við munum opna á sjálfsafgreiðslu með svokölluðum API-þjónustum svo að þjónustuaðilar geti leyft viðskiptavinum að framkvæma millifærslur í sínu eigin appi og skoða bankareikningana sína. Þetta er gert með því að láta appið hafa samskipti við bankakerfið í gegnum API með öruggum hætti. Þá eru einnig gerðar kröfur um aukið öryggi í greiðslum og munu viðskiptavinir verða varir við ýmsar breytingar á árinu, svo sem í því hvernig innskráning er framkvæmd og hvernig greiðsla er staðfest. Þetta er stærsta verkefnið mitt þessa dagana og ég held að það sé nokkuð ljóst að þessi vegferð, um að opna bankakerfið, muni halda áfram á næstu árum.“

Undanfarin ár hefur Reiknistofa bankanna innleitt Sopra-kerfið sem er stórt og mikið verkefni sem allir bankar hér á landi hafa tekið þátt í, hver á sínum tíma.

„Sopra er klárlega stærsta verkefni sem ég hef tekið þátt í en Landsbankinn ruddi brautina og var fyrstur í loftið haustið 2017. Nú stefnir í að síðustu aðilarnir taki upp kerfið um miðjan febrúar. Þá verður loksins hægt að hefjast handa við að hætta alfarið notkun eldri greiðslu- og innlánakerfa RB. Þetta er stórt verkefni sem snertir Landsbankann með beinum hætti þar sem við þurfum að losa ýmsar lausnir af stórtölvu RB en til stendur að hætta notkun hennar. Ég tók nýlega sæti í stjórn RB og það verður gaman að fylgjast með og taka þátt í þessu og öðrum verkefnum, bæði í gegnum stjórnarsetuna og með störfum mínum hjá bankanum,“ segir Halldóra.

Stór verkefni í greiðslumiðlun

Fram undan eru fleiri stór og krefjandi verkefni hjá Halldóru.

„Meðal annars tek ég nú þátt í undirbúningi verkefnis um að taka upp evrópskar reglubækur fyrir greiðslumiðlun á Íslandi. Við erum nefnilega svo góðu vön hér á Íslandi, að hafa verið með rauntímagreiðslur síðan Reiknistofa bankanna gerði það mögulegt árið 1987. Þá vorum við langfyrsta landið í heiminum til að gera slíkt og í dag þykir okkur ekkert sjálfsagðara en að geta millifært okkar á milli á innan við sekúndu, á meðan vinir okkar í Evrópu eru bara rétt nýfarnir að geta þetta,“ greinir Halldóra frá.

Evrópubúar eru þó strax komnir skrefi framar því þeir geti sent evrur í rauntíma á milli landa en fyrir okkur tekur það klukkustundir upp í einn dag að koma evrum yfir til Evrópu.

„Vinnan í Evrópu hefur verið unnin af EPC (European Payments Council) og er því samræmd og unnin í samstarfi við markaðinn í heild. Því eru allir bankar að gera þetta með sömu aðferð, á hagkvæman hátt eftir sömu reglubókinni. Við á Íslandi erum því að skoða hvernig við getum aðlagað okkar innviði þessum evrópsku stöðlum. Það er mikilvægt að við stöndum jafnfætis evrópska markaðnum og fáum þannig betri tækifæri til að taka þátt í alþjóðlegu eða evrópsku samstarfi um greiðslur, bæði fyrir bankann og viðskiptavinina,“ segir Halldóra, og víst að nýlegt sæti hennar í EPC, fyrir hönd íslensku bankanna, fellur sérstaklega vel að þessu verkefni.

Halldóra hvetur konur til að hasla sér völl í skemmtilegum og spennandi hugbúnaðargeiranum. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Kunni varla á tölvu í upphafi

Halldóra hóf nám í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík árið 2000.

„Þá áttaði ég mig ekki á hversu spennandi vettvang ég var að fara inn á. Á þeim tíma var internetbólan í hámarki, það varð mikil fjölgun nemenda og algjör metþátttaka kvenna. Þetta nám var ótrúlega skemmtilegt! Ég var ákveðin í að standa mig vel og vera enginn eftirbátur hinna, þrátt fyrir að hafa varla kunnað á tölvur þegar ég byrjaði – og það tókst!“ segir hún kát.

Halldóra hefur unnið lengi hjá Landsbankanum.

„Þar hef ég fengið tækifæri til að spreyta mig á ýmsum hlutverkum sem hefur verið mjög lærdómsríkt og er einmitt kostur þess að vinna hjá jafn stóru fyrirtæki og Landsbankinn er. Sem dæmi byrjaði ég sem forritari í vefdeild og varð síðar forritari á greiðslu- og kortakerfum bankans. Ég var á tímabili greinandi og verkefnastjóri á Verkefnastofu bankans, var síðar vörustjóri á Fyrirtækjasviði þar til ég fór aftur „heim“ yfir á Upplýsingatæknisvið þar sem ég tek við greiðsluhópnum í Hugbúnaðarlausnum. Það er ótrúlega gaman að hafa tekið þennan 360 gráðu hring um bankann sem styrkir mig mjög í núverandi hlutverki. Landsbankinn er afskaplega góður vinnustaður þar sem jafnréttismálin hafa verið tekin föstum tökum. Þar er vel hugsað um starfsfólkið og andinn er góður.“

Karllægur geiri á breytingaskeiði

Halldóra segir hugbúnaðargeirann enn vera frekar karllægan.

„En ég hef alltaf haft jafn mikla trú á að það sé að breytast og jafnast, því störf innan geirans eru svo fjölbreytt og nýjar tegundir starfa verða sífellt til. Aðalatriðið er nú samt að það er svo mikilvægt að hafa kynjablöndun í teymum, því við komum með ólíka hluti að borðinu og erum að smíða vörur fyrir alla. Því er fjölbreytileikinn svo mikilvægur. Það er ekki spurning að við náum betri árangri og betra jafnvægi með því að hafa jafnt konur sem karla við borðið. Þetta er eitthvað sem við höfum í huga í Landsbankanum og ég er ótrúlega ánægð með að í mínu teymi eru jöfn kynjahlutföll og góð dreifing á styrkleikum svo við bætum hvert annað vel upp.“

Hún hvetur konur til að láta til sín taka og sækja í þennan geira.

„Því það er pláss, og munið að þið þurfið ekki að reyna að vera með sömu styrkleika og gaurinn við hliðina því við viljum fá ólíka styrkleika inn til að hafa ekki einsleit teymi. Ég hvet líka sem flesta sem eru í öðrum greinum í háskóla eða jafnvel útskrifuð til að taka nokkur fög tengd tölvunarfræði eða kerfislegri hugsun því það mun margborga sig og styrkja ykkur á vinnumarkaði.“

Ýmislegt líkt með húsgagnasmíði og hugbúnaðargerð

Í Covid-inu tók Halldóra sig til og skráði sig til náms í húsgagnasmíði við Tækniskólann.

„Það hefur verið alveg ótrúlega skemmtilegt og ég ætla að halda því áfram. Það er heilmikil núvitund fólgin í því að vera að vinna með viðinn, ákveðin hvíld frá erli dagsins, fyrir utan hversu gaman það er að smíða og vinna með við og sjá afraksturinn. Það hefur verið áhugavert að þarna hef ég rekist á fleira fólk úr tæknigeiranum og maður veltir fyrir sér hvort þetta sé einhver bylgja. Það er kannski samhljómur með því að smíða hugbúnað og að smíða húsgagn eða hús. Hvoru tveggja er skapandi nákvæmnisvinna sem krefst góðrar hönnunar og réttra tóla,“ segir Halldóra.

Þriggja daga ganga á Rauðasandi

Þegar heimsfaraldurinn skall á fóru Halldóra og maðurinn hennar að stunda gönguferðir og skráðu sig í skipulagðar göngur hjá gönguklúbbnum Veseni og vergangi.

„Það hefur verið æðislegt að kynnast betur umhverfinu í kringum borgina og við höfum farið leiðir sem okkur hefði ekki dottið í hug að fara upp á okkar einsdæmi. Í fyrrasumar fórum við í okkar fyrstu lengri göngu sem tekur meira en dagleið og var algjörlega stórkostleg upplifun. Nú verður ekki aftur snúið og stefnum við á að taka allavega eina lengri göngu á hverju sumri. Í júní ætlum við í skipulagða þriggja daga göngu á Rauðasandi og nágrenni, og hlakka ég sérstaklega mikið til þar sem amma mín ólst upp á Rauðasandi og við höfum margar heyrt sögurnar frá þessu svæði,“ segir Halldóra, full tilhlökkunar fyrir sumri komanda og spennandi verkefnum fram undan í Landsbankanum.

Þetta viðtal birtist fyrst í sérblaði Félags kvenna í atvinnurekstri sem fylgdi Fréttablaðinu fimmtudaginn 20. janúar 2022.